Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 11:39:52 (4809)

2000-02-24 11:39:52# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[11:39]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Nýlega fékk ég í hendur álit frá erlendu matsfyrirtæki um efnahagsmál á Íslandi. Nýr aðili var fenginn til þess að leggja mat á lánshæfi íslenska ríkisins til viðbótar við þá tvo sem það hafa gert áður. Við fengum eins og vænta mátti afskaplega góða einkunn sem skipar okkur á bás með helstu þjóðum í Vestur-Evrópu. Eitt af því sem sérstaklega var nefnt og týnt til sem styrkir stöðu íslenska ríkisins og Íslands er lífeyrissjóðakerfið á Íslandi, þ.e. sú staðreynd að við höfum búið vel um okkur með tilliti til framtíðarinnar eftir því sem þjóðin eldist. Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar er þannig að hún er tiltölulega ung enn sem komið er. En auðvitað breytist það og þá gildir að vera búinn að koma málunum þannig fyrir að við ráðum við þann kostnaðarauka sem af því hlýst. Það er ekkert vafamál að staða Íslands í þessu efni er mun betri en margra annarra þjóða, m.a. í Vestur-Evrópu, sem þó hafa sama lánshæfismat og við. Með öðrum orðum þá er það gríðarlega mikilvægt mál hvernig búið er að lífeyrismálum þjóðarinnar og hvernig unnið er að því að styrkja þá þætti. Gjarnan er talað um að lífeyriskerfi okkar sé byggt á þremur þáttum, í fyrsta lagi á lífeyrissjóðunum sem sú löggjöf fjallar um sem við erum að tala um hérna í dag, í öðru lagi á almannatryggingakerfinu og í þriðja lagi á hinum frjálsa lífeyrissparnaði. Þetta eru þær þrjár stoðir sem kerfið í heild sinni byggir á. Og við reynum að sjálfsögðu að búa þannig um hnútana að hver og ein þeirra sé öflug og geti gegnt sínu hlutverki.

Við höfum, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, náð á undanförnum 30 árum, þó frekar á undanförnum 20 árum, að byggja upp mjög öflugt lífeyrissjóðakerfi sem byggist á samkomulagi aðila úti á vinnumarkaðnum. Það er fyrsta stoðin, lífeyrissjóðakerfið sjálft, og það mál sem hér er til umræðu núna með tilliti til breytinga á gildandi lögum.

Við erum með söfnunarkerfi á Íslandi. Við erum ekki með gegnumstreymiskerfi eins og hér hefur borið á góma heldur kerfi þar sem fé safnast upp, þar sem ein kynslóð safnar fyrir sjálfri sér í stað þess að borga á vinnualdri sínum með annarri kynslóð sem er komin á eftirlaun. Þetta kerfi hefur yfirburði yfir það sem við þekkjum í öðrum löndum þar sem fram undan eru, t.d. í mörgum ríkjum Evrópusambandsins, gríðarmikil vandamál í framtíðinni þegar kemur að því að fjölmennar kynslóðir komast á eftirlaun og ekki hefur verið búið í haginn með sama hætti og hérlendis í þessum efnum. Þá verður nú fróðlegt að fylgjast með því hvernig Evrópusambandið fer að deila byrðunum á milli landa, á milli manna, ekki bara kynslóða í því efni. Sem betur fer erum við ekki í þessari stöðu. (SJS: Og ekki í Evrópusambandinu.) Með því samstarfi sem hér hefur verið nefnt úti á vinnumarkaði og með aðild löggjafans erum við búin að koma þessu kerfi í mjög gott horf.

Að því er varðar síðan hinn opinbera þátt og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þá er hann sá þáttur í sjóðakerfinu sem veikastur hefur verið. Við erum núna að reyna á skipulagðan hátt að byrgja þar ákveðinn brunn áður en barnið dettur í hann eftir 10--15 ár, með skipulegum innborgunum af lánsfjárafgangi ríkissjóðs inn í það kerfi, eins og mönnum er kunnugt, og okkur miðar ágætlega í því efni. Og ef við fáum að vera í friði með þær aðgerðir þá munum við leysa þann vanda áður en hann verður að veruleika á tiltölulega fáum árum.

[11:45]

En hvað er þá á ferðinni í þessu máli? Jú, hér er verið að leggja til nokkrar breytingar á tiltölulega nýrri löggjöf án þess þó að ráðist sé í heildarendurskoðun á henni, en breytingar sem menn telja nauðsynlegar í ljósi þeirrar reynslu sem þegar hefur fengist. Það má skipta þessu í nokkur atriði. Það er ein mjög stór breyting sem byggist á því að rýmka fjárfestingarheimildir sjóðanna, einkanlega í útlöndum. Síðan eru hinar breytingarnar meira og minna annaðhvort formlegs eða tæknilegs eðlis og hafa ekki grundvallarþýðingu í þessu máli. Ég felli kröfurnar um hæfi forstöðumanna og stjórnenda undir þennan þátt. Ég geri mér vissulega grein fyrir því að þær eru óljósar að mörgu leyti, m.a. vegna þess að menn hafa ekki viljað fara út í það að setja ákveðnar menntunarkröfur í þessu efni vegna þess að menn geta verið býsna góðir stjórnendur lífeyrissjóða og fjármálastofnana án þess að vera með háskólapróf upp á vasann. Helsti talsmaður þessara kenninga er formaður BSRB sem er eini þingmaðurinn sem situr í stjórn lífeyrissjóðsins eins og hér hefur komið fram. Hann er reyndar ekki hér í dag, en mér er vel kunnugt um hvaða afstöðu hann hefur í því máli. Við höfum ekki viljað setja formlegar menntunarkröfur en hins vegar almennar hæfiskröfur þannig að reynt sé fyrir fram að koma í veg fyrir að þarna verði einhver slys af þessum sökum, þó að auðvitað sé aldrei hægt að tryggja það fullkomlega, eins og hér hefur verið bent á í umræðu af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Þetta er eitt af þeim minni háttar atriðum í samanburði við hitt, sennilega atriði sem ekki hefði þótt tilefni til að fara af stað með sérstakt frv. út af, en er tekið hér með vegna þess að verið var að gera breytingar á annað borð.

En stóra málið í þessu er sem sagt sú rýmkun sem verið er að leggja til á fjárfestingarheimildunum. Þá er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að menn velti því atriði fyrir sér. Er eðlilegt að fara út í slíkar breytingar? Er einhver sérstök þörf á þeim? Hvaða áhrif munu þær hafa efnahagslega séð? Er hægt að tryggja nægilegt eftirlit með þeim þáttum af hálfu þess eftirlitsaðila sem um er að ræða, þ.e. Fjármálaeftirlitsins? Þetta eru allt eðlilegar spurningar sem menn hafa velt mikið fyrir sér í aðdraganda þessa máls og er rétt að komi fram hér í umræðunni og nauðsynlegt að hv. þingnefnd skoði allt þetta vandlega.

En fyrst er kannski rétt að velta þeirri spurningu fyrir sér hvort nauðsynlegt sé að vera með einhverjar takmarkanir í þessu efni. Er ekki eðlilegt að þessir sjóðir eins og hver önnur fyrirtæki ákveði bara sjálfir með hvaða hætti þeir ráðstafi ráðstöfunarfé sínu og ávaxti sitt pund? Svarið við þeirri spurningu er nei, í það minnsta að svo komnu máli. Það er vegna þess að hér er um að ræða meðferð á skyldubundnum sparnaði allra manna í landinu. Og það er ekki eðlilegt að löggjafinn sleppi fullkomlega takinu á svo mikilvægu hagsmunamáli alls almennings, a.m.k. ekki á þessu stigi máls fyrr en þessi mál hafa fengið að þróast og menn eru sannfærðir um að lífeyrissjóðirnir ráði við svo mikilvægt verkefni án þess að þeim séu settar einhverjar skorður af hálfu löggjafans. Málið snýst nefnilega um það að verið er að ávaxta sparnað allra í landinu og það er gert samkvæmt lagaboði. Þeir sem hér eiga hlut að máli, þ.e. lífeyrisþegarnir í landinu og þeir sem borga í lífeyrissjóðina, hafa ekkert val um það hvernig þeir borga í þessa sjóði. Auðvitað mundi málið horfa öðruvísi við ef það væri ekki lögbundið og samningsbundið í hvaða sjóði menn greiða og að mönnum beri skylda til þess. Þess vegna eru takmarkanir á þessu.

Þá er næsta spurning: Eru takmarkanirnar eðlilegar? Okkur sem stöndum að frv. af hálfu ríkisstjórnar og þingflokka hennar finnst rétt að rýmka þær núna. Reyndar er ekki gengið eins langt og ýtrustu kröfur ýmissa í þessu sjóðakerfi hljóða upp á. Það er ekkert leyndarmál að ýmsir aðilar á þeim vettvangi hafa kosið að þarna yrði gengið lengra, til að mynda í 60% að því er varðar erlendar fjárfestingar af heildareign sjóðanna, á meðan við leggjum til í frv. að farið verði úr 40 upp í 50 og það eru vissulega miklar upphæðir sem þar er um að tefla, eins og hér var getið um í umræðunni. Ef menn gefa sér að eignir sjóðanna séu 500 milljarðar, þá er þarna um að ræða 50 milljarða.

Ég var að glugga í ársreikninga eins stærsta lífeyrissjóðs landsins sem birti reikninga sína nýlega og ég sá ekki betur en hann ætti eignir upp á 75 milljarða kr., einn milljarð Bandaríkjadala, þannig að í því tilfelli er þá um að ræða rýmkun sem nemur 7,5 milljörðum. Við erum því að tala um alveg gríðarlega stórar fjárhæðir sem eru má segja á mörkum þess að menn bara hreinlega nái utan um þær vegna þess hve sjóðirnir hafa vaxið mikið á undanförnum árum. En það er í sjálfu sér náttúrlega mikið gleðiefni og mjög ánægjulegt hvernig þar hefur tekist til um stjórnun þessa fjármagns.

Þá kem ég að því sem hér var vakið máls á, hverjar efnahagslegar afleiðingar slíkra breytinga væru. Er þetta rétti tíminn, og má búast við að það hafi einhver óheppileg áhrif að gera þetta í einu stökki? Hér er ekki verið að gera þetta í einu stökki vegna þess að það er ekki þannig að allt í einu mundu stökkva fram á sjónarsviðið lífeyrissjóðir sem mundu vilja fjárfesta erlendis fyrir þessa 50 milljarða í einu lagi, því að þeir eru náttúrlega misjafnlega langt komnir í fjárfestingum sínum. Það er það sem gildir í þessu, ekki að menn taki slíkt risaskref í einu, heldur að þeir geti gert ráðstafanir og áætlanir fram í tímann þar sem þeir hafa þetta svigrúm.

Það var spurt að því áðan hversu margir sjóðir eru farnir að nálgast þetta þak sem er í lögunum í dag. Ég hef reyndar ekki nákvæmar upplýsingar um það, en þeir eru mjög fáir. Það eru ekki margir sjóðir sem reka sig upp undir þessi þök í dag. En til þess að þeir geti tekið skynsamlegar ákvarðanir og gert áætlanir um starfsemi sína eitthvað fram í tímann, þá verða þeir að vita hvaða svigrúm þeir hafa fram á veginn, og þess vegna er skynsamlegt m.a. að gera þessa breytingu. Ég get ekki svarað því nákvæmlega hvaða sjóðir eru að rekast upp í þetta þak og eðlilegast væri kannski að leita eftir því í þingnefndinni. Mér er kunnugt um að t.d. Lífeyrissjóður verkfræðinga hefur verið mjög framsækinn í fjárfestingum á erlendum vettvangi. Mér finnst líklegt að hann sé dæmi um sjóð sem von bráðar mundi reka sig í þessi mörk, en að öðru leyti tel ég rétt að nefndin grennslist fyrir um það atriði.

Ég tel sem sagt ekki að það sé neitt í efnahagsumhverfinu í dag sem geri það að verkum að þessi breyting sé neikvæð. Við höfum bara metið það sjálfir í fjmrn. og ekkert verið að leita endilega álits annarra á því. Það er eðlilegt að nefndin leiti t.d. til Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans um slík atriði. Auðvitað kallar eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri til fjárfestinga í útlöndum á það að tilhneiging verður til að hækka gengi þeirra gjaldmiðla og lækka gengi krónunnar. Það er bara lögmálið um framboð og eftirspurn í öllu sínu veldi sem segir okkur það. En það er ekki þar með sagt að krónan sé það illa í stakk búin eða illa varin að hún þoli ekki slíka eftirspurn. Það eru gríðarleg viðskipti með gjaldeyri á hverjum einasta degi hér í landinu og það eru miklar fjárfestingar og miklir straumar út úr landinu með fjármagn. Þessa dagana, í upphafi þessa árs t.d. hefur verið mjög mikil eftirspurn eftir gjaldeyri til að fjárfesta í útlöndum vegna þess að sjóðirnir hafa verið mikið á ferðinni með sínar fjárfestingar.

Við teljum ekki að ástæða sé til þess að hafa sérstakar áhyggjur af genginu út af þeirri breytingu sem slíkri. Ég tel þvert á móti að það sé mjög æskilegt að rýmka ráðstöfunarheimildir lífeyrissjóða og annarra og hvetja til þess að þeir fjárfesti í útlöndum til þess að minnka heildareftirspurnina hérna innan lands, draga úr þenslunni, koma fjármagni í fjárfestingu erlendis, sem síðar mun aftur skila okkur tekjustraumum í formi arðs og vaxta inn í þjóðarbúið þegar þær fjárfestingar fara að gefa af sér, eins og þær eru þegar farnar að gera í stórum stíl. Það styrkir okkur mjög sem þjóðarbú að geta byggt upp eignir í útlöndum og lífeyrissjóðirnir eru stærsti aðilinn að þeim fjárfestingum og það er mjög gott fyrir þjóðarbúskap okkar.

Heimildir Fjármálaeftirlitsins eru styrktar í frv., það var spurt um það, ég tel að þær séu fullnægjandi.

Síðan var spurt hvort þetta frv. tengdist einhverri ákveðinni fjárfestingu og það er auðvitað alveg af og frá. Þetta frv. er almenns eðlis og tengist ekki tilteknum fjárfestingum og er ekki hugsað út frá slíkum sjónarmiðum.