Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 17:09:00 (4867)

2000-02-24 17:09:00# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[17:09]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Það er búið að kæra okkur á vettvangi Evrópusambandsins vegna Fljótsdalsvirkjunar vegna ágreinings um þetta undanþáguákvæði. Við höfum svarað þeim spurningum varðandi það sem til okkar í ráðuneytinu hafa komið. Hins vegar er alveg ljóst að aðalatriðið í þessu er að lög eru almennt ekki afturvirk.

Við fórum mjög nákvæmlega yfir þetta í umræðunni um Fljótsdalsvirkjun skömmu fyrir jól. Niðurstaða þingsins var í fyrsta lagi að hafna því að fara í lögformlegt umhverfismat, það var gert með meirihlutaákvörðun. Síðan var samþykkt að halda áfram með framkvæmdirnar sem hafnar eru. Það var gert með meiri þingstyrk en stjórnarflokkarnir hafa á bak við sig. Ég tel að það skýri mjög vel hver er vilji Alþingis í þessu máli.