Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 14:33:16 (4847)

2000-02-24 14:33:16# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[14:33]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta bráðabirgðaákvæði er breyting á núgildandi bráðabirgðaákvæði sem segir að framkvæmdir sem fengu leyfi fyrir 1. maí 1994 eru ekki háðar umhverfismati. Með þessari breytingu erum við að setja inn sólarlagsákvæði, það má kalla þetta sólarlagsákvæði, sem þýðir að allar framkvæmdir sem fengu leyfi fyrir 1. maí 1994 þurfa að fara í mat á umhverfisáhrifum hafi framkvæmdir ekki hafist fyrir árslok 2002. Það er því verið að hreinsa upp þær framkvæmdir sem nú eru undanþegnar matinu og það hefur komið fram áður á þinginu í svari frá hæstv. iðnrh. hvaða framkvæmdir þetta eru. Þær hafa verið listaðar upp í þingskjali og dreift á borð þingmanna. Ef þessar framkvæmdir hafa ekki hafist fyrir árslok 2002, þá lenda þær samkvæmt þessum lögum, ef frv. verður samþykkt, í mati á umhverfisáhrifum.