Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 14:39:57 (4852)

2000-02-24 14:39:57# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[14:39]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þegar þetta bráðabirgðaákvæði var sett í núgildandi lög, þá taldi enginn að verið væri að opna fyrir það sem hefur gerst síðan. Á þessu bráðabirgðaákvæði hékk öll framkvæmdin við Fljótsdalsvirkjun. Ég er ekki að gagnrýna það að loksins sé verið að setja ákvæði sem lokar því að framkvæmdaleyfi lifi bara um aldur og ævi og gamlar heimildir frá því fyrir 50 árum, jafnfráleitt og það er.

Ég er að gagnrýna það að slíkar heimildir skuli ekki falla niður með lögum sem verða sett núna. Og þess vegna er ég að inna ráðherrann eftir því hvaða framkvæmdir sé verið að tryggja, fyrir hverju eru menn að tryggja sig. Af hverju er því ekki bara sleppt að vera með bráðabirgðaákvæði?

Ég tek undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, að þetta ákvæði á umhvn. að skoða. Það er tími til kominn að við höngum ekki á gömlum eða nýjum undanþáguákvæðum í stórum málum eins og mati á umhverfisáhrifum, í stórum og þýðingarmiklum málum sem eru einfaldlega um það hvort verja eigi einhver landsvæði til framtíðar fyrir komandi kynslóðir eins og gert er ráð fyrir nú um allan heim, eða hvort fara eigi í framkvæmdir sem eru kannski umdeildar.

Um það snýst málið og það er komið að því að við hættum að vera með bráðabirgðaákvæði sem heldur opnu eldgömlu framkvæmdaleyfi og að slíkar framkvæmdir fari í gang.