Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 17:12:10 (4870)

2000-02-24 17:12:10# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[17:12]

(Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frammíkall hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, er nákvæmlega það sem málið snýst um. Við erum að setja hér lög núna. Við ætlum að setja ný lög um mat á umhverfisáhrifum og við ættum að vera búin að læra af þeirri umræðu sem verið hefur í vetur og hafa ekki slík undanþáguákvæði. Að láta þau gilda til 2002 er fráleitt.

Hv. umhvn. hlýtur að skoða þá kröfu hvort við fellum ekki úr gildi allar slíkar undanþágur. Nú gera allir framkvæmdaraðilar sér grein fyrir því að framkvæmdir sem hafa í för með sér meiri háttar röskun á umhverfinu, hvort sem er á náttúru eða byggð, verða ósköp einfaldlega að fara í mat á umhverfisáhrifum. Nú vita það allir og þarf ekki lengur að gefa mönnum neinar undanþágur.