Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 15:31:12 (4857)

2000-02-24 15:31:12# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[15:31]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fram er komið frv. um endurskoðun á lögunum um mat á umhverfisáhrifum. Það er skammur tími sem gildandi lög hafa verið við lýði, en á þeim tíma hefur þó reynt á þau lög og þau viðhorf sem þar koma fram til hins ýtrasta og í raun og veru miklu meira en það. Þanþol þeirra laga sem um umhverfismat hafa fjallað hefur gengið svo langt að núverandi lög hafa ekki staðist þær kröfur sem við viljum gera um sambúð framkvæmda og atvinnulífs annars vegar og umhverfis- og náttúruverndar hins vegar. Því fagna ég að frv. þetta er fram komið.

Við skulum minnast þess að gerbreytt viðhorf eru í þjóðfélagi okkar um umhverfismál og náttúruvernd. Ekki þarf að líta mörg ár aftur í tímann, ekki tíu ár, heldur aðeins nokkur missiri til þess að sjá að viðhorf landsmanna hafa gerbreyst. Margt hefur orðið til þess að hraða þeim breytingum og viðhorfsbreytingum, m.a. ýmsar framkvæmdir sem hafa valdið deilum og átökum. Margar af þessum framkvæmdum hafa varðað hagsmuni byggða og efnahag þjóðarinnar um leið og þær hafa snert mjög viðkvæm náttúrusvæði og því er von að tekist hafi verið á um þessi efni. Einnig er mikill skortur á hefðum í vinnubrögðum okkar Íslendinga í mati á umhverfisáhrifum og saga okkar er afskaplega stutt í náttúruverndarmálum. Það þarf því engan að undra að til þessara átaka hafi komið og að svo mjög hafi reynt á núgildandi lög sem ég gat um áðan. Lögin sem væntanlega leiða af frv. þessu eru því mjög tímabær, þeim er ætlað að mínu mati að skapa hæfilegan ramma, hæfilega víðan ramma fyrir atvinnulífið og framkvæmdir í landinu, hindra ekki framfarir með neinum hætti öðruvísi en á þann veg að gæta að náttúruverðmætum í samræmi við viðhorf okkar landsmanna. Þetta er því vandasöm löggjöf sem hér er um að ræða, hún kemur inn á það svið sem ekki ríkir full sátt eða löng hefð um og hún kemur um leið inn á svið framkvæmda og atvinnulífs sem svo mjög þarf á svigrúmi að halda meðal þjóðarinnar.

Lagagerð þessi ber nokkurn vitnisburð um að við erum aðilar að evrópsku lagaferli og við erum að taka hér inn margvíslegar greinar sem eru beinlínis fengnar úr Evrópurétti og til þess ætlaðar að uppfylla þau skilyrði sem okkur eru sett þar. En frv. fjallar líka um ýmsa þá þætti sem við teljum varða land okkar og umhverfi sérstaklega. Tel ég rétt að menn eigi ekki að láta svo lítið að lögtaka hér einungis Evróputilskipanir heldur eigum við að huga að umhverfi okkar, aðstæðum og náttúrunni sem okkur er svo verðmæt og kær. Ég tel að með frv. því sem hæstv. umhvrh. hefur kynnt séu miklar framfarir og miklar lagabætur muni af því leiða. Við í hv. umhvn. munum að sjálfsögðu vinna þetta mál vel og vandlega og nýta okkur þá reynslu sem ekki hefur verið sársaukalaus til að gera þessi lög eins vel úr garði og frekast má verða.

Virðulegi forseti. Það væri freistandi að hefja hér málsmeðferðina sem við eigum fram undan í umhvn. en ég ætla að láta það bíða þess tíma. Þó vil ég aðeins drepa á nokkur atriði.

Um leið og ég lýsi yfir stuðningi mínum við frv. og tel það til mikilla bóta vil ég nefna hér nokkur atriði sem ég tel vera umhugsunarefni, og þar kem ég að sjálfri rót eða stofni frv., þ.e. markmiðssetningunni sjálfri sem er í raun og veru forsendan og grundvöllurinn undir frv. En þar segir, með leyfi forseta, í 1. gr. um markmið frv.:

,,Markmið laga þessara er:

a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar,`` --- þ.e. þarna er grunnurinn lagður, forsendurnar lagðar, útgangspunkturinn gefinn, það á að fara í mat á umhverfisáhrifum þegar framkvæmdin hefur í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Og lítum þá í skilgreiningarnar hvað eru umtalsverð umhverfisáhrif. Í skilgreiningunum segir, með leyfi forseta, í l-lið:

,,l. Umtalsverð umhverfisáhrif: Veruleg óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja með mótvægisaðgerðum.``

Þarna segir og ég endurtek: veruleg, óafturkræf og neikvæð. Mér hefur orðið að umhugsunarefni þegar ég hef lesið frv.: Hver ætlar að úrskurða um hvað teljist vera neikvæð umhverfisáhrif? Hver ætlar að gera það og hvernig verður það mat látið fara fram?

Ég ætla að tala hér í nokkrum dæmum. Mig langar til að spyrja: Eru það neikvæð umhverfisáhrif þegar skógi er plantað? Okkur er í blóð borið að dást að skógi og margir vilja hann sem mestan og vöxtulegastan, en við skulum líta á það af raunsæi að skógur breytir ekki aðeins ásýnd landsins, hann breytir þeim gróðri sem þar er og hann breytir dýralífinu, bæði því sem snýr að skordýralífi og síðan að æðri dýrategundum. Ég vil líka taka dæmi úr landinu sjálfu. Mig langar að velta upp dæmi sem er nýlegt og snýr að Hagavatni og stækkun þess. Hagavatn er sunnan Vatnajökuls. Þar hafa verið uppi áform um af hálfu Landgræðslunnar að stífla ána sem rennur þar úr, Farið heitir áin, og hækka þar með í vatninu þannig að vatnið nái að þekja leir- og jökuleyrar innan við vatnið, þar sem svokallað læmi rennur, en með því væri hægt að mati Landgræðslunnar að hefta sandfok og uppblástur. Hæstv. fyrrv. umhvrh. féllst ekki á þessa framkvæmd heldur óskaði eftir frekara mati. Og ég spyr þá: Eru það neikvæð umhverfisáhrif sem stíflan og hækkun vatnsins hefðu í för með sér? Við gætum tekið annað dæmi, ágreiningsefni úr Skaftafellssýslu þar sem deilt er um hvort stífla eigi vatnsrásir sem renna úr Skaftá og út í Skaftárhraun eða ekki. Annars vegar höfum við vatnið sem rennur út í hraunið og ber með sér leir og fyllir hraunið, veldur einhverjum uppblæstri og spillir þessu einstaka náttúrufyrirbæri sem er Skaftáreldahraunið, en hins vegar ef stíflað yrði og vatnið fengi ekki lengur að renna þar eða er takmarkað, þá er um leið búið að spilla þeim lindum með því lífríki sem undan hraunjaðrinum renna. Þar er ég að tala um Tungulæk, Grenlæk, Sýrlæk, Jónskvísl, Eldvatn og fleiri kvíslar. Hver ætlar að meta það hvort þarna er um jákvæð eða neikvæð umhverfisáhrif? Eru það jákvæð eða neikvæð umhverfisáhrif að moka ofan í skurði og fá votlendið virkt aftur eða ekki? Þetta tel ég vera töluvert umhugsunarefni vegna þess að lagasetningin hvílir í raun og veru á þessari skilgreiningu.

Ég vil líka nefna 5. gr. án þess ég fari í ítarlega umfjöllun um hana en þar kemur fram í 3. mgr. eða málsheild undanþága til umhvrh. til að láta ákveðnar framkvæmdir fara í mat á umhverfisáhrifum. Ég er að jafnaði tortrygginn á allar slíkar undanþágur og tel að við eigum að skoða þetta rækilega, þó svo ég hafi þegar fengið skýringar sem ég tel vera fullnægjandi frá hæstv. ráðherra. Ég tel þó að þetta sé eitt af þeim atriðum sem við munum ræða í nefndinni.

Í þessari umræðu hefur verið minnst á 9. gr. þar sem eðlilegt þótti í undirbúningsnefndinni að sá möguleiki að gera ekki neitt sé einnig metinn, þ.e. að láta náttúruna eða það umhverfi sem um er að tefla ósnortið. Það eigi að meta og leggja það til samanburðar við einhvers konar framkvæmdir. Ég tel að þetta eigi að vera með og tel raunar að í frv. sé það tryggt þó svo að það sé ekki nefnt í 9. gr.

Virðulegi forseti. Það gengur mjög á tíma minn og ég ætla ekki að fara öllu nánar út í einstök efnisatriði. Þó vil ég koma að þeim viðaukum sem eru í frv., en þar er birtur nokkuð ítarlegur listi um hvaða og hvers konar framkvæmdir eigi að koma til mats á umhverfisáhrifum. Þar hef ég viljað leggja áherslu á að framkvæmdirnar séu ekki það rúmar eða réttara sagt að ekki sé heimilt að spilla náttúruverðmætum t.d. með vegagerð. Þarna er ég að tala þær skilgreiningar sem snúa að vegaspottum og tekist hefur verið á um. Í aðdraganda þessarar lagasetningar og frumvarpsgerðar hefur verið tekist á um það hvort matsskyldir vegir skuli miðast við 5 km spotta eða 10 km spotta.

[15:45]

Nú vita allir að þetta snýst ekki um kílómetra. 2 kílómetra vegur getur spillt því sem verðmætast er alveg eins og 10 kílómetra vegur. Við skulum líka gæta að því að fara ekki að búa til ramma sem vegagerð á Íslandi þarf að búa við algjörlega að nauðsynjalausu, þ.e. að setja Vegagerðinni þær skorður að hún þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum og flókið ferli með veg yfir land þó hver maður sjái að algjörlega ónauðsynlegt sé að fara þar í mat á umhverfisáhrifum. Við skulum ekki leggja það helsi á vegagerð í landinu okkar. Þess vegna tel ég, eftir athugun mína á frv., að hér hafi náðst nokkuð góð lausn, þ.e. sú að þetta fari eftir því hvort landið er á friðlýstum svæðum eða ekki og það sé aðalinntakið en ekki vegalengdin. Með því nást meginviðhorf lagagreinarinnar, að vernda það sem við viljum vernda en leggja ekki óþarfa hindranir fyrir framkvæmdir.

Virðulegi forseti. Ég læt þessi örfáu atriði duga. Þau má líta á sem dæmi um það sem ég tel að við eigum að skoða. Einnig þarf að skoða nokkur önnur atriði. Ég vænti þess að við munum eiga gott samstarf í hv. umhvn. um þetta. Þar er afskaplega áhugasamt fólk og vel að sér og við höfum fengið nokkra eldskírn í umfjöllun um frv., sérstaklega því sem lýtur að mati á umhverfisáhrifum. Ég hlakka til þeirrar vinnu og mun leggja mig allan fram um að ná frv. fram þannig að hér verði góð lög og traust um þetta mikilvæga og viðkvæma efni, náttúrufar landsins og framkvæmdir í landinu.