Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 12:03:02 (4815)

2000-02-24 12:03:02# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[12:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar fyrra atriðið þá tel ég mjög æskilegt að meðan þjóðin sem heild skuldsetur sig í útlöndum, séu aðrir aðilar eða hluti af þjóðarbúinu að byggja upp eignir í útlöndum þannig að nettóskuldsetningin verði miklu minni en sem nemur því sem hér kom fram. Það er mjög heppilegt að aðilar eins og lífeyrissjóðirnir og reyndar æskilegt að þeir væru fleiri sem byggja upp eignir erlendis til að geta seinna staðið við þær skuldagreiðslur sem þjóðin þarf að inna af hendi. Reyndar er þetta mál með skuldir þjóðarinnar líka vandmeðfarið vegna þess að þjóðin kemur ekki fram sem einstaklingur eða einn aðili, einn lögaðili, hún er samsett af öllum þeim aðilum sem eru taka sjálfstæðar ákvarðanir. Það vill auðvitað þannig til núna að það eru allt aðrir aðilar en ríkisvaldið sem eru að skuldsetja sig nettó í útlöndum.

En að því er varðar gengisáhættuna þá er hún náttúrlega staðreynd. Á meðan aðilar annaðhvort taka lán eða veita lán í erlendum og mismunandi gjaldmiðlum, þá myndast þar einhver áhætta. Ég tel að hún sé kannski ekki mjög stórfelld að því er varðar þetta atriði. Ef gengi krónunnar mundi nú lækka einhvern tímann, þá mundu sjóðirnir hagnast á því að eiga eignir í útlöndum. En gengisáhættan í þessu dæmi er ekkert síður á milli erlendra gjaldmiðla. Eiga menn að kaupa eignir í Bandaríkjadollurum eða evrum, jeni o.s.frv.? Það eru slíkar vangaveltur sem þarna koma við sögu ekkert síður en hitt og þá er auðvitað mjög mikilvægt að menn njóti góðrar ráðgjafar um þau efni og reyni að vera ekki með öll sín egg í einni körfu, reyni að jafna áhættunni og dreifa henni sem víðast, bæði að því er varðar gjaldmiðla o.fl. þess háttar.