Mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 17:34:22 (4881)

2000-02-24 17:34:22# 125. lþ. 71.22 fundur 378. mál: #A mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla# þál., Flm. JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[17:34]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Við flytjum á þskj. 635 till. til þál. um endurskoðun mælistuðla í fiskveiðum. Flm. eru auk mín hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, Sighvatur Björgvinsson og Lúðvík Bergvinsson.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela sjútvrh. að láta Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins endurskoða mælistuðla sem nú eru notaðir við mat á þyngd sjávarafla og ígildi fiska af einni tegund í annarri í fiskveiðum íslenskra skipa og slægingu og vinnslu sjávarafla.``

Í grg. kemur eftirfarandi fram:

,,Mælistuðlar sem notaðir hafa verið við mat á þyngd sjávarafla og þorskígildisstuðlar sem notaðir eru við mat á gildi þorsks og annarra tegunda vegna meðferðar kvóta hafa oft verið gagnrýndir harkalega á opinberum vettvangi. Þessar viðmiðanir eru afar mikilvægar fyrir útgerðarmenn og fiskverkendur og mælistuðlarnir geta skipt sköpum hvað varðar samkeppni milli fiskvinnslu í landi og fiskvinnslu í fullvinnsluskipum. Þeir ráða miklu um það hvort afla er landað slægðum eða óslægðum og skipta miklu þegar útgerðaraðilar og fiskverkendur taka ákvarðanir um í hvaða vinnslu eða sölumeðferð fiskurinn fer hverju sinni. Þeir ákvarða gildi aflaheimilda sem útgerðir skiptast á um.

Það gefur augaleið að þegar reglur af þessu tagi eru settar er mjög mikilvægt að besta fáanleg þekking á áhrifum mismunandi meðferðar aflans sé til staðar. Slík þekking er ótvírætt til staðar hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þess vegna er hér lagt til að stofnuninni verði falið þetta mikilvæga verkefni.

Komi í ljós að núgildandi reglur hafi mismunað aðilum í útgerð og fiskvinnslu skapast þannig tækifæri til að leiðrétta þá mismunun. Verði það hins vegar niðurstaðan að núgildandi stuðlar séu réttir ætti endurskoðunin að draga verulega úr tortryggni gagnvart gildandi reglum.``

Þessi mál hafa verið í umræðunni æðilengi og alveg frá því að menn komu upp því kerfi sem við búum við um stjórn fiskveiða og oft hefur staðið mikil deila um hvort þessir mælistuðlar séu eðlilegir og endurspegli í raunveruleikanum hvað fiskurinn er þungur sem veiddur er og unninn er t.d. í fullvinnsluskipum. Og hefur kannski verið harðasta deilan þar. Síðan hafa líka oft staðið deilur um þá stuðla sem menn hafa notað í sambandi við að meta hve þungur fiskur er eftir því hvort hann er slægður eða óslægður.

Þetta skiptir óskaplega miklu máli því að verðmætin í fiski eru mjög mikil og ef þessir stuðlar eru ekki réttir er verið að mismuna og gera upp á milli útgerðarforma hvað varðar t.d. fullvinnsluskipin og önnur hvað varðar kvóta í mjög miklum mæli ef þessir stuðlar endurspegla ekki raunveruleikann eins og þeir eiga að gera. Ég tel að löngu tímabært sé að fram fari virkilega góð endurskoðun og að sú endurskoðun sé falin aðila sem allir geta treyst vel til þess. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er slíkur aðili.

Ég hef þá trú að mjög margir telji að samkeppnisaðstaðan sé mjög skekkt vegna þess að mælistuðlarnir séu rangir hvað varðar fullvinnsluskipin. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það, en ég held því hins vegar fram að það geti ekki verið til góðs að láta þessa deilu standa áfram og þess vegna er best að úr þessu verði skorið með vandaðri yfirferð og að menn leggi í það góða vinnu sem ekki verði vefengd eftir á að hafi verið unnin af færum aðilum sem hafa fulla þekkingu til að taka á þessu máli.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að þessu máli verði vísað til meðferðar í hv. sjútvn. og vonast til þess að það fái greiðan framgang í þinginu í vetur.