Atvinnuleysi á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:54:17 (4841)

2000-02-24 13:54:17# 125. lþ. 71.94 fundur 346#B atvinnuleysi á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Við Íslendingar höfum átt því láni að fagna nú síðustu ár að atvinnuleysi er nær horfið hér á landi og er með því minnsta í heiminum um þessar mundir. Þúsundir nýrra starfa hafa orðið til. En það er alvarlegt þegar miklar sviptingar verða í atvinnulífinu á landsbyggðinni. Það kemur upp alvarleg staða þegar fyrirtæki, þar sem 8% af vinnuafli sveitarfélags starfar, ákveður að flytja í annað byggðarlag eða hættir starfsemi sinni. Það hefur tvímælalaust afdrifarík áhrif, ekki aðeins á þá einstaklinga sem missa atvinnuna heldur á allt samfélagið. Því má líkja því að 6--7 þúsund Reykvíkingar missi atvinnu sína á einum degi. Það eru 1--2 þúsundum fleiri en starfa samanlagt á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík. En ef fyrirtæki hefur ákveðið að flytja sig um set í hagræðingarskyni er ekkert við því að gera, þeim er það frjálst. Hvorki ríki né sveitarfélög geta skipt sér af því beint.

Herra forseti. Íslenskur vinnumarkaður er sérstakur með tilliti til árstíðabundinna starfa og hlutastarfa. Sum störf tengjast árstíðabundnu álagi m.a. í fiskverkun og fiskiðnaði en mikil fækkun hefur orðið í kvennastörfum tengdum sjávarútvegi við frystitogaravæðingu sjávarútvegsins. Fækkun hefur einnig orðið í störfum kvenna í landbúnaði. Þjóðfélagsleg þróun hefur á margan hátt átt þátt í að viðhalda atvinnuleysi meðal kvenna. Í dag finnast varla karlmenn á atvinnuleysiskrá því uppsveiflan hefur verið hvað mest í þeim greinum þar sem karlar eru fjölmennir. Á sama tíma hefur þróunin í öðrum greinum orðið til þess að viðhalda atvinnuleysi kvenna. Á því þarf að taka og ég er alveg sannfærð um að ríkisstjórnin mun gera það.