Atvinnuleysi á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:35:26 (4834)

2000-02-24 13:35:26# 125. lþ. 71.94 fundur 346#B atvinnuleysi á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:35]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að taka þessa umræðu upp. Ég vil almennt taka undir ýmislegt sem kom fram í máli hans og segja við þetta tækifæri að mér fannst orðið mjög erfitt að vera stjórnmálamaður, ekki síst vegna þess sem hann minntist á, hve mikil sorg var fólgin í því þegar fólk var að missa atvinnu sína. Því fylgdu hjónaskilnaðir og upplausn í þjóðfélaginu.

Árið 1995 tóku þeir flokkar saman höndum sem nú standa að þessari ríkisstjórn og sneru þróuninni við með eftirminnilegum hætti. 12 þúsund störf og umbylting í atvinnulífinu hefur haft mikil áhrif því að atvinnuleysið var hér farið að tröllríða húsum, 6--7% mældist það og menn héldu að Evrópuríkið væri komið hingað í sinni mynd með viðvarandi og langvarandi atvinnuleysi. Sem betur fer hefur þessum stjórnarflokkum tekist að snúa þróuninni við með atvinnulífinu þannig að hér hefur orðið mikil umbylting eins og allir sjá. Fyrir þetta ber auðvitað að þakka og það er mjög mikilvægt hvernig til hefur tekist í þessum efnum. Fólk hefur flust til landsins. Hér hafa verið sköpuð störf sem gefa góð laun og við erum í allt annarri stöðu fimm árum síðar. Þetta hlýtur stjórnarandstaðan að virða og þakka við þessa umræðu. Ég vil þó taka fram, eins og hv. þm. sagði, að augu okkar verða að vera opin. Við verðum að hugsa til margra staða sem auðvitað standa tímabundið frammi fyrir atvinnuleysi og meira að segja fleiri staða en hann nefndi áðan.

Samkvæmt síðasta yfirliti Vinnumálastofnunar um atvinnuástand kemur fram að meðaltalsatvinnuleysi í janúar var 1,8% sem er það minnsta í janúarmánuði í áratug. Á síðasta ári var meðaltalsatvinnuleysi 1,9% sem jafnframt er það lægsta síðan 1990. Þetta eru afskaplega gleðileg tíðindi sem gefa til kynna að ekki sé ástæða til að hafa miklar áhyggjur af atvinnuleysi, a.m.k. atvinnuleysi nú um stundir. Á hitt ber að líta að hér er um meðaltalstölur að ræða og eins og ég sagði áðan þá snýr þetta fremur að einstökum stöðum eins og hv. þm. sagði.

Geysileg eftirspurn eftir erlendu vinnuafli á síðasta ári gefur raunar til kynna að hvergi nærri hafi tekist að manna laus störf með innlendu vinnuafli en 1999 voru gefin út alls 3.073 atvinnuleyfi miðað við 2.222 árið 1998 og 1.560 árið 1997. Atvinnuleysi á vissum stöðum hefur tengst erfiðleikum í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Árstíðasveiflur hafa þó minnkað með meiri notkun kauptryggingarsamninga fyrirtækja við fiskvinnslufólk sem kveða m.a. á um það að fyrirtæki fái greitt ígildi atvinnuleysisbóta upp í launakostnað meðan vinnsla liggur niðri vegna hráefnisskorts og starfsmennirnir haldi föstum launum sínum.

Árið 1997 greiddi Atvinnuleysistryggingasjóður sjávarútvegsfyrirtækjum um 100 millj. kr. vegna þessa ákvæðis, 1998 um 150 millj. kr. og 1999 um 111 millj. kr. Í þessu samhengi ber að hafa í huga að langt sjómannaverkfall árið 1998 jók greiðslurnar meira en ella hefði verið.

Ég ætla ekki að rekja þau áhrif sem ný lög um vinnumarkaðsaðgerðir höfðu 1997 þannig að það er vel staðið að þessum málum víða um land. Ég vil hins vegar segja það sem starfandi félmrh. að félmrn. heldur auðvitað vöku sinni í þessum efnum. Það er mjög mikilvægt að hugsa til þessara staða sem eiga í tímabundnum erfiðleikum og eins og hv. þm. sagði, kvóti er seldur burt o.s.frv. En þarna verðum við auðvitað að horfa til Byggðastofnunar, til atvinnuþróunarfélaga og sveitarstjórnarmanna á landsbyggðinni. Ríkisvaldið og ríkisstjórnin er tilbúin að taka á með þessum stöðum og sú vinna er í fullum gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er verið að endurskipuleggja Byggðastofnun, ég vona til stórra átaka, því það ríður á fyrir okkur að snúa þróuninni á landsbyggðinni við. Við eigum gríðarlega mörg tækifæri til þess að það takist og ég trúi því að samstaða þings og þjóðar sé um það mikla verkefni.