Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 11:58:15 (4812)

2000-02-24 11:58:15# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[11:58]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú undrandi á því að hæstv. fjmrh. skuli ekki geta rætt þann möguleika, hann er alls ekkert svo fjarri. Ég minnist þess að Lífeyrissjóður bænda var kominn í mjög mikil vandamál á sínum tíma og við höfum heyrt af því að Lífeyrissjóður sjómanna hafi verið kominn í vanda, auðvitað hefur því verið bjargað, en ég hélt að það væri í sjálfu sér eðlileg stjórnsýsluvinna að menn gerðu ráð fyrir öllum þeim möguleikum sem gætu komið upp. Ég verð því að ítreka þá spurningu ef sú staða kæmi upp og það upplýstist, eins og ég hélt, að almennir sjóðir hafa enga baktryggingu eins og sjóðir opinberra starfsmanna og í því liggur gríðarlega mikill eðlismunur. Þeir sem hafa ekkert á bak við sig annað en að trúa og treysta þeim mönnum sem eru sjálfskipaðir í stjórnir þessara sjóða, þeirra áhætta er miklu meiri en hinna, það gefur augaleið. Ég held að menn verði að reikna með því að stjórnvöld og Alþingi geri þá ráð fyrir að einhverjir möguleikar aðrir gætu komið til gagnvart þessu fólki heldur en hjá því sem starfar hjá ríki og sveitarfélögum.