Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 14:50:46 (4855)

2000-02-24 14:50:46# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KPál
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[14:50]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum sem hæstv. umhvrh. hefur þegar skýrt. Þessu frv. fylgir mjög nákvæm greinargerð sem gefur til kynna að nefndin sem um þetta mál fjallaði af hálfu ráðuneytisins á sínum tíma hafi skoðað það mjög ítarlega og vel.

Endurskoðun á þessum lögum er að sjálfsögðu nauðsynleg enda eru lögin frá því árið 1993 og þau fyrstu sem gerð eru um mál af þessu tagi hér á landi. Það er líka ljóst að margar tilskipanir Evrópusambandsins hefur ekki náðst að festa í framkvæmd umhverfismála hér á landi vegna þess að þær hafa ekki verið settar í lög. Ein ástæða sem oft liggur að baki lagabreytingum á Íslandi er sú skylda að Evróputilskipanir verði hluti af þeim og það er eitt af því sem ber að hafa í huga þegar verið er að endurskoða lög af þessu tagi.

Það er að sjálfsögðu rétt, og ég er sammála því sem fram hefur komið hér, að lög um mat á umhverfisáhrifum eiga að vera sérstök lög sem fjalla um umhverfismál á Íslandi en ekki að falla undir byggingar- og skipulagslög eins og tíðkast sums staðar annars staðar enda hefur margt í okkar umhverfi verið utan skipulagssvæða sveitarfélaga og að auki eru þessi tvö mál sjálfstæð. Annars vegar eru byggingar- og skipulagslög sem heyra undir sveitarfélögin meðan lög um mat á umhverfisáhrifum heyra undir ríkið eða ríkisvaldið, þ.e. eru á forræði umhvrn. og umhvrh.

Í frv. er gert ráð fyrir og lagt upp úr því að svokallaðri varúðarreglu sé fylgt og að náttúran njóti vafans og ég held að allir umhverfissinnar hafi hug á því að slíkar alþjóðareglur sem hafa verið í heiðri hafðar séu nokkurs konar bakbein í lögum sem þessum. Samningar eins og Ramsarsamningurinn og Bernarsamningurinn og fleiri eru einnig hluti af þessu sem ítarlega hefur verið farið út í og er skýrt í frv.

Ef við lítum á einstakar greinar og bálkinn í heild sinni þá er það vilji Sjálfstfl. að samráð í matsferli samkvæmt þessum lögum verði meira en hingað til hefur verið. Eins og menn þekkja þá hefur þetta ferli hér verið meira svokallað kæruferli þannig að matið sjálft hefur verið í höndum framkvæmdaraðilans sem hann hefur síðan lagt á lokastigi fyrir yfirvöld, skipulagsstjóra eða umhvrh. Síðan hefur málið farið í umræðu og mönnum er boðið upp á kærur o.s.frv. Þannig hefur ferlið oft endað í miklum deilum sem mörgum hefur fundist nóg um. Því er í sjálfu sér miklu eðlilegra að fara þær leiðir að hafa samráð um ferlið frá upphafi, frá því að ákveðið er að viðkomandi verk fari í mat og síðan hafi þeir samráð um það sem málið varðar með tilliti til lands, leyfis og eftirlits, t.d. skipulags, þ.e. að þeir komi að málinu frá upphafi til enda þannig að þarna verði ekki deilur þegar búið er í rauninni að fara út í mjög dýrar rannsóknir og gera mikið til þess að ná endanlegu mati, þ.e. sitja svo ekki uppi með það jafnvel, eins og framkvæmdaraðilar Fljótsdalsvirkjunar hafa lent í, að eiga það á hættu þegar búið er að henda í þetta milljörðum að framkvæmdin öll sé í uppnámi og ekkert verði af henni vegna illdeilna sem verða á lokastiginu. Meiningin að reyna að koma í veg fyrir slíkar illdeilur með þessu og að menn hafi samráð um þetta alla leið og þannig verði komist hjá uppgjöri af þessu tagi. Auðvitað er svo hægt að velta því fyrir sér hvaða leiðir á að fara í úrskurðarferlinu og hvaða pólitíski aðili eigi að sjá um það. Ég kem að því síðar í ræðu minni.

Í 8. gr. frv. er talað um matsáætlanir og þar eru inni ítarleg skil á því hvernig matsáætlanir eigi að vera. Síðan er sagt hvernig eigi að kynna þær. Í frv. segir, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdaraðili skal kynna tillögu að matsáætlun umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við Skipulagsstofnun.``

Hér er kveðið nokkuð afdráttarlaust á um að samráð skuli hafa en ekki að það sé heimilt eins og hingað til hefur verið. Á þessu er mikill munur að mínu áliti sem skyldar framkvæmdaraðila til að kynna sín mál í upphafi.

Það getur að sjálfsögðu valdið mörgum heilabrotum hvers vegna slíkt ákvæði er svo afdráttarlaust. Ég álít að með því sitji í rauninni allir við sama borð þannig að um það sé ekki að ræða að sumir geri þeim sem málið varðar grein fyrir þessum atriðum strax en aðrir ekki fyrr en þeir neyðast til þess heldur sitja allir við sama borð sem í sjálfu sér er eðlileg vinnuregla. Ég lít ekki svo á, eins og ég hef heyrt sums staðar, að með þessu sé jafnvel verið að neyða menn til að upplýsa um framtíðarviðskipti sín eða áætlanir um uppbyggingu fyrirtækja sinna. Ég lít svo á að þegar allir sitja við sama borð þá eigi ekki að vera hætta á því. Ég held reyndar að þegar ákvæði sem þetta er í lögum þá undirbúi menn sig betur áður en þeir hefja framkvæmd og biðja um mat, en tel að undirbúningur að öðru leyti, eins og að gera áætlanir eða kanna land og annað, sé algjörlega óháður þessu og geti farið fram áður en að umhverfismatinu kemur. Ég get því ekki séð að það standist að menn eigi á hættu að það upplýsist um viðskiptaleyndarmál þeirra.

[15:00]

Að sjálfsögðu verður þetta kannað vel í nefndinni. Ég geri ráð fyrir því að við könnum hug atvinnulífsins til ákvæðis sem varðar svo marga. Mér finnst jafnvel spurning í því sambandi að kanna hvort 2. viðauki sé óþarflega ítarlegur í þessu sambandi. Hugsanlega mætti grisja hann eitthvað til að koma til móts við áhyggjur manna vegna samkeppnissjónarmiða og við förum ekki út í of mikinn tittlingaskít, ef það mætti orða það þannig, við að ákveða hvað fara á í mat og hvað ekki. Herra forseti. Ég álít að þetta litla orð hér vegi mjög þungt í samráðsferlinu og þess vegna tók ég það sérstaklega fram í máli mínu.

Í þessum lagabálki eru mörg úrskurðarákvæði sem eru út af fyrir sig miðuð við reynsluna af því hvernig menn hafa komið svona málum áfram. Þetta er í öllum tilfellum mjög langur ferill og því nauðsynlegt að hafa mjög afmarkað í lögunum hvernig á verður haldið.

Eitt fyndist mér að taka verði upp í hv. umhvn. í samráði við hæstv. umhvrh. en það er reglugerðin sem fylgja mun þessum lögum. Í 19. gr. er sagt að umhvrh. setji að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar reglugerð á grundvelli þessara laga. Það hefur tíðkast í sumum málum, ég man eftir því úr allshn., að drög að reglugerðum hafi legið fyrir áður en Alþingi eða viðkomandi nefnd afgreiddi málið frá sér. Mér fyndist ekki óeðlilegt að reglugerð sem fylgja á þessum lögum gæti legið fyrir í grófum dráttum áður en umhvn. mundi leggja lokahönd á þetta frv., sem ég geri nú ráð fyrir að verði á þessu þingi.

Í greininni á undan, í 18. gr., er fjallað um mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri. Ég sé að í grg. er ekki talin ástæða til að ætla að þetta skipti máli fyrir Íslendinga þar sem við séum einangraðir. Ég álít að það sé ekki á rökum reist að viðhafa þau ummæli um þessa grein. Mér finnst þetta mjög merkileg grein í sjálfu sér og eðlileg eins og gert er ráð fyrir í Evróputilskipuninni. En það er ekki lengra síðan en í gær að við vorum að ræða hér um vandamál sem er að skapast út af kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield sem mengar stórlega sjóinn með geislavirkum efnum. Þau rekur hingað til lands á fimm til sex árum og enginn getur séð fyrir hvaða afleiðingar það muni hafa ef þetta efni sest í lífríkið við Ísland. Ef sá kvittur kæmist á kreik að hættulegt væri að borða íslenskan fisk út af geislamenguðum ögnum sem dælt sé í hafið frá Englandi en bærust að Íslandi og væru hér næstu hundruð þúsunda ára, að sitja uppi með slíkt væri náttúrlega alveg óverjandi. Þess vegna er full ástæða að taka inn í lög um umhverfismat ákvæði sem þessi.

Staðreyndin er sú að jörðin sem slík er að verða óskaplega lítil í öllum hamaganginum í uppbyggingu stóriðju, endurvinnslumöguleikum og losun á alls konar efnum og efnasamböndum í hafið og í loftið. Við eigum í miklum erfiðleikum með mengun frá mönnum í hafi og eiturefni í lofti.

Spurningin er náttúrlega um hversu langt á að ganga í þessum efnum. Þegar maður sér fyrir sér dæmi eins Sellafield og Dounreay og miklu fleiri stöðvar sem dæla í hafið úrgangi þá er ljóst að þetta getur skapað ótrúlega mikil vandamál hjá fjarlægum þjóðum sem aldrei hefur grunað að þær gætu orðið fyrir slíkum áföllum sem þarna gætu dunið yfir. Þannig að ég er mjög ánægður með að þarna skuli vera inni slíkt ákvæði.

Síðan eru það ákv. til brb., herra forseti. Í ákv. til brb. I sjáum við að verið er að setja sólarlagsákvæði um þær framkvæmdir sem voru og eru undanþegnar í núgildandi lögum. Þar er sagt til um upphaf framkvæmda, þ.e. fyrir 31. des. 2002. Samt er augljóst að það verður erfitt að skilgreina hvenær framkvæmdir hefjast. Er nóg að hafa hafið framkvæmd fyrir tíu árum og það upphaf framkvæmda gildi um ókomna tíð? Ég held að það gæti reynst jafnvel hæstv. umhvrh. erfitt að segja til um það í öllum tilfellum. Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki ríkisstjórnarinnar allrar að meta slíkt. Alþingi var í raun látið taka af skarið um Fljótsdalsvirkjun vegna þess að þetta var mjög erfitt mál. Mér þætti ekki óeðlilegt að í slíku tilfelli væri það ríkisstjórnin sem tæki ákvörðun um hvenær framkvæmd geti talist hafin. Ákv. til brb. I er að öðru leyti mjög skýrt og ákv. til brb. II er mjög eðlilegt.

Ákv. til brb. III er ákvæði sem ég og fleiri höfðum áhuga á að væri mun ítarlegra og jafnvel væri inni í lögunum einhvað um svokallað úrskurðarferli, þ.e. hvar eigi í raun að úrskurða um mat á umhverfisáhrifum. Spurningin er um hvort framkvæmdaraðilinn eigi að eiga það undir einum ráðherra eða einu stjórnvaldi eða hvort það eigi að fara eftir eðli máls. Hvort framkvæmdir sem eiga heima undir ákv. til brb. I og eru að mestu leyti stórframkvæmdir ættu að heyra undir úrskurðarvald allrar ríkisstjórnarinnar en ekki eins ráðherra. Ættu kannski önnur úrskurðaratriði, eins og í brb. ákv. II, að heyra undir einstök ráðuneyti, eins og þau falla undir ráðuneytin en ekki undir úrskurðarvald umhvrh.?

Orð mín má ekki túlka sem eitthvert vantraust á umhvrh., það er síður en svo. Ég er fyrst og fremst að koma því að hér í þessari umræðu að samræma þurfi íslenskt umhverfismatskerfi því sem gerist í nágrannalöndunum, þar sem lengst hefur verið komist í að nálgast þessi viðfangsefni. Þá erum við að hugsa um sænska, norska og hollenska matskerfið. Þau kerfi eru mjög þróuð og hafa að margra mati leyst þessi mál með átakaminni hætti en hér hefur verið.

Í þeirri nefnd sem hæstv. umhvrh. ætlar að skipa verður að skoða þetta mjög ítarlega. Ég á ekki von á öðru en að þar takist gott samstarf enda hefur mér heyrst á hæstv. umhvrh. að hún sé öll af vilja gerð til þess að ná um þetta mál sem allra bestri sátt og niðurstöðu sem gagnast gæti þjóðinni sem best.

Eftir þau miklu átök sem orðið hafa held ég að öllum sé ljóst að tiltölulega einfalt ferli á umhverfismati framkvæmdaraðila í samráði við stjórnvöld með eðlilegum leiðbeiningum sé okkur farsælast þegar upp er staðið. Þau átök sem við höfum séð hingað til um slík mál væru þannig úr sögunni.