Hrossaútflutningur

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:25:01 (4902)

2000-03-06 15:25:01# 125. lþ. 72.2 fundur 355#B hrossaútflutningur# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:25]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. landbrh. og vil byrja á því að nefna að í góðu ávarpi sem hæstv. ráðherra flutti við setningu búnaðarþings í gær komst hann svo að orði að dýravernd verði að vera í hávegum höfð í íslenskum landbúnaði.

Ég fagna þeim ummælum sem sýna vilja og stefnu ráðherrans. En að gefnu tilefni spyr ég hæstv. ráðherra hvað hann ætli að gera vegna útflutnings íslenskra hrossa þar sem sýnt hefur verið fram á að 50--90% allra íslenskra hrossa eru mjög kvalin og illa haldin af exemi í flestum löndum sem við seljum hross til. Ég velti því fyrir mér hvort til greina komi að stöðva útflutninginn tímabundið. Ég velti því líka fyrir mér hver árangurinn hafi orðið af rannsóknum í Bændaskólanum á Hólum á orsökum hrossaexemsins, og ég spyr: Telur hæstv. ráðherra að unnt sé að framkvæma þessar rannsóknir við þær aðstæður þar sem ekkert exem myndast vegna loftslagskulda, þ.e. á Íslandi?

Herra forseti. Ég sé mikla ástæðu til að spyrja um þetta mál vegna þess að í hólfum allra þingmanna liggur minnisblað sem er, ef rétt er með farið, mjög alvarlegs eðlis. Ég tel ástæðu til að fara yfir þetta mál eins og það liggur fyrir áður en til greina kemur að erlend dýraverndunarsamtök beini sér gegn útflutningi íslenska hestsins vegna þessa vandamáls.