Atvinnuleysi á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:47:48 (4838)

2000-02-24 13:47:48# 125. lþ. 71.94 fundur 346#B atvinnuleysi á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hann er enn mikill, aðstöðumunur þeirra sem vilja nýta sér hina nýju samskiptatækni til náms, fjarvinnslu eða tómstunda eftir því hvar þeir búa á landinu. Þó leiðrétt verðskrá fyrir leigulínur hafi tekið gildi nú í haust eftir að kostnaður hefur lengi verið oftalinn á lengri leiðum er bilið sem háð hefur starfsemi af þessum toga víða um land langt frá því verið brúað. Við það situr. Eða ætlar ríkisstjórnin að grípa til þeirra ráða sem duga svo allir landsmenn sitji við sama borð við nýtingu upplýsingahraðbrautarinnar og jafna þannig aðstöðu fólks um land allt til nútímaþjónustu, menntunarkosta og atvinnuuppbyggingar?

Það dugar ekki, herra forseti, að skilja landsbyggðina eftir með það eina hlutverk að takast á við samdrátt í landbúnaði og sjávarútvegi eða að hrekjast undan þeim sama samdrætti. Það segir okkur reynsla undanfarinna ára. Störfum við frumframleiðslu í landbúnaði, sjávarútvegi og jafnvel iðnaði mun halda áfram að fækka en sérhæfðum störfum í þjónustu og verslun mun fjölga að sama skapi. Það verður því að skapa þekkingarumhverfi, setja nýjar forsendur fyrir þjónustu og menntun og meiri fjölbreytni. Það verður að hugsa þróun mannlífs og búsetu út frá framtíðarmöguleikum atvinnulífs og menningar á hverju svæði en ekki út frá þeim fortíðarvanda sem stundum er notaður sem afsökun fyrir aðgerðarleysi.

Fólk um land allt verður að hafa tækifæri til að afla sér nýrrar kunnáttu og þekkingar til að öðlast færni í að takast á við atvinnuháttabreytingar með skapandi hætti og sjálfstrausti. Það er uggvænlegt til þess að vita að börn bænda skuli enn í dag hrekjast frá námi vegna fátæktar. Gleymum því ekki, herra forseti, í allri atvinnumálaumræðunni að menningin er bæði gefandi og atvinnuskapandi, ekki aðeins í höfuðborginni heldur líka úti á landi.