Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 17:17:39 (4875)

2000-02-24 17:17:39# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[17:17]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kem hér aftur vegna þess að hæstv. ráðherra fer eins og köttur í kringum heitan graut þegar um er að ræða l-lið 3. gr.

Hvaðan í veröldinni hefur hæstv. ráðherra þessi orð, óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif og að skipulagsstjóri, yfirmaður þessa málaflokks, undirmaður hæstv. ráðherra, skuli fara í að meta það? Og hvaðan í veröldinni hefur hæstv. ráðherra skilgreininguna á því hvað eru umtalsverð umhverfisáhrif, veruleg óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfi? Það er ekki í tilskipuninni sem er verið að vísa til. Menn eiga ekki að venja sig á að vera með tilvísanir í tilskipanir Evrópusambandsins og fara ekki rétt með. Þær tilskipanir sem hér um ræðir, þ.e. 85/337/EBE og 97/11/EB, fela ekki í sér þessi orð og þessa skilgreiningu á því hvað eru umtalsverð umhverfisáhrif. Þær gera það ekki.

Þegar vísað er í það í greinargerð með frv. að stuðst sé við tilskipun við skilgreiningu á þessu hugtaki, þá verður að gera það rétt. Ég spyr enn og aftur hæstv. ráðherra: Hvar í veröldinni eru til sambærileg lög um mat á umhverfisáhrifum, hjá einhverri þeirri þjóð sem við berum okkur saman við eða styðst við Evrópusambandsreglurnar? Hefur einhver þjóð þessa skilgreiningu? Engin. En ef hæstv. ráðherra hefur fundið hana þá vil ég gjarnan heyra það. Ég vil gjarnan fá sterkari rökstuðning fyrir þessari skilgreiningu vegna þess að hvernig sem á þetta er litið er þetta þrenging á gildissviðinu frá núgildandi lögum. Frv. þetta átti að vera til að styrkja mat á umhverfisáhrifum, styrkja löggjöfina og færa okkur nær þeim þjóðum sem við miðum okkur við og eigum samstarf við á sviði umhverfismála.

Við áttum að vera búin að vinna þetta verk fyrir einu ári. En núna er það að druslast hér inn. Lái mér það hver sem vill þó ég vilji, virðulegi forseti, fá að sjá að sú löggjöf sem búið er að leggja þessa miklu vinnu í, þetta frv. sem hér er, bæti um betur frá þeim lögum sem við höfum. En það gerir frv. ekki.

Eftir alla þá umræðu sem búin er að vera hér í vetur um Fljótsdalsvirkjun, um mat á umhverfisáhrifum sem menn hafa túlkað, togað og teygt eins og þeim sýnist, og hvernig við förum með bráðabirgðaákvæðin, hvort þau eru í gildi eða ekki, höfum við lært að við eigum að hafa þessi lög þegar þau koma héðan svo kýrskýr að ekki nokkur maður sem þarf að vinna eftir þeim, hvort sem um er að ræða framkvæmdaraðila, sveitarfélögin eða ríkisvaldið og ég tala nú ekki um hv. þingmenn, enginn má vera í vafa um hvert við erum að fara, hver meiningin er, hvert við stefnum.

Í gær héldum við upp á tíu ára afmæli umhvrn. Hjartanlega til hamingju, hæstv. ráðherra. Þetta er gjöf sem þjóðin á skilið eftir þá umræðu sem hér var í vetur og eftir það hvernig var farið með þjóðina þegar henni var skipt í tvær fylkingar og henni talin trú um að mat á umhverfisáhrifum væri nokkuð sem andstæðingar framkvæmda vildu, andstæðingar uppbyggingar atvinnu í landinu og andstæðingar þess að halda við byggð í öllu landinu

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki í gegnum aðra svona umræðu hér á hv. þingi. Ég ætla ekki að gera það. Og ég vil ekki að Alþingi leggi það á þjóðina að við förum í gegnum aðra slíka umræðu. Þess vegna skal það vera alveg kýrskýrt hvert við erum að fara og hvað við viljum. Engar undanþágur takk fyrir, engar undanþágur. Nú höfum við kjark til þess að standa ekki öðrum þjóðum að baki í þessum efnum. Og það þýðir ekkert að koma og segja að einhverjar mælingar erlendis hafi sýnt að við séum númer tvö, að hér sé búið að vinna svo vel að umhverfismálum að í mati á stöðu okkar séum við númer tvö meðal þjóðanna. Af hverju erum við það? Það er vegna þess að þegar reiknað er út þá vantar í staðlana allt umhverfið, þ.e. náttúruna. Það vantar inn í þetta mjög stóra þætti og þá m.a. hvernig við förum með náttúru okkar sem er á margan hátt einstæð í veröldinni. Það þarf að taka út heildarstöðuna. Það eru fréttir fyrir mig, virðulegi forseti, ef við t.d. stöndum okkur það vel í sorpmálum og í frárennslismálum að við séum númer tvö í heiminum hvað það varðar. Það eru fréttir fyrir mig.

Ég var fyrir tveimur dögum austur á Höfn í Hornafirði. Framkvæmdir sem sveitarfélagið þarf að fara í til þess að vera löglegt t.d. í frárennslismálum kosta 300 milljónir. Hér hefur ekki verið mikil umræða um þennan bagga sveitarfélaganna eða úrræði.

Umfjöllun Alþingis um þetta frv. skal vera þannig þegar við klárum þetta mál --- og þangað til skulum við halda því hér inni og ekki hleypa því út --- að þegar við samþykkjum það þá sé það á máli sem almenningur skilur, upplýsingarnar um hvað það þýði liggi á hvers manns borði sem á að vinna eftir þessu þannig að enginn geti falið sig á bak við nein vafaatriði eða undanþáguákvæði. Þannig má það ekki vera. Þá fyrst getum við farið að bera höfuðið hátt.

En að veruleg óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu þýði það sama og umtalsverð umhverfisáhrif og að þetta eigi skipulagsstjóri að meta, það er ekki í lögum annarra þjóða.

Við skulum líka velta vel fyrir okkur þeim stærðarmörkum sem eru í viðaukunum, 10 km vegarspottum eða einhverjum öðrum stærðartakmörkunum sem þar eru á ýmsum framkvæmdum, þ.e. hvort það skuli fara í mat á umhverfisáhrifum eða ekki.

Virðulegi forseti. Það er mjög alvarlegt þegar umræða um mat á umhverfisáhrifum, sem er orðin viðurkennd aðferð alls staðar í heiminum og við tókum upp vegna þess að við erum aðilar að EES-samningnum --- ekki vegna þess að til þess væri vilji heldur vegna þess að við vorum til þess neydd --- þegar skilningurinn og umræðan er á þeim nótum sem hún hefur verið í vetur. Við látum það ekki yfir okkur ganga aftur. Við gerum það ekki og við látum engar framkvæmdir dúkka upp á tímabilinu 2000--2002 sem ekki er búið að segja frá en höfðu samt verið einhvers staðar í farvatninu og kannski hægt að taka fyrstu skóflustunguna eða senda ýtu á staðinn til að segja: ,,Framkvæmdin var hafin.`` Þetta er liðin tíð.

Það er erfitt að fara yfir málið en umhvn. treysti ég vel því og sem betur fer þarf þetta frv. ekki að fara til meiri hluta iðnn. Ég held að umhvn. eigi ein að fjalla um það, guði sé lof. Ég vona að þegar það kemur til 2. og 3. umr. þá sé búið að gera það þannig úr garði að við getum getum staðið keik eftir.