Atvinnuleysi á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:58:50 (4843)

2000-02-24 13:58:50# 125. lþ. 71.94 fundur 346#B atvinnuleysi á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), Flm. KVM
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:58]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég vil þakka starfandi félmrh. fyrir svör hans og öðrum þingmönnum fyrir að hafa tekið þátt í þessari umræðu. Það er greinilegt á máli manna hér að hún þykir nauðsynleg og sumir bera ugg í brjósti vegna stöðu ýmissa svæða á landsbyggðinni.

Nefndar hafa verið tölur um atvinnuleysi. Ég vil geta þess að atvinnuleysi á Vestfjörðum var 0,9% fyrir ári síðan en er núna 2,3%. Það hefur því margfaldast og inni í þessum tölum er ekki sá fólksfjöldi sem flutt hefur af þaðan. Hér hefur einnig komið fram góður vilji en góður vilji, einn út af fyrir sig, skapar ekki atvinnu fyrir fólkið. Það verður að láta kné fylgja kviði. Mér dettur í hug, í framhaldi af umræðunni í gær um þriggja fasa rafmagn til landsbyggðarinnar og til bændabýla, að sú nefnd sem skipuð er í þeim málum þarf að vinna hratt og vel. Málið má ekki daga uppi.

Hæstv. starfandi félmrh. sagði áðan að Framsfl. hefði útvegað 12 þúsund störf og það er mjög gott að atvinna hefur aukist. En því miður hefur ekkert af þessum störfum farið til þeirra staða sem nefndir voru áðan. Vonandi væri þá hægt að hafa störfin 13 þúsund svo fólkið úti á landi fái fulla vinnu og nóg að gera.