Atvinnuleysi á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:40:43 (4835)

2000-02-24 13:40:43# 125. lþ. 71.94 fundur 346#B atvinnuleysi á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), HErl
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:40]

Helga A. Erlingsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa umræðu og minna á að enn er mikið dulið atvinnuleysi á landsbyggðinni. Þessar opinberu tölur segja ekki allt.

Ég vil nota tækifærið og beina máli mínu til hæstv. landbrh. og starfandi félmrh. um stöðu bænda gagnvart atvinnuleysisbótum. Þeir hafa greitt í Atvinnuleysistryggingasjóð í langan tíma en það er erfitt fyrir þá að fá atvinnuleysisbætur þrátt fyrir að búin beri kannski ekki eitt ársverk, kannski ekki nema hálft ársverk. Eina leiðin til þess að þeir geti fengið atvinnuleysibætur er að skila inn virðisaukaskattsnúmerinu og hætta búskap eða þá að annað hjóna getur kannski sagt sig frá búinu og misst þá náttúrlega um leið viss réttindi. Þá verður það hjónanna að fara að heiman kannski um langan veg til þess að vinna einhvers staðar annars staðar til að ávinna sér réttinn.

Ég vil beina því til hæstv. landbrh. að hann beiti sér í þessu máli gagnvart stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og félmrh.