Vörugjald af ökutækjum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:01:36 (4831)

2000-02-24 13:01:36# 125. lþ. 71.6 fundur 385. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (metangas- eða rafmagnsbílar) frv. 38/2000, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:01]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að þessi umræða um skógrækt á eflaust heima á öðrum vettvangi en undir þessum lið. Ég vil samt segja að þessi aðferð við að binda koldíoxíð er viðurkennd sem slík og á að sjálfsögðu heima í allri þeirri umræðu sem fer fram um að reyna að draga úr mengun í andrúmsloftinu sem er gríðarleg og eitt helsta áhyggjuefni þjóða heims í dag. Þess vegna hlýtur þetta mál að koma sterklega inn í þá mynd.

Ég vil svo segja að þjóð sem situr uppi með það að hafa eytt mjög stórum hluta gróins lands frá landnámstíð getur ekki velkst mjög lengi í vafa um að nauðsynlegt sé að rækta allt það svæði upp að nýju. Það að menn vilja halda uppi vörnum fyrir svarta sanda eða uppblásnar heiðar vegna þess að þær hafi verið svo síðustu hundrað árin má ekki hamla því. Við eigum í því sambandi að líta þúsund ár aftur í tímann frekar en hundrað eða tvö hundruð ár því samkvæmt lýsingum Landnámu var Ísland skógi vaxið milli fjalls og fjöru.