Mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 17:43:13 (4883)

2000-02-24 17:43:13# 125. lþ. 71.22 fundur 378. mál: #A mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[17:43]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft hinu þarfasta máli. Það er að nokkru leyti rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði að við erum að tala um þrjú atriði. En það er ekki hægt að fullyrða að þessi þrjú atriði séu alveg aðskilin. Ég held að þau séu nefnilega þó nokkuð nátengd innbyrðis og geti haft áhrif hvert á annað í því kerfi sem við erum með um stjórn fiskveiða þar sem þorskígildið er metið og notað í ýmsum viðskiptum eða í ýmsum skiptum. Það er notað í svokölluðum jöfnum skiptum þar sem menn telja að þeir séu að skipta á jöfnu verðgildi fisktegunda þar sem þorskurinn er einn og svo einhver önnur fisktegund mun hærri, eins og t.d. grálúðan nú um stundir þar sem hún er hærri en þorskurinn. Síðan getum við farið í aðrar tegundir sem eru miklum mun verðminni og eru undir margfeldisstuðlinum einum í skiptum. Þetta hlutfall nota menn til skipta á tegundum á milli sín, en það kemur líka inn á nýtingarstuðlana vegna þess að þegar menn eru að leggja mat á þessi skipti sín á milli er hver og einn útgerðarmaður að hugsa út frá sinni útgerð.

[17:45]

Sá sem gerir út frystiskip og lítur á nýtingarstuðlana þar um borð leggur þá með sér þegar hann metur hvort skiptin eru honum hagstæð eða ekki. Þar af leiðandi tengist nýtingarstuðullinn í raun viðskiptunum um þorskígildið. Þó að í hinni þröngu skilgreiningu sem ráðherrann lagði í þetta áðan megi segja að þorskígildisverðmætið sé metið á einhverju markaðsverði þá hefur það samt áhrif og hlýtur að hafa áhrif.

Sama má segja um slægingarstuðlana. Þeir hafa áhrif á þetta hvort tveggja, bæði nýtinguna og eins hvernig viðkomandi fisktegund telst inn í kvótann miðað við það hvort menn eru að landa slægðum eða óslægðum fiski. Þar af leiðandi hefur slægingarstuðullinn líka áhrif á þorskígildisstuðulinn þó að hann sé skilgreindur í lögunum eins og hann hafi ekki áhrif vegna þess að sá sem gerir út fiskiskip og landar óslægðum fiski metur það í hverju tilviki þegar hann á einhver skipti eða viðskipti hvernig þetta komi út fyrir hann, þ.e. miðað við að hann sé að landa óslægðum fiski.

Þrátt fyrir að ráðherrann hafi gert hér grein fyrir því að hér væri um þrjú nokkuð aðskilin atriði að ræða þá er það einfaldlega þannig að í kerfinu sjálfu tekur hver og einn mið af sínum staðreyndum og vinnur út frá því. Þannig hafa öll þessi atriði áhrif á þorskígildismatið þegar menn eiga viðskipti sín á milli, skipta á jöfnum tegundum eða hagræða með öðrum hætti.

Þessi þrjú atriði eru svo líka notuð þegar menn búa til sjálftökukvóta í gegnum tegundatilfærslur þar sem menn virkilega meta það hvað sé nú hagstæðast að taka inn af tegundum sem ekki hafa veiðst eða veiðast illa og í hvað sé hagstæðast að breyta. Þetta veit ég að ráðherrann veit allt saman. Þó að hann hafi talað um að þetta væru þrjú aðskilin atriði þá er það alls ekki svo. Ég held að hér sé hreyft mjög þörfu máli sem er kannski flóknara en þessi litla tillögugrein ber með sér.