Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 11:27:59 (4808)

2000-02-24 11:27:59# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[11:27]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér breytingar á fjárfestingarmöguleikum lífeyrissjóðanna eða heimildum þeirra og einnig um starfsréttindi eða kvaðir um kunnáttu starfsmanna sjóðanna.

Saga lífeyrissjóðakerfisins er nokkuð löng. Hún hófst um 1920 með Lífeyrissjóði embættismanna. Ég ætla nú ekki að fara nánar út í þá sögu nema það að árið 1969 var í samningum ákveðið að stofna hina almennu lífeyrissjóði sem nú ganga undir nafninu SAL. Meginhugsunin á bak við það var að verkamenn og aðrir ættu sama rétt til lána og aðrir. Hugsunin um lán var númer eitt, tvö og þrjú.

Þetta gekk voðalega illa. Ákaflega fáir gengu í lífeyrissjóðina. Ég tók til starfa sem forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna árið 1977. Þá voru bara nokkur þúsund manns eða tvö eða þrjú þúsund sem borguðu þar inn í kjölfar þessarar samninga, sem sagt afskaplega lítið.

[11:30]

Þá brugðu menn á það ráð að panta lagasetningu frá Alþingi. Árið 1974 voru sett lög sem eru þau makalausustu í heiminum þar sem kveðið var á um að öllum launþegum væri rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði, punktur og basta. Viðkomandi starfstéttar eða starfshóps heitir það. Ekkert var um það að lífeyrissjóðirnir stæðu við skuldbindingar sínar. Ekkert var um fjármálastefnu, ekkert um kvaðir um eftirlit eða neitt slíkt. Það var ekkert annað en þetta.

Eftir þetta gátu lífeyrissjóðirnir sent lögfræðinga inn í fyrirtækin til að ná í iðgjöldin og þá fjölgaði félagsmönnum allverulega og varð sprenging eftir 1974. Árið 1980 var þetta svo aukið enn frekar þar sem sjálfstæðir atvinnurekendur voru þá settir inn í þennan hóp líka. Nánast allir sem hafa laun vegna starfa sinna voru skyldaðir til að borga í lífeyrissjóð. Þetta frumkvæði löggjafans er ástæðan fyrir þeirri miklu aukningu sem hefur orðið á aðild að lífeyrissjóðunum. Hins vegar varð eign lífeyrissjóðanna afskaplega illa út í verðbólgunni fram til 1980. Hún brann alveg upp þannig að allar eignir lífeyrissjóðanna fyrir 1980 og öll iðgjöld sem voru greidd fyrir þann tíma hurfu, urðu að engu.

Verðtryggingin 1980 sem hófst hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna 1979 olli því að eignirnar geymdust. Hún er ástæðan fyrir hinum miklu eignum lífeyrissjóðanna í dag og aftur var það löggjafinn sem heimilaði þetta. Lífeyrissjóðirnir bjuggu við afskaplega þægilegt umhverfi á þeim tíma. Það mátti lána til ríkis- og sveitarfélaga. Þeir máttu eiga innstæður í bönkum eða bankabréf, en þá voru eingöngu ríkisbankar og sparisjóðir, og menn gátu lánað til sjóðfélaganna, svona 60--70% af verðmæti fasteigna, fasteignamati. Svona var þetta einfalt í þá daga. Það var ekki mikill vandi að stunda fjárfestingarstarfsemi í þá daga. Menn keyptu bara af ríkinu spariskírteini eða húsbréf. Þau voru reyndar ekki komin. Svo lánuðu menn bönkunum og sjóðsfélögunum. Það var aðalstarfið. Flest útlán lífeyrissjóðanna voru til sjóðfélaga og mjög strangar kvaðir voru um veðsetningu. Þar lentu sjóðirnir að sjálfsögðu í hagsmunaárekstri því að sjóðfélagar sem lántakendur vildu að sjálfsögðu greiða lága vexti og enga verðtryggingu en sjóðfélagar sem lífeyrisþegar vildu aftur á móti háa vexti og verðtryggingu. Þessi hagsmunaárekstur var því til staðar innan sjóðanna.

Svo var alltaf dálítil krafa um að sjóðirnir breyttu vangoldnum iðgjöldum fyrirtækja sem voru í vandræðum og voru að fara að loka, í lán. Sá hagsmunaárekstur var líka alltaf til staðar.

Svo gjörbreytist umhverfið. Bankar eru ekki lengur ríkisbankar, ekki endilega, og það fara að koma hlutabréf. Einstaka sjóðir hafa heimild til að kaupa hlutabréf. Lífeyrissjóður verslunarmanna mátti kaupa fyrir 10% af ráðstöfunarfé t.d. En flestir sjóðirnir máttu það ekki. Þetta gjörbreytta umhverfi náði til lífeyrissjóðanna þegar lögin voru sett í desember 1997, þ.e. þær reglur sem eru í gildi í dag og mikil aukning varð á heimildum sjóðanna til að kaupa verðbréf þó með þeim kvöðum sem eru í gildi í dag. Þessar kvaðir voru ræddar mjög ítarlega í lífeyrissjóðanefndinni sem ég sat í og menn ræddu það hvernig fjárfestingarstefnu ætti að hafa fyrir hönd stjórnar sjóðanna. Auðvitað hefðu stjórnir sjóðanna átt að setja svona reglur. En þær höfðu ekki gert það, höfðu ekki heimild til þess.

Um leið og menn auka möguleika lífeyrissjóðanna til að kaupa hlutabréf þá eykst áhættan stórlega, áhætta á að menn geri mistök, áhætta á að menn kaupi hlutabréf í fyrirtækjum sem verði gjaldþrota, áhætta á að menn láni til aðila sem geti ekki borgað o.s.frv. Og alveg sérstaklega er hættulegt að fjárfesta erlendis. Innan lands felst hættan í því að menn kaupi í fyrirtækjum sem eru burðarás atvinnu á staðnum. Það þekkjum við. Lífeyrissjóðirnir setja sig með því í stórhættu því menn eru ekki að fjárfesta í bestu fyrirtækjunum. Það er ekki vænlegur fjárfestingarkostur heldur björgunaraðgerð sem er mjög hættuleg.

Undanfarið hefur verið feiknagóð ávöxtun hér á landi og erlendis, bæði í hlutabréfum og í skuldabréfum líka vegna þess að vextir hafa lækkað úr því að vera svona 7--8% jafnvel 9% raunvextir á ríkispappírum, niður í 4--5% í dag. Því hefur gengi skuldabréfa stórhækkað vegna þess að gengi skuldabréfa hækkar þegar ávöxtunarkrafan lækkar. Og það þekkja menn að hlutabréfin hafa ekki gert neitt annað en að hækka síðustu tvö, þrjú árin hér á landi og erlendis hefur sú hækkunarhrina staðið í sex til sjö ár og jafnvel svo lengi að menn eru farnir að trúa því að nú séu einhver ný hagfræðilögmál í gangi. Þær reglubundnu sveiflur upp og niður á hlutabréfamarkaði hafa ekki látið á sér kræla erlendis enn sem komið er, en margir vænta þeirra. Það er enginn vandi að skila góðum árangri þegar vel gengur. Það er eiginlega vandi að skila ekki góðri ávöxtun þegar svona vel gengur. Það væri snilld. Það að vísa í góðan árangur lífeyrissjóðanna undanfarið í fjárfestingum eru því í rauninni ekki rök fyrir því að rýmka reglurnar verulega.

Erlendar fjárfestingar sérstaklega eru mjög hættulegar vegna þess að menn eru að fjárfesta í umhverfi sem þeir þekkja ekki. Ég veit að margir sjóðanna hafa farið þá skynsamlegu leið að reiða sig á sérfræðinga erlendis, þ.e. fjárfesta í gegnum erlenda verðbréfasjóði eða hlutabréfasjóði. Ég held að ekkert annað sé skynsamlegt. Það eina skynsamlega er að gera það þannig. Það reynir á þessa útlánastefnu eða á snilld mannanna sem stjórna þessu þegar gengið fer að lækka. Þegar vextirnir hækka á skuldabréfunum og alveg sérstaklega þegar gengi hlutabréfa fer að lækka þá reynir á snilldina. Þá reynir á það hvernig mönnum tekst að ná góðri ávöxtun þrátt fyrir lækkandi gengi. Vegna forsögunnar og þess hvað menn koma úr vernduðu umhverfi þar sem ekkert gat brugðist --- það gat ekkert brugðist vegna þess að menn máttu ekki gera neitt --- og fara yfir í það frelsi sem nú er þá held ég að nokkuð vafasamt sé að auka þessar heimildir mikið. Ég legg til að hv. efh.- og viðskn. sem ég á sæti í gaumgæfi mjög vandlega hugmyndir um rýmkum í ljósi þess að menn eru að koma úr algjörlega vernduðu umhverfi og eru að fara út í afskaplega lítið verndað umhverfi, þ.e. útlönd. Þar gildir hinn harði heimur samkeppninnar og menn verða að hafa mikla þekkingu og mikla reynslu í fjárfestingum og alveg sérstaklega þegar gengið fer fallandi.

Það er kostur að í þessu frv. eru gerðar hæfiskröfur til stjórnenda en eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um þá eru þær loðnar og það er sennilega til þess að helmingur stjórnenda verði ekki óhæfur, þ.e. þurfi að hætta ef lögin verða sett. Hv. nefnd þarf líka að skoða hvaða afleiðingar þessar hæfiskröfur hafa, eins veikar og þær eru, á þá stjórnendur sem eru í dag hjá lífeyrissjóðunum. En eins og ég gat um áðan þá koma þeir úr mjög vernduðu umhverfi. Þetta tengist að sjálfsögðu því hverjir eigi lífeyrissjóðina og það er ekki út í bláinn sem ég kem þeirri umræðu aftur og aftur hér á dagskrá. Það er vegna þess að það vantar allt aðhald í dag. Það er ekkert aðhald hjá þessum lífeyrissjóðum. Það er enginn eigandi sem segir: ,,Hvað eruð þið að gera hérna?`` Það er enginn sem spyr stjórnina. Það vantar þetta aðhald sem stjórnin þarf að hafa. Þess vegna tel ég mjög brýnt að hv. þingmenn hugleiði hvort ekki sé hægt að finna eiganda að þessu fé og innleiða aðhald hans. Það er alls staðar nauðsynlegt fyrir alla stjórnendur að einhver veiti þeim aðhald gagnvart gjörðum sínum. En það er ekki til staðar í dag.

Uppákoma sem varð í kjölfar fundarins í gær hjá FBA er einmitt lýsandi fyrir það að menn eru farnir að nota það vald, sem þetta fé sem sjóðfélagar eiga, gefur til þess að ná sjálfir í stjórnarsæti í krafti þessa fjármagns sem þeir eiga ekkert í og hafa enga áhættu af. Ég geri mikinn mun á því hvort menn hafi fjárfest og séu að taka áhættu upp á fleiri hundruð milljónir prívat og persónulega, jafnvel með lánum, ég geri mikinn mun á því hvernig sá maður hegðar sér og einhver annar sem á ekkert undir nema stjórnarlaunin sín. Ég skora því á hv. þm. að leita að eigendum að þessu fé. Nákvæmlega það sama gildir um bóndann sem rekur sitt fé í haga. Bændur meðal hv. þm. þekkja það að féð þarf aga annars rásar það út um allt og týnist og hleypur fyrir björg. Það er nákvæmlega eins með þetta fé í lífeyrissjóðunum, þessa 500 milljarða, að það skiptir verulegu máli fyrir íslenska þjóð að til sé einhver hirðir fyrir þetta fé, einhver eigandi, þannig það rási ekki fyrir björg og tapi sér.