Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 11:21:58 (4804)

2000-02-24 11:21:58# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[11:21]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei sagt að ég hafi eitthvað á móti þessum 500 milljörðum sem lífeyrissjóðirnir eiga. Mér finnst það gott mál. Spurningin er um ráðstöfun þeirra. Hver ráðskast með þessa peninga?

Hv. þm. sagði að það væru skuldbindingar á móti þessum peningum. Það er alveg hárrétt og því er lýst í lögunum. Og þegar um er að ræða skuldbindingu eins þá er til staðar krafa annars. Og hver skyldi eiga kröfuna?

Ég bið hv. þm. að líta á hlutabréf í Eimskip. Hver er krafan þar? Það er ekki kvaða- og skuldbindingalaus eign. Ef ég á hlutabréf í Eimskip þá get ég ekki farið inn og náð í skrifborð hjá Eimskip. Ég á bara almenna kröfu og ekki einu sinni kröfu um arð. Hluthafafundur þarf að samþykkja það. Samt segja menn að ég sem hluthafi eigi Eimskip og allir hluthafar Eimskips eigi fyrirtækið í heild sinni.

Mín spurning til hv. þm. er: Hver á réttindin hjá lífeyrissjóðunum? Ef eignir sjóðanna standa á móti réttindunum, hver á þá eignirnar?

Að síðustu vildi ég spyrja hv. þm.: Líkar honum vel sú uppákoma sem varð á aðalfundi FBA í gær og eftirmálar þess, þar sem forstöðumenn lífeyrissjóðanna, umboðsmenn sjóðsfélaga sem ekki hafa kosið þá og eru meira að segja tilnefndir af atvinnurekendum, kvarta undan því að fá ekki völd í krafti þess fjármagns sem sjóðsfélagarnir eiga?