Starfsemi Barnahúss

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:34:38 (4908)

2000-03-06 15:34:38# 125. lþ. 72.2 fundur 356#B starfsemi Barnahúss# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Barnahús hefur verið starfrækt í rúmt ár sem samstarfsvettvangur þeirra sem vinna á vegum dóms- og barnaverndaryfirvalda að rannsókn og meðferð vegna meintra kynferðisafbrota gegn börnum. Við stofnun þess var samræmt hlutverk barnaverndarnefnda, lögreglu, lækna og saksóknara við könnun, rannsókn og úrlausn mála. Lögð er áhersla á að barn þurfi ekki að gefa endurtekna skýrslu af meintu ofbeldi og í framhaldi af skýrslutöku hafa börnin átt kost á viðeigandi meðferð. Þetta hefur að mati allflestra þeirra sem að málefnum barna vinna reynst vel og hefur starfsemi hússins vakið athygli víða.

Breytingar á lögum um meðferð opinberra mála hafa haft í för með sér að starfsemi hússins hefur dregist verulega saman og er það ekki notað í sama mæli og áður við meðferð þessara viðkvæmu mála.

Herra forseti. Skýrslutaka af barni vegna meints kynferðisofbeldis er viðkvæmt mál. Til slíkrar skýrslutöku þarf sérhæft fólk. Barnahúsið er til þess fallið að vernda barnið fyrir þeim óæskilegu áhrifum sem málsmeðferð getur haft í för með sér, enda hafa borist áskoranir til hæstv. dómsmrh. frá 33 stofnunum og samtökum um að tryggja starfsemi hússins og hefur Barnaheill komið þessum áskorunum á framfæri. Því spyr ég hæstv. dómsmrh.: Hyggst hæstv. ráðherra beita sér til að verða við áskorunum þessum? Í öðru lagi: Telur hæstv. ráðherra koma til greina að breyta lögunum um meðferð opinberra mála til að koma til móts við þessar kröfur?