Vörugjald af ökutækjum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 12:38:53 (4823)

2000-02-24 12:38:53# 125. lþ. 71.6 fundur 385. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (metangas- eða rafmagnsbílar) frv. 38/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[12:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Til mín var beint þremur spurningum. Í fyrsta lagi: Er ekki hægt að hækka afsláttinn sem þarna er veittur, tvöfalda t.d. upphæðina úr 120.000 kr. í 240.000 kr.?

Þessi upphæð er ekki tilviljun. Hún er við það miðuð að jafna samkeppnisstöðuna. Hún er ekki við það miðuð að gefa þessum bílum forskot þannig að þeir verði ódýrari en aðrir bílar að öðru jöfnu. Í því sambandi skiptir tekjutap ríkissjóðs sáralitlu máli eins og þingmaðurinn benti á. Þetta er ekki reiknað út frá tekjutapi ríkissjóðs heldur út frá samkeppnisstöðunni. Það þarf líka að gæta sín á því að raska henni ekki.

Í öðru lagi: Aðrar tegundir af vistvænni orku munu koma fram á sjónarsviðið. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá þingmanninum. Þetta frv. gefur þar auðvitað ákveðið fordæmi. En það er ekki gengið lengra að svo stöddu vegna þess að í bili a.m.k. er ekki í sjónmáli neitt annað í þessu efni, í það minnsta fyrir fólksbíla. Við ákváðum því að ganga ekki lengra að þessu sinni en við nákvæmlega getum náð utan um og vitum hvað er í raun. Ég tel ekki tímabært að huga að endurskoðun á tekjuöflun ríkissjóðs af umferð eða bensíni út frá þessu sjónarmiði. Hins vegar getur vel verið að það reki að því á næstu árum eða áratugum eftir því sem málum vindur fram í þessu efni, tækninni fleygir fram og umferðin flyst yfir í vistvænni orkugjafa heldur en nú er.

Að lokum var spurt: Mun ríkið kaupa eitthvað af þessum metangasbílum eða vill ríkið beita sér fyrir því? Þeirri spurningu get ég ekki svarað. Ég býst við að þeir aðilar sem annast slík innkaup --- fjármálaráðherrann sér ekki um það persónulega heldur einstakar ríkisstofnanir --- muni að sjálfsögðu gera það ef þeir telja sér það hagkvæmt og sjá kosti þess. Ég er ekki í vafa um að þar standi þessir bílar jafn vel að vígi og aðrir.