Vörugjald af ökutækjum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 12:29:51 (4822)

2000-02-24 12:29:51# 125. lþ. 71.6 fundur 385. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (metangas- eða rafmagnsbílar) frv. 38/2000, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[12:29]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil í upphafi fagna þessu frv. sérstaklega. Ég tel að með því sé hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnar að stíga lítið en afskaplega mikilvægt og táknrænt skref í átt til þess að bæta umhverfi okkar.

Það er rétt að minna á það sem margsinnis hefur komið fram bæði hér á hv. Alþingi og eins í fjölmiðlum, að mestur umhverfisvandi okkar hvað varðar koldíoxíðútblástur er frá bílum, frá samgöngum. Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. ráðherra leiðir það hugann að skuldbindingum okkar frá Kyoto. Sú staðreynd að útblástur frá bílaumferð er eitt mesta umhverfisvandamál okkar leggur okkur auðvitað þær skyldur á herðar að ráðast á þær syndir þar sem þær eru mestar. Ég tel þetta frv. lítið en mikilvægt skref í þá átt.

[12:30]

Fram hefur komið að fyrir verulegan dugnað og elju Ögmundar Einarssonar, framkvæmdastjóra Sorpu, þá stendur til að flytja inn á næstu vikum 20 metangasbíla, tvíorkubíla. Eins er rétt að minna á að þessum bílum er ætlað að ganga fyrir þeirri orku sem fæst úr metangasi frá urðunarstöðum Sorpu. Metangas hefur u.þ.b. tuttuguföld áhrif á við koldíoxíð þannig að með því að það streymi óhindrað út í andrúmsloftið veldur það gífurlegri mengun. Því má segja að frumkvæði þeirra Sorpu-manna á þessu sviði sé lofsamlegt en einnig er rétt að minna á að ýmsir höfðu í öndverðu, þegar Sorpu-menn fóru að móta þessar hugmyndir, afskaplega takmarkaða trú á að þetta væri framkvæmanlegt. Með sannfæringarmætti sínum hefur Sorpu-mönnum hins vegar tekist að koma málum það vel áfram að metangasið er reiðubúið til afgreiðslu og 20 bílar að koma til landsins. Þetta er mjög merkilegt.

Þá er rétt að minna á að u.þ.b. sex rafbílar, hreinir rafmagnsbílar, eru núna í notkun á landinu. Þeir voru fluttir inn í kjölfar þeirrar samþykktar hér á hv. Alþingi að fella tímabundið niður vörugjöld af slíkum bílum.

Hins vegar má segja að vandinn sé sá að enn sem komið er eru bæði rafmagnsbílar, metangasbílar og umhverfisvænni bílar ekki komnir í fjöldaframleiðslu eins og algengustu bílategundir. Fjöldaframleiðslan þýðir að verð á hvern bíl lækkar og meðan bílar eru ekki í almennri fjöldaframleiðslu þá verður verð til neytenda á hvern bíl hlutfallslega nokkru hærra. Þar að auki bætist við, hvað metangasið varðar, aukabúnaður sem kostar sitt. Ég skil það svo að frv. þessu sé ætlað að mæta kostnaðinum við þennan aukabúnað og stuðla með þeim hætti að því að metangasbílar verði a.m.k. nær hefðbundnum bílum í verði. Segja má að frv. stuðli að þessari jöfnun en það gengur engan veginn nógu langt. Af þeim ástæðum sem ég nefndi hér áðan eru metangasbílar þó það dýrir að verð þeirra er ekki hvati fyrir almenning til að aka um á þeim og stuðla þannig að bættu umhverfi sínu.

Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki koma til greina, af því að í frv. kemur fram að gildistíminn er til ársins 2003, að hækka þessa upphæð, þ.e. að lækka vörugjaldið enn frekar og þess vegna tvöfalda þá upphæð sem nefnd er, þ.e. fara úr 120.000 kr. lækkun á vörugjaldi í 240.000 kr., einfaldlega vegna þess að ég hef ekki trú á að innflutningur á þeim þremur eða fjórum árum sem um er að ræða verði slíkur að ríkissjóður verði af þeim tekjum að nokkru nemi. Jafnvel þó að þetta yrðu 100 bílar þá væri það óverulegur tekjumissir fyrir ríkissjóð. Jafnvel þó að tekjumissirinn væri einhver þá má til lengri tíma litið færa rök fyrir því að þegar upp verður staðið, sé litið á þetta sem langtímaaðgerð, muni ríkissjóður jafnvel hagnast af þessu. Þetta snertir auðvitað bætta ímynd landsins, Kyoto-ráðstefnuna o.s.frv. Ég beini því þeirri spurningu til ráðherra hvort hann vilji ekki af alkunnri mildi sinni opna fyrir þann möguleika.

Í annan stað þá beini ég því til hæstv. ráðherra að nú er ljóst að mikið er að gerast í umhverfismálum. Bílaframleiðendur um heim allan hafa tekið þá stefnu að breyta bílunum í grundvallaratriðum. Það tengist m.a. umræðu um vetni en opinber yfirlýsing frá stjórnarformönnum og stjórnendum stærstu bílaframleiðenda heimsins, er í þá veru að vetnið verði orkugjafi 21. aldar. Metanólbílar og etanólbílar hafa verið nefndir. Með öðrum orðum er heilmikið að gerast hjá bílaframleiðendum um heim allan. Fjöldaframeliðsla á vetnis- eða metanólknúnum bílum hjá Daimler Chrysler, því risafyrirtæki, mun hefjast árið 2004. Sama gerist að öllum líkindum hjá Toyota, gott ef ekki hjá Honda-verksmiðjunum líka og þannig má áfram telja.

Ég tel þess vegna, herra forseti, afskaplega mikilvægt að ríkisvaldið bregðist við þessu fyrr en síðar vegna þess að vonandi mun innflutningur á vistvænni ökutækjum verða hér verulegur á næstu árum og áratugum. Þá er auðvitað mjög mikilvægt að ríkisvaldið sé í stakk búið til þess að bregðast við því að drjúgur hluti af tekjum ríkissjóðs kemur m.a. með skatti á bensín eins og við þekkjum úr umræðu um vegáætlun. En ef bensínið er á undanhaldi og við verðum sjálfbær í framleiðslu á orku fyrir samgöngutæki okkar þá kallar það að sjálfsögðu á allsherjarendurskoðun á þessum tekjustofnum ríkisins. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort til standi að leggja í slíka vinnu og vil hvetja til þess.

Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér einhverju álíka og nú er ráðist í m.a. hjá Reykjavíkurborg. Að því er mér skilst mun drjúgur hluti af þeim 20 bílum sem tengjast Sorpuverkefninu verða vinnubílar í eigu Reykjavíkurborgar. Nú er ljóst að ríkisvaldið hefur yfir að ráða gífurlegum fjölda vinnubíla og ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að stofnanir í eigu ríkisins muni taka upp þessi vistvænni ökutæki sem nú eru að koma til landsins. Það er rétt að árétta það að ríkisstjórnin hefur lýst yfir vilja sínum til að sækja fram á þessu sviði, ekki síst með skírskotun til umhverfismála. Því er nauðsynlegt að fylgja slíku eftir með hvatningu fyrir almenning og fyrirtæki, annars vegar með því að ríkisvaldið sýni gott fordæmi með því að ríkisstofnanir taki í notkun slíka bíla og hins vegar með ákveðnum hvata í verð- eða skattlagningu á þessum bílum.

Ég vil lýsa ánægju með fram komið frv. Ég mun að sjálfsögðu styðja það og vonast til að það fái skjóta afgreiðslu hér á hv. Alþingi.