Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 15:46:53 (4858)

2000-02-24 15:46:53# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[15:46]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. umhvrh. komi hér í salinn, taki þátt í og hlýði á umræður um hið mikilvæga mál sem hér hefur verið tekið til umræðu.

Áðan var sagt að menn hefðu fagnað því að loksins kom fram frv. með endurskoðun á þessum þýðingarmiklu lögum. Ég get alveg ímyndað mér að samstaða verði um fjölmörg ákvæði í frv. Þó er full ástæða til að staldra við ýmislegt. Þar er margt gagnrýnivert. Þegar hefur verið bent á bráðabirgðaákvæðin og líka hægt að nefna undanþágurnar. Það er alveg ljóst að umhvn. verður að vinna með þetta mál því ýmislegt þar kallar á svör. Hæstv. umhvrh. biður Alþingi að afgreiða þetta frv. fljótt. Frv. kom á borð hv. þm. í fyrrakvöld og komst mjög fljótt á dagskrá. Engin amaðist við því enda málið þýðingarmikið og full ástæða til að gefa sér góðan tíma til að fara ítarlega í gegnum frv. til að geta viðhaft hér vitiborna umræðu. En frv. er seint fram komið.

Nefndin sem undirbjó þetta frv. skilaði því til ráðuneytisins 1998. Þá hlýtur að vakna spurningin: Hvað hefur hæstv. ráðherra gert til þess að flýta fyrir því að málið geti átt greiða leið í gegnum þingið? Hefur hæstv. ráðherra notað tímann frá 1998 til samráðs við náttúruverndarsamtök til að heyra hugmyndir um frv.? Hefur hæstv. ráðherra kallað eftir umsögnum náttúruverndarsamtaka? Það hefði verið unnt að birta slíkar umsagnir með frv. og þá hefðum við alþingismenn getað skoðað hvaða ábendingar komu frá þeim samtökum sem setja vernd náttúru Íslands á oddinn. Ekkert slíkt fylgir með frv. og þess vegna er óljóst að hvaða leyti hæstv. umhvrh. hefur sinnt slíkri forvinnu eða auðveldað Alþingi skjóta afgreiðslu þessa frv.

Ég vil líka nefna það, hæstv. ráðherra, að mér er farið að finnast það hvimleitt þegar við þurfum stundum að bíða eftir stjfrv. Í upphafi vinnuviku segir, með leyfi forseta, á yfirlitsblöðum sem til okkar koma: ,,fimmtudagur --- ný stjórnarfrumvörp?`` Aftan við er sett spurningarmerki af því þau eru ekki komin og við vitum það ekki um helgina hvaða nýju stjfrv. verða hugsanlega komin á borð okkar og tekin til umræðu komandi fimmtudag. Hvimleiðara er þegar frv. er svo tekið á dagskrá og ráðherra segir ljúfur á svip að afskaplega væri nú huggulegt ef þingið afgreiddi málið svo fljótt og vel. Svona á þetta ekki að vera. Alþingi á að fara ítarlega og vel yfir mál og tryggja að lagasetningin verði góð.

Þetta mál tengist miklu átakamáli sem hér var til umfjöllunar í haust og afgreitt var skömmu fyrir jól. Þá var höfð uppi hörð gagnrýni á að nýtt frv. um mat á umhverfisáhrifum væri enn ekki komið fram. Nú aðeins 24 dögum eftir jólahlé erum við að ræða þetta frv. Það er nánast óþolandi, miðað við hvenær þessu frv. var skilað til ráðuneytisins af nefndinni sem vann það, að við skulum ekki hafa getað fjallað um það í haust þannig að ný lög frá Alþingi um þetta þýðingarmikla mál hefðu legið fyrir þegar við fórum að vinna með þáltill. um Fljótsdalsvirkjun.

Herra forseti. Árið 1993 var lögð fyrir Alþingi skýrsla með stefnumörkun í umhverfismálum, afskaplega merkileg skýrsla sem á svo sannarlega erindi til okkar enn í dag. Á bls. 15 í þeirri stjórnarskýrslu er fjallað um umhverfismat. Þar segir að með gerð umhverfismats sé stefnt að því að koma í veg fyrir óbætanlega eða nauðsynjalausa umhverfisröskun vegna meiri háttar framkvæmda. Í markmiðsgrein frv. segir aðeins að tryggja eigi að fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kunni vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Og síðan á að stuðla að samvinnu aðila og kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif. En það vill svo til að í tillögum nefndarinnar sem skilað var til umhvrh. 1998 var í markmiðsgreininni ekki eingöngu þetta sem ég hef hér lesið, heldur líka ákvæði um að koma í veg fyrir umhverfisskaða. Fyrsta spurning mín til hæstv. umhvrh. er því, hvers vegna í ósköpunum ákvæði um að koma í veg fyrir umhverfisskaða er tekið út úr markmiðsgrein, jafnþýðingarmikið og brýnt sem það er?

Ég ætla ekki að fara yfir hverja grein frv. en ég ætla að staldra við nokkur atriði. Ég byrja á því, herra forseti, að ræða um matsgildar framkvæmdir í 5. gr. Í upphafi greinarinnar er sagt að í þeim tilvikum sem fleiri en ein matsgild framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði geti ráðherra að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega. Þetta var ákvæði sem mjög bar á góma hér í umræðunni fyrir jól. Þá var talað um hversu mikilvægt væri að framkvæmdir á Fljótsdal, virkjun og virkjanir sem sjá ættu álveri við Reyðarfjörð fyrir orku ásamt línukerfi og álveri, ættu í raun og veru að fara í heildarmat. Bent var á það hversu þýðingarmikið það hefði verið að slíkt ákvæði hefði verið komið í lög. Ég tek hins vegar eftir því að ráðherrann á að hafa samráð við viðkomandi framkvæmdaraðila. Ég beini því til umhvn. hvort ekki þurfi að skoða þetta ákvæði því mér finnst ekki óeðlilegt að ráðherra geti úrskurðað að eðlilegt sé að fyrirhugaðar framkvæmdir á sama svæði fari allar í sameiginlegt mat.

Í 6. gr. er fjallað um hvað felst í 2. viðauka og hvernig Skipulagsstofnun kemur að framkvæmdum. Stofnunin á að tilkynna hvort framkvæmd skuli háð mati samkvæmt lögunum og þar á að fara eftir viðmiðunum í 3. viðauka við lög þessi. Þegar maður skoðar viðaukana, 1., 2. og 3., þá vakna spurningar, herra forseti. Í 1. viðauka eru taldar upp framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati. Þar eru t.d. nefndar stofnbrautir í þéttbýli og þar segir að nýir vegir utan þéttbýlis, 10 km eða lengri og endurbygging vega utan þéttbýlis þar sem nýlagning samkvæmt áætlunum nær yfir a.m.k. 10 km svæði. Þá vaknar spurningin: Geta einkaaðilar lagt veg yfir gróið land eða viðkvæmt, jafnvel hluta votlendis, að geðþótta, t.d. vegna sumarhúsabyggða eða annars? Skapast þarna hætta varðandi ósnortið eða óbyggt land? Af hverju erum við að meta slíka hluti í ákveðnum kílómetrum í stað þess að skoða hvernig landið er sem slíkt? Þarf ekki að skoða alla vegalagningu um viðkvæmt land?

Annað, herra forseti, sem ég rek augun í í 2. viðauka er nýræktun skóga á fjörutíu hektara svæði eða stærra, eða á verndarsvæðum, og ruðningur á náttúrulegum skógi sem nær til samans yfir tíu hektara svæði eða stærra eða er á verndarsvæðum. Þá vaknar aftur spurning, ekki síst vegna undanþáguákvæðanna og hversu óljós þau eru: Hvað með Suðurlandsskógana sem á að fara að rækta upp á stóru svæði? Það er að margra áliti umdeilt hvort rækta eigi upp svo umtalsvert svæði með skógi. Hér er búið að dreifa tillögu um skoðun á slíku skógarsvæði á Suðurnesjum. Hvernig er hægt að tryggja að það sé sett í umhverfismat hvort yfirleitt eigi að fara með nýja ræktun inn á svæði þar sem slík ræktun hefur ekki verið stunduð áður af náttúrulegum orsökum? Nú er ég ekki að setja fram eigin skoðun á því hvort hefja eigi skógrækt á Suðurnesjum eða Suðurlandi. Ég er að tala um að þetta þurfum við að skoða. Þetta þurfum við að skoða, virðulegi forseti, og tryggja að alltaf sé farið rétt í að meta áhrifin til framtíðar.

Í 8. gr. er talað um matsáætlun. Í dag hafa framkvæmdaraðilar mjög frjálsar hendur. Það er verið að breyta því í þessari grein. Nú er lagt til að Skipulagsstofnun geri mats\-áætlun sem framkvæmdaraðili þarf að hlíta. Þó breyttist þessi grein og ég bið fulltrúa umhvn. að skoða það. Þáttur framkvæmdaraðila var mjög styrktur frá því sem var í tillögum nefndarinnar eins og hún skilaði málinu til umhvrn. Mér finnst mikilvægt að skoða hvort sú breyting, að styrkja stöðu framkvæmdaraðila sé rétt eða skynsamleg.

Í bráðabirgðaákvæði III er ákvæði um að umhvrh. eigi að skipa nefnd til að kanna hvort ástæða sé til að sameina og samræma ákvörðunarferli mats sbr. 11.--13. gr. í lögunum. Þarna er sérstakt ferli ótengt leyfisveitingum eins og kom fram í máli ráðherra. Þess vegna æskir ráðherra þess að setja nefnd á laggirnar til að skoða hvort breyta eigi þessum ákvæðum.

[16:00]

Þá vaknar enn á ný þessi spurning: Hvers vegna hefur það ekki verið skoðað síðan 1998 hvort skynsamlegt sé að hafa ferlið eins og það er samkvæmt 11., 12. og 13. gr.? Hvernig má það vera að það eigi eftir að skoða það núna þegar við vorið 2000 afgreiðum þetta frv. sem lög frá Alþingi og miðað við hversu lengi það er búið að vera í vinnslu?

Mjög margt fangar hugann við skoðun á þessum málum. Ég gerði hér athugasemdir við framsöguræðu ráðherrans varðandi ákv. til brb. Við höfum bent á að Samfylkingin hefur sett fram frv. um breytingu á þessum lögum og að það frv. hreinsar upp gömul leyfi sem hæstv. ráðherra ætlar að viðhalda þar til í árslok 2002. Auðvitað má spyrja: Hvenær lýkur þessari dellu, að eldgömul leyfi, jafnvel 50 ára gömul, eigi að lifa áfram og áfram? Af hverju er það bráðabirgðaákvæði ekki sett í frv. hér og nú að þær virkjanir sem taldar eru upp í svari við fyrirspurn Sighvats Björgvinssonar, skuli háðar umhverfismati?

Þetta er mjög viðamikið, virðulegi forseti. Það er getið um Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun, Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Hitaveitu Suðurnesja, stækkanir á öllum þessum virkjunum og Búrfellsvirkjun, Hitaveitu Reykjavíkur og Nesjavallavirkjun. Þetta eru svo viðamikil svæði sem leyfi er fyrir og auðvitað mismunandi að stærð og gerð að það er alveg ótrúlegt að það eigi að halda þessu opnu til ársloka 2002.

Því spyr ég hæstv. umhvrh.: Er ráðherrann sammála iðnrh. um að þessar framkvæmdir sem fram koma í svari við fsp. Sighvats Björgvinssonar verði áfram undanþegnar þar til e.t.v. verður búið að stinga niður skóflu í árslok 2002 sem viðheldur undanþágunni?

Ráðherra á að kveða upp úr um hvort framkvæmd sé hafin eða ekki. Hvað mun ráðherrann leggja til grundvallar mati á því hvort framkvæmdir séu hafnar og hvaða kröfur mun ráðherrann gera um að framkvæmdir teljist hafnar þegar hann á að meta það? Það er skelfileg staða fyrir einn ráðherra að eiga sjálfur að meta það hvort jafnþýðingarmiklir hlutir og slík framkvæmdaleyfi verði opin áfram eða hvort þau eigi að fara inn í nútímalög eins og mat á umhverfisáhrifum.

Herra forseti. Ég nefndi hér skýrsluna sem lögð var fram sem opinber stefna í umhverfismálum 1993 og sem mér hefur fundist að væri haldið á lofti sem stefnu í þessum efnum af þeim ráðherrum sem síðar komu. Það er margt fróðlegt að sjá í þessari skýrslu. Þar er talað um meginreglurnar sem hér hafa verið nefndar, varúðarregluna og mengunarbótaregluna og nytjagreiðsluregluna sem er náttúrlega undirstaðan að því að við erum að setja slík lög.

En það er líka talað um nýja nálgun, nefnilega þá að þróun sem tekur mið af verndun umhverfisins verður ekki innleidd með boðum og bönnum. Slík breyting verður að byggjast á skilningi og samstöðu þjóðarinnar og virkri samvinnu stjórnvalda og hagsmunaaðila, félagasamtaka og heimila. Þannig verða sjónarmið umhverfisverndar og grundvallarhugsun sjálfbærrar þróunar sjálfsagður og ófrávíkjanlegur þáttur í öllum mannlegum athöfnum. Það er nærri því sárt að lesa þessa stefnumörkun frá 1993 og hugsa til umræðunnar frá í haust og fyrir jól og hvað þessi stefna og þessi hugsun var fyrir borð borin.

Á bls. 11 í þessari skýrslu segir líka að unnið verði að því að fjölga þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og náttúruminjum. Einkum verði lögð áhersla á friðlýsingu mýrlenda, strandsvæða, miðhálendis og annarra óbyggðra svæða.

Herra forseti. Síðan eru liðin sjö ár og við erum hér að ræða um framkvæmdir og virkjanir til að sjá álveri frá 120 þús. tonnum upp í 480 þús. tonn að stærð fyrir orku. Enn er á floti hvaða stærð af álveri verið er að tala um og hversu mikla orku muni þurfa.

En við erum ekki bara að tala um það. Úti í þjóðfélaginu, hjá framkvæmdarvaldinu og á Alþingi er líka verið að tala um að fara að framleiða vetni og það er spennandi kostur. En hvað þýðir það? Allt innflutt eldsneyti er um 850 þús. tonn, ef ég man tölurnar rétt, og ef við ætlum að útvega vetni á allar bifreiðar í þessu landi og allan flotann sem notar innflutt eldsneyti í dag þá þurfum við 19 teravattstundir. Það er 2,5-föld núverandi orkuframleiðsla. Ef við gefum okkur það að farið verði út í efnarafala og að það þurfi ekki nema helminginn af þessari orku þá erum við að tala um tvær Kárahnúkavirkjanir bara fyrir framleiðsluna á því vetni.

Virðulegi forseti. Við tölum aldrei um hlutina í réttri röð. Fyrir sjö árum settum við fram stefnu í umhverfismálum. Sjö árum síðar vitum við ekki hvað við ætlum að virkja og til hvers. Hvar ætlum við að taka orku? Hvað ætlum við að vernda? Hvar ætlum við að hafa þjóðgarða? Þessum spurningum er jafnósvarað núna í febrúarlok 2000 og árið 1993 þegar þessi stefna var sett fram. Þetta er til umhugsunar á hv. Alþingi, virðulegi forseti.