Vörugjald af ökutækjum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 12:49:52 (4826)

2000-02-24 12:49:52# 125. lþ. 71.6 fundur 385. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (metangas- eða rafmagnsbílar) frv. 38/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[12:49]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað fagna því frv. sem er að koma hér til 1. umr. og styð þá skoðun sem fram hefur komið að afgreiða þurfi það fljótt og vel í gegnum þingið. Hins vegar, virðulegi forseti, get ég ekki haldið lærðar ræður um notkun metangass eða rafmagns til að knýja bifreiðar áfram. Miðað við þær niðurstöður rannsókna sem við höfum heyrt, þá held ég að þær hljóti að vera góðar og gildar og tek orð þeirra sem meira vita um málið gild í þessum efnum. Það gildir um báða fulltrúa Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. að við munum að sjálfsögðu styðja það að frv. verði afgreitt fljótt og vel.

Ég dreg þó í efa að það markmið sem sett er fram, að þetta sé fyrst og fremst til að gera þessar bifreiðar samkeppnisfærari á almennum markaði, hafi út af fyrir sig eitthvert gildi gagnvart afgreiðslu málsins vegna þess að hér er um svo fáar bifreiðar að ræða. Mér skilst að flytja eigi inn um 20 bifreiðar á gildistíma frv., þannig að það er í raun og veru ekki hægt að tala um neina samkeppni eða samkeppnisfærni.

En hins vegar eins og segir í grg. með frv., með leyfi forseta: ... ,,að styðja við öra þróun í hönnun og framleiðslu ökutækja sem geta nýtt rafmagn og metangas, enda eru skaðleg áhrif þeirra orkugjafa á umhverfið mun minni en eldsneytis úr olíum.``

Mér finnst þetta vera það sem skiptir máli og ég styð þetta markmið en ekki endilega það að auka samkeppnisfærni þessara 20 bifreiða sem á að flytja inn á markaðinn því ég held að það hafi ekki allt að segja.

Það sem komið hefur fram að þetta hjálpar okkur við að reyna að standa við skuldbindingar Íslands gagnvart rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og stefnu stjórnvalda að auka hlut innlendra orkugjafa. Þetta finnst mér vera meginmálið í frv. Þó að einungis sé um að ræða lækkun til samræmis við aðrar bifreiðar sem eru á markaðnum, þá lít ég samt sem áður á þetta sem verulegt skref og aðstoð til þeirra sem eru að hefja þennan innflutning. Og auðvitað eiga forsvarsmenn Sorpu, sem hér hafa verið nefndir í ræðu, þakkir skildar og allir þeir sem hafa haft frumkvæði í þessu máli eiga þakkir okkar hinna skildar og ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið.

En þegar kemur að því að slíkar bifreiðar verði fluttar inn, ef fjöldaframleiðslan hefst eftir fjögur til fimm ár, þá er kannski tímabært að skoða hvort þörf er á að ganga lengra en frv. hvað varðar lækkun á gjöldum til að ýta undir almenna notkun þegar þar að kemur. En eins og er er ekki um það að ræða og því styð ég þá leið sem farin er í frv. að um verði að ræða sambærilegt verð og sambærileg gjöld af þessum bifreiðum og þeim sem eru fluttar inn og ganga fyrir öðru eldsneyti. Þannig að umræðan um það hvort ganga eigi lengra í lækkun þessara gjalda á við þegar við förum að tala um almennan markað á Íslandi, ég tala nú ekki um þegar hæstv. ráðherrar verða allir farnir að keyra á metangasi sem hlýtur að vera framtíðin og hugsanlegt að flytja megi inn á þessum sérkjörum eina bifreið á haus. Ég tæki þátt í því að fylgja eftir frv. í nefnd sem fæli það í sér.

Það var aðeins rætt hér af hv. síðasta ræðumanni um skógrækt og landgræðslu í samhengi við þetta mál til að binda koldíoxíð í lofti, að það væri þörf á því að auka skógrækt og landgræðslu. Það er eins og oft er að eitt leiðir af öðru þegar talað er um þær skuldbindingar sem við þurfum að standa við varðandi Kyoto-bókunina. En ég dreg í efa þá fullyrðingu að þetta sé aðferð sem hafi hlotið alþjóðlega viðurkenningu. Við verðum auðvitað að beita þeim aðferðum sem eru viðurkenndar af þeim þjóðum sem að Kyoto-bókuninni standa og þeim þjóðum sem standa að þessum samningum og ég veit að þetta er í skoðun en ég held að hér sé ekki um viðurkennda aðferð að ræða.

Síðan verða menn náttúrlega að velta því fyrir sér í ljósi þess að hér er annað frv. á dagskrá að stórfelld skógrækt og plönturækt í landinu felur auðvitað í sér auknar kröfur um mat á umhverfisáhrifum því það er ekki einungis verið að binda koltvísýring með plöntum heldur er verið að breyta öllu gróðurfari með stórfelldri skógrækt og þess vegna verðum við að 7 horfa á þetta allt í samhengi.

En ég tek hins vegar undir það að allar þær leiðir sem við getum farið til að standa við þessar alþjóðlegu skuldbindingar eigum við að skoða.