Starfsemi Barnahúss

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:39:57 (4911)

2000-03-06 15:39:57# 125. lþ. 72.2 fundur 356#B starfsemi Barnahúss# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Það þarf kannski ekki að orðlengja meira um þetta mál. Ég vil bara taka undir með hv. þm. þegar ég segi að ég tel að við eigum að stuðla að því að bæta réttarstöðu barna og ungmenna í þessum málum eins og unnt er. Hins vegar er því ekki að neita að nokkuð skiptar skoðanir hafa verið um starfsemi Barnahúss eins og hún hefur farið fram og ég hygg að það séu ekki til önnur fordæmi en í Bandaríkjunum. Á Norðurlöndunum fara svona yfirheyrslur t.d. fram á lögreglustöðvum og það var einmitt að ábendingum og tilmælum frá umboðsmanni barna sem þessar lagabreytingar voru gerðar sem hv. þm. spyr hér um. Ég held að menn hafi verið sammála um að þær mundu þjóna þeim tilgangi að bæta réttarstöðu brotaþola þannig að ég held að ekki sé ástæða til þess að stuðla að breytingum á þeim aftur.