Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 14:41:43 (4853)

2000-02-24 14:41:43# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna ummæla hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um lagasetningu frá 1993, um lög um mat á umhverfisáhrifum, þá er nú ekki venjan að lög séu afturvirk og bráðabirgðaákvæðið ítrekaði enn frekar að lögin ættu ekki að vera afturvirk. Því var það að framkvæmdir sem fengu leyfi fyrir 1. maí 1994 áttu ekki að falla undir lögin, þannig að lagaákvæðið var mjög skýrt.

En ég fagna því að ekki er verið að gagnrýna að við séum að fella núna út framkvæmdir sem hafa leyfi um aldur og ævi eins og hér var nefnt. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki verið að heimila það. Með þessu sólarlagsákvæði er einmitt verið að tryggja að þær framkvæmdir sem ekki hafa farið í gang fyrir árslok 2002 falli undir lögin um mat á umhverfisáhrifum.

Ég er ekki með lista hér með upplýsingum um hvaða framkvæmdir þetta eru, við höfum ekki tekið saman slíkan lista hjá okkur en slíkur listi hefur verið tekinn saman hjá iðnrn. og honum hefur verið dreift á borð þingmanna eins og áður hefur komið fram.

Ég vil ítreka að með sólarlagsákvæðinu erum við að hindra það að að tveimur árum liðnum geti framkvæmdir sem fengið hafa leyfi fyrir löngu síðan lifað áfram á þeim heimildum. Við erum að hindra það. En við gefum frest til ársloka 2002.