Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 16:49:25 (4862)

2000-02-24 16:49:25# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir umræðurnar sem orðið hafa hér í dag um þetta nýja frv. Mér heyrist að fjölmargir þingmenn telji að hér sé almennt séð um bót að ræða á umhverfismatslögunum þó að sjálfsögðu séu deilur um einstaka atriði. Ég ætla að svara ýmsum spurningum sem til mín hefur verið beint. Ég tel að svör hafi komið fram við hluta þeirra spurninga í fyrstu ræðu minni en mun reyna að hlaupa yfir aðrar spurningar sem ég hef fengið.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir taldi að í 1. gr., b-lið sérstaklega, væri verið að móðga skipulagsstjóra eða eitthvað því um líkt með því að nota orðið hagsmunaaðilar. Hún taldi að það væru framkvæmdaraðilar. Það þarf ekki endilega að vera, hagsmunaaðilar geta líka verið almenningur og aðrir. Það er alls ekki svo að hér sé reynt að móðga neinn.

Varðandi d-lið 3. gr. þá taldi þingmaðurinn ankannalegt að felld væru út orð sem komu frá nefndinni sem endurskoðaði lögin, þ.e. varðandi leyfi. En þannig er að það gætu verið miklu fleiri leyfi sem tilgreina ætti en gert var ráð fyrir hjá nefndinni og þau leyfi falla undir önnur lög. Því var talið óeðlilegt að hafa inni í lögunum þessa viðbót sem þingmaðurinn nefndi. Þetta var fellt út af þeim ástæðum en langflest leyfin falla undir lögin með þessum hætti eins og þau eru sett fram í frv.

Varðandi g-lið 3. gr. þá ræddi hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir um að tillagan frá nefndinni væri vængstífð. Hún á við að upphaflega átti að taka tengdar framkvæmdir og meta með upphaflegu framkvæmdinni, ef hægt er að orða það með þeim hætti. Við nánari skoðun var ákveðið, vegna þess að það er matsatriði hvað eru tengdar framkvæmdir, að leggja það í dóm ráðherra hverju sinni og það er fellt inn í texta 2. mgr. 5. gr. Það er því umhvrh. að meta hverju sinni með hvaða hætti þetta verður gert.

Sem svar við spurningum hv. þm. um l-lið 3. gr., um hvers vegna ekki sé getið um alþjóðasamninga þar eins og nefndin taldi að ætti að vera, þá eru allir alþjóðasamningarnir taldir upp í athugasemdum frv. sem er lögskýringargagn.

Varðandi 8. gr. og matsáætlunina sem hefur verið nokkuð hér til umfjöllunar þá er ljóst að matsáætlunin er ferli sem endar í matsskýrslu. Hér er því um ferli að ræða sem er undanfari matsskýrslunnar. Hér er ekki átt við matsskýrsluna eins og hún er í dag heldur er þetta nýtt ferli með sérstaka skírskotun í væntanlegum lögum. Þetta ferli heitir matsáætlun og á að enda í matsskýslu og skipulagsstjóri getur krafist sérstakra gagna á grundvelli hennar. Hann þarf eðlilega að rökstyðja þá beiðni sem hann leggur til framkvæmdaraðilans þannig að framkvæmdaraðili viti klárlega hvaða gagna hann eigi að leita frekar.

Hér kom einnig spurning um 9. gr., þ.e. um að ávallt eigi að gera grein fyrir helstu möguleikum. Hér var spurt: Af hverju ekki að segja í textanum að einnig skuli sýna fram á áhrifin af því ef ekkert er aðhafst, áhrif svokallaðrar núlllausnar eins og margir hafa viljað orða það? Ég tel að með þessum lögum geti Skipulagsstofnun ákveðið, sjái hún ástæðu til, að krefjast í matsáætlun þess að það sýnt verði fram á einhvers konar núlllausn. Ég tel óraunhæft að krefjast þess alltaf. Hugsunin með þessu er að Skipulagsstofnun geti krafist núlllausnar. Ef framkvæmdaraðili sættir sig hins vegar ekki við það þá væri honum heimilt að kæra það til ráðherra eins og allar ákvarðanir skipulagsstjóra má kæra til ráðherra þannig að það má vera að það komi til þess að núlllausnar sé krafist. En ég tel eðlilegt að nefndin skoði þetta sérstaklega.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir talaði um samráð við náttúruverndarsamtök við undirbúning þessa frv. Í nefndinni sem undirbjó frv. og endurskoðaði lögin voru fjölmargir fulltrúar, þar á meðal fulltrúi Náttúruverndarráðs. Nefndin sendi frumvarpsdrög sín til Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands og auðvitað fjölmargra annarra aðila. Þessir aðilar voru líka kallaðir til fundar við nefndina og þannig var haft samráð við náttúruverndarsamtök og fjöldann allan af öðrum hagsmunaaðilum.

Um skilgreiningu á tilgangi laganna, þ.e. að koma í veg fyrir umhverfisskaða, þá er þessi skilgreining miðuð við markmiðssetninguna í tilskipun ESB en að sjálfsögðu er það hlutverk laganna almennt að koma í veg fyrir umhverfisskaða. Það er bara andi umhverfismats að menn skoði nákvæmlega afleiðingar þess að fara út í framkvæmdir. Telji menn að þær valdi þvílíkum umhverfisskaða að þær séu ekki réttlætanlegar, þá er þeim hafnað. En það má benda á að hingað til hefur skipulagsstjóri sem er úrskurðaraðili aldrei hafnað framkvæmd, aldrei nokkurn tíma. Það eru margir sem halda það að skipulagsstjóri hafi hafnað hinum og þessum framkvæmdum, en það hefur aldrei komið til þess.

Varðandi það að einkaaðilar geti lagt veg yfir gróið land að eigin geðþótta, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir taldi að hugsanlega mætti skynja lesa úr 6. gr., þá er því til svara að samkvæmt 10. lið b í 2. viðauka á að tilkynna alla nýja vegi utan þéttbýlis á verndarsvæðum og svæðum sem eru á náttúruminjaskrá. Þannig yrði það í valdi skipulagsstjóra að meta hvort vegir á viðkvæmum svæðum ættu að fara í mat eða ekki. Ég tel því að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af vegalagningu þar sem vel er fyrir því séð með þessu ferli, þ.e. í 2. viðauka.

Um skógana má segja að þar gildi það sama. Skógar 40 hektarar og stærri og á verndarsvæðum eru tilkynningarskyldir samkvæmt 2. viðauka þannig að Suðurlandsskógar t.d., af því hv. þm. Margréti Frímannsdóttur spurði um þá, eru ekki matsskyldir samkvæmt gildandi lögum. Verði þetta frv. hins vegar að lögum þá er öll skógrækt yfir 40 hektara eða á verndarsvæðum tilkynningarskyld þannig að gengið er mun lengra í þessu frv. en í núgildandi lögum.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurði af hverju efnisatriði ákv. til brg. III hefðu ekki verið skoðuð fyrr. Þetta kom til umræðu í nefndinni en hún taldi ekki ástæðu til breytinga. Því var þetta ekki sett inn en við teljum eðlilegt að skoða þessi mál heildstætt miðað við það sem menn eru að gera erlendis. Hins vegar er ljóst að það eru afar mörg lög sem athuga þarf. Ef við breyttum þessu úrskurðarferli þá þyrfti að mínu mati að skoða nánast allt stjórnkerfið af því að í dag er ráðherra endanlegt stjórnvald í sínum málaflokki. Ef við ætlum að breyta t.d. því sem hér var talað um fyrr í dag, að ríkisstjórn eigi að ákveða sameiginlega hvort fara eigi í framkvæmd á grundvelli umhverfismats, þá er það ekki í anda stjórnsýslu okkar í dag af því að ríkisstjórn er ekki sameiginlegt vald. Ég vona að hv. þm. skilji hvað ég er að fara. Það eru því mörg lög sem þyrftu að koma til skoðunar ef við ætluðum að breyta ferlinu og það tæki langan tíma. Talið er að það tæki tvö ár.

[17:00]

Varðandi listann yfir það hvaða framkvæmdir gætu fallið undir bráðabirgðaákvæði I vil ég vísa til bráðabirgðaákvæðisins sjálfs. Þar stendur að umhvrh. úrskurði í hverju tilfelli fyrir sig hvort framkvæmdir hafi hafist fyrir árslok 2002. Þannig kæmi það til skoðunar í hverju einstöku tilfelli.

Síðan var spurt hvað hæstv. ráðherra mundi leggja til grundvallar við að meta hvenær framkvæmdir séu hafnar. Það er frekar erfitt að svara því en þyrfti væntanlega að skoða í hverju tilviki fyrir sig. Ég hef ekki svör um nein sérstök viðmið hér. Ég tel að það yrði erfitt að setja upp sérstök viðmið. Það verður að skoðast í hverju tilviki. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir telur að það hljóti að vera skelfileg staða fyrir hæstv. umhvrh. að þurfa að meta þetta. Ég tel svo ekki vera. Að sjálfsögðu verður einhver að meta þetta. Ég held að það sé ágætt að hæstv. umhvrh. geri það og mun ekki víla fyrir mér að gera það í framtíðinni, verði frv. samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Katrín Fjeldsted spurði um sólarlagsákvæði, hvort einhvers konar kröfur væru um það í tilskipun ESB. Svo er ekki. Það eru engar slíkar kröfur í tilskipun ESB. Við gætum þess vegna sleppt sólarlagsákvæðinu og látið þetta standa eins og það er í dag. En það viljum við ekki gera, við viljum hafa sólarlagskvæði.

Meginreglan er að lög eru ekki afturvirk. Meginreglan er að taka ekki af leyfi sem gefin hafa verið. En við ætlum samt að gera það. Við ætlum að taka leyfin af, ógilda þau leyfi sem menn telja sig hafa með réttu eða röngu, sem þyrfti að koma auðvitað til skoðunar, í árslok 2002 ef framkvæmdir hafa ekki verið hafnar. Okkur er hins vegar ekki skylt að gera það samkvæmt tilskipun ESB.

Hv. þm. spurði einnig um viðaukana, hvort við værum að breyta stöðu mála lagatæknilega með viðaukum sem við höfðum ekki áður. Við teljum upp hvaða framkvæmdir fari í mat á umhverfisáhrifum í lögunum sjálfum. Viðauki 2 er ekki í lagatexta í dag heldur í reglugerð. Við erum taka hann inn í lögin núna. Við erum því að ganga lengra en í lögunum í dag. Allir viðaukarnir eru hluti af lögunum þannig að við getum ekki breytt viðaukunum án þess að fara með það í gegnum þingið. Hins vegar var ákveðið að hafa viðauka af því að það er miklu skilmerkilegra og aðgengilegra fyrir almenning að skilja lögin og skynja hvað á að fara í mat, hvað ekki og hvað kemur til álita með því að setja það upp viðauka.

Hv. þm. spurði einnig hvort hæstv. umhvrh. ætlaði nokkuð í fleiri stríð við þjóðina. Ég tel ekki að hæstv. ráðherra hafi verið í stríði við þjóðina. Ég gæti spurt á móti til skemmtunar hvort hv. þm. Katrín Fjeldsted sé ekki í stríði við eigin þingflokk en ég ætla ekki að gera það neitt sérstaklega.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurði í sambandi við skilgreiningu á umtalsverðum umhverfisáhrifum, hvort það væri í samræmi við tilskipunina. Svarið er: Já, við styðjumst við tilskipunina þó að það sé örugglega ekki endilega frá orði til orðs. En það er stuðst við tilskipunina.

Varðandi spurningar hv. þm. um þrengt gildissvið, að með einhverjum hætti sé verið að hindra skipulagsstjóra í að fara fram á mat, þá er það alls ekki þannig. Ég áttaði mig ekki á röksemdafærslu hv. þm. þar. Hins vegar er sjálfsagt að nefndin fari nákvæmlega yfir skilgreininguna á umtalsverðum umhverfisáhrifum. Það er alla vega ekki meiningin með lögunum að hindra skipulagsstjóra í að fara fram á mat. Ætlunin er alls ekki að þrengja gildissvið t.d. núverandi laga.

Einnig var spurt um vegina. Það er alveg ljóst að skylt er að tilkynna um alla vegi á viðkvæmum svæðum. Allir vegir eru tilkynningarskyldir ef þeir eru á viðkvæmum svæðum hversu stuttir sem þeir eiga að vera.

Virðulegi forseti. Þar sem tími minn er nú útrunninn vil ég ítreka að ég fagna umræðunni hér í dag þó að ég skynji að menn hafi deildar meiningar um ýmis atriði. En ég vænti þess að nefndin fari yfir þau atriði sérstaklega. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, að þessi lög eru viðamikil og maður hefði svo sannarlega viljað hafa meiri tíma til að koma öllu til skila í upphafsræðu en svona eru reglurnar sem gilda í þinginu.