Úthlutun listamannalauna

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:21:32 (4900)

2000-03-06 15:21:32# 125. lþ. 72.2 fundur 354#B úthlutun listamannalauna# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurningin er hvort ég muni beita mér fyrir því að Alþingi setji einhverjar mælistikur fyrir úthlutunarnefndir í slíkum tilvikum. Í sjálfu sér þarf ekki atbeina ráðherra að því ef Alþingi vill setja einhverjar nýjar mælistikur. Það geta menn gert án þess að ráðherrar skipti sér af því.

Sú skipan sem nú gildir var tekin upp vegna þess að menn vildu ekki hafa það fyrirkomulag sem var þar sem Alþingi kaus menn til að úthluta þessum styrkjum og þá var þetta fyrirkomulag tekið upp. Það var fært í hendurnar á listamönnunum sjálfum, félögum þeirra, að tilnefna menn í úthlutunarnefndir og síðan taka þær nefndir ákvarðanir um skiptingu þess fjár sem Alþingi ákveður hverju sinni. Mjög lengi, í mörg ár var gagnrýnt að listamannalaun væru veitt af kjörnum fulltrúum Alþingis. Síðan var þessi skipan tekin upp af Alþingi sjálfu.

Ef Alþingi telur nauðsynlegt í ljósi m.a. þeirra svara sem ég gaf hv. þm., að huga að sérstökum mælistikum sem það vill setja um þetta efni, þá er það ekki frumkvæði ráðherra sem þar þarf að koma til heldur frumkvæði einstakra alþingismanna og umræður á þinginu um slíkar mælistikur.

Ég vil vekja athygli á því að Alþingi hefur líka með stjórnsýslulögum sett þær reglur að menn þurfa ekki að rökstyðja slíkar ákvarðanir eins og ýmsar aðrar ákvarðanir sem teknar eru af framkvæmdarvaldinu eða fulltrúum þess. Alþingi hefur því líka mótað þær reglur um þetta að ekki er hægt að óska eftir því að menn rökstyðji það sérstaklega hvers vegna þessi listamaðurinn fékk styrk en ekki einhver annar. Þetta hefur Alþingi ákveðið. Þetta er því í höndum Alþingis og hv. fyrirspyrjandi er þingmaður eins og ég og hann hefur sama frumkvæðisrétt í þessu og ég.