Atvinnuleysi á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:52:23 (4840)

2000-02-24 13:52:23# 125. lþ. 71.94 fundur 346#B atvinnuleysi á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Atvinnuleysi hefur mælst frekar lágt á Íslandi undanfarin ár en atvinnustigið er mjög misjafnt eftir árstíðum, landshlutum og svæðum. Hér á höfuðborgarsvæðinu hefur verið spenna á vinnumarkaði svo að vinnuafl hefur sogast inn á svæðið. Á sama tíma hefur verið staðbundið, kynbundið og dulið atvinnuleysi út um alla landsbyggðina.

Viðvarandi atvinnuleysi hefur verið á þeim stöðum sem misst hafa frá sér skip, kvóta eða vinnslu í landi til annarra staða. Atvinnuöryggi kvenna í fiskiðnaði er í hættu þegar hagrætt er í rekstri, nýjar línur eða tækni koma inn í framleiðsluna eða fiskvinnsla flutt út á sjó til annarra staða. Í sveitum landsins er víða dulið atvinnuleysi, sérstaklega hjá konum sem ekki hafa möguleika á að sækja störf utan búsins þar sem atvinna við hæfi er ekki í boði þó þörf sé á meiri tekjum til heimilisins og vilji sé til að vinna störf utan heimilis. Atvinnuleysisbætur standa ekki öllum bændum til boða og því miður er atvinnuástand í sveitum og lágar tekjur þar farnar að bitna á börnum.

Fækkun starfa í opinberri þjónustu er meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu þar sem stofnanir hafa frekar þanist út þrátt fyrir pólitískar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Hagræðing og sparnaður í mörgum þjónustugreinum bitnar þungt á landsbyggðinni þar sem tilfinnanlega munar um hvert starf. Atvinnuleysi er alltaf alvarlegt mál hvar sem það kemur upp en úrlausnirnar eru mismunandi eftir svæðum og eðli vandans.