Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 12:05:13 (4816)

2000-02-24 12:05:13# 125. lþ. 71.5 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[12:05]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þó að ég geti tekið undir orð hæstv. fjmrh. að gott sé að lífeyrissjóðirnir séu að mynda eignir í útlöndum, þá er það svo að þeir hafa bara ekkert undan. Nettóskuldaaukning þjóðarinnar er árviss staðreynd um fjölda ára, þrátt fyrir kaup lífeyrissjóðanna í útlöndum. Þjóðin er því ekkert að spara eins og einhver kynni að halda ef þeir horfðu bara á lífeyrissjóðina, hún er í rauninni að eyða um efni fram.

Varðandi gengisáhættuna þá var á sínum tíma ákveðið að lífeyrir frá lífeyrissjóðunum yrði bundinn neysluvísitölu, hækkaði eins og verðlag. Það skýrir að hluta til það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur nefnt mörgum sinnum um bága stöðu lífeyrisþega. Helmingurinn af lífeyri allra lífeyrisþega á Íslandi kemur frá lífeyrissjóðunum, hinn helmingurinn frá Tryggingastofnun og þessi helmingur frá lífeyrissjóðunum er bundinn neysluvísitölu, hann hækkar ekki eins og laun. Þetta er skýring á því að misræmi kemur fram. Þessi tenging var tekin upp vegna þess að eignir lífeyrissjóðanna voru bundnar neysluvísitölu og menn vildu minnka áhættuna með því. Nú er verið að heimila lífeyrissjóðunum að fjárfesta erlendis, þá kemur til viðbótar gengisáhætta sem getur verið umtalsverð. Og ef gengið fellur falla eignir lífeyrissjóðanna líka, þær sem eru bundnar í erlendum gjaldmiðli. Þetta er orðið miklu hættulegra dæmi en verið hefur hingað til og reynir enn meira á snilli þeirra manna sem stýra fjárfestingu lífeyrissjóðanna.