Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:43:59 (4915)

2000-03-06 15:43:59# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vildi aðeins fá upplýst hvort hæstv. forsrh. verði viðstaddur þessa umræðu vegna þess að ég hafði óskað eftir því og vissi ekki annað en að hann yrði hér viðstaddur. --- Nú sé ég hann hér í hliðarsal.

(Forseti (HBl): Hæstv. forsrh. er í húsinu og hafði vakandi gát á því sem gerðist í þingsalnum.)

Ég hafði ekki tekið eftir hæstv. forsrh. En hann er hér í salnum og er mér því ekkert að vanbúnaði að hefja þessa umræðu.

[15:45]

Ég mæli hér fyrir frv. um starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka. Frv. er á þskj. 225 og er 193. mál þingsins. Nú er mælt fyrir þessu frv. í sjötta sinn en það hefur verið flutt á undanförnum þingum, allt frá árinu 1995. Út af fyrir sig væri ekki ástæða til þess að hafa mjög ítarlega framsöguræðu um þetta frv. svo oft sem mælt hefur verið fyrir því í þingsölum. En það sem nýtt er í þessu máli frá því mælt var fyrir því á síðasta þingi er að nú liggur fyrir skýrsla nefndar forsrh. sem starfað hefur um nokkurra ára skeið til þess að vinna að þessu úrlausnarefni. Því er full ástæða til að fara nokkrum orðum um málið, ekki síst út frá þeirri niðurstöðu sem hefur orðið hjá nefnd forsrh.

Fyrst ætla ég að rifja upp örfá grundvallaratriði í frv. sem ég hef nokkrum sinnum mælt fyrir og fjalla almennt um tilganginn með því. Tilgangurinn er ekki síst sá að gera fjármál stjórnmálaflokkanna opin og sýnileg. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að fjármál stjórnmálaflokkanna séu með þeim hætti vegna þess að leyndin í kringum fjármál þeirra er einungis til þess fallin að auka á tortryggni almennings í þeirra garð. Sama gildir ef leynd hvílir yfir háum styrkjum frá einstaklingum eða fyrirtækjum til stjórnmálaflokka.

Frv. er nokkuð ítarlegt. Þar er annars vegar lagt til að settur verði almennur lagarammi um starfsemi stjórnmálasamtaka og hins vegar, sem er ekki síst að ástæða þessa frv., að settur verði lagarammi um fjármál þeirra. Segja má að það sem lýtur að fjárreiðum stjórnmálaflokkanna sé einkum tvíþætt í þessu frv.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að stjórnmálasamtök verði framtalsskyld og gert að skila skattframtali, reikningar þeirra endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum og birtir opinberlega. Í öðru lagi að stjórnmálasamtökum verði óheimilt að taka við fjárframlögum eða ígildi þeirra frá einstökum aðilum, sem fari yfir 300 þús. kr. á ári, nema birta nafn þess styrktaraðila opinberlega. Víða í vestrænu löndum hafa verið lögfestar strangar reglur í þessu sambandi til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Ég mun fara yfir það síðar í máli mínu.

Ég ræddi í upphafi um að mjög óheppilegt væri að hafa leynd í kringum fjármál stjórnmálaflokka. Ég tel að í slíkum tilvikum geti skapast ákveðin hætta á hagsmunaárekstrum sem leitt geti til óeðlilegra afgreiðslu mála í stjórnsýslu þar sem fáum aðilum væri hugsanlega hyglað á kostnað heildarinnar. Það er kannski sérstaklega hættulegt í því umhverfi sem við búum við þar sem fákeppni ríkir í ýmsum atvinnugreinum. Árangur og styrkur stjórnmálaflokka á ekki að ráðast af fjárhagslegri getu þeirra sem fyrst og síðast byggja yfirburði sína og starfsemi á fjárframlögum stóreignamanna og fjársterkra fyrirtækja og fyrirtækjasamsteypna. Það er því mjög mikilvægt að jafnræði ríki eins og kostur er í þessu tilliti varðandi starfsemi stjórnmálaflokkanna. Það er líka í anda þess sem hefur verið að gerast í stjórnsýslunni á undanförnum árum þar sem sífellt meiri krafa hefur verið gerð um opnari stjórnsýslu. Í því sambandi er nægilegt að benda á upplýsingalög. Leynd yfir fjármálum stjórnmálaflokka gengur þvert á þá þróun.

Auk frjálsra framlaga eru íslenskir stjórnmálaflokkar fjármagnaðir af ríkissjóði. Það er öðrum þræði gert til þess að jafna aðstöðu flokkanna. Það samræmist ekki hugmyndum manna um lýðræði ef aðeins fjárhagslega sterk samtök geta boðið fram til Alþingis. Það að íslenskir stjórnmálaflokkar fá opinbera styrki kallar ekki síst á að fjármál stjórnmálaflokkanna séu opin og sýnileg, en stjórnmálaflokkarnir fá um 200 millj. á ári til styrktar starfsemi sinni.

Samkvæmt upplýsingum stjórnmálafræðinga við Háskóla Íslands, sem komu fram fyrir nokkrum árum síðan, er upplýsingaskylda stjórnvalda um fjárreiður stjórnmálaflokka undantekningarlítið fyrir hendi í nágrannalöndum okkar. Innan stjórnmálafræðinnar er talið nauðsynlegt að stjórnmálaflokkar geri grein fyrir fjárreiðum sínum, hvort sem um er að ræða ráðstöfun fjármuna af opinberu fé eða framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum. Slík lagasetning, í anda þess sem frv. gerir ráð fyrir, er nauðsynleg til að eyða tortryggni og auka tiltrú almennings á stjórnmálaflokkum og lýðræðislegum stjórnarháttum.

Í þeim umræðum sem fram hafa farið á Alþingi á undanförnum árum hafa komið fram ýmsar ábendingar sem ég nefni í greinargerðinni. Ég tel að nefnd sú sem fær frv. til athugunar hér á hv. Alþingi kanni sérstaklega hvort setja eigi ákveðið hámark á leyfðum framlögum einstaklinga og fyrirtækja til stjórnmálasamtaka; hvort aðskilja eigi kosningastarf frá annarri starfsemi stjórnmálaflokka; hvort setja eigi reglur um prófkjör, þar með talinn fjárhagslegan ramma þeirra; hvort takmarka eigi umfang auglýsinga í kosningabaráttu; hvort setja eigi reglur um birtingu skoðanakannana rétt fyrir kjördag og hvort þingmenn eigi að leggja fram lista yfir öll störf og þátttöku í nefndum utan þings. Á þeim atriðum sem hér eru tilgreind er ekki tekið sérstaklega í þessu frv. en öll þau atriði sem ég hef nefnt er meira og minna að finna í lögum eða í undirbúningi að setja lög um í hinum ýmsu löndum, þ.e. lög um starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka.

Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir að vera viðstaddur þessa umræðu. Ég taldi það mikilvægt vegna þess sem ég sagði í upphafi máls míns. Nú liggur fyrir skýrsla nefndar sem um nokkurra ára skeið hefur unnið að því að kanna hvort rétt sé að setja reglur um fjármál stjórnmálaflokkanna. En það var einmitt á árinu 1993 sem forsrh. gaf yfirlýsingu úr þessum ræðustól um að skipuð yrði nefnd til að gera tillögur að reglum um fjárhagslegan stuðning við stjórnmálaflokka. Það var í tengslum við lagasetningu um að fjárframlög fyrirtækja til stjórnmálaflokka yrðu að ákveðnu marki frádráttarbær frá skatti. Eitthvað dróst að skipa þessa nefnd en hún hefur alla vega starfað frá árinu 1995, um fimm eða sex ára skeið. Í henni áttu fulltrúa allir stjórnmálaflokkar sem störfuðu árið 1995, nema Þjóðvaki átti ekki fulltrúa þar. Það var af þeirri ástæðu að eftir því var gengið á sínum tíma að forsrh. skilgreindi betur heldur en fyrir lá í verklýsingu nefndarinnar markmiðið með starfi nefndarinnar. Einnig var þess óskað að nefndinni yrðu sett ákveðin tímamörk. Það náðist ekki fram og því átti Þjóðvaki ekki fulltrúa í þessari nefnd en kaus að leggja fram á árinu 1995 sínar hugmyndir um hvernig ætti að standa að því að upplýsa um fjármál stjórnmálaflokkanna.

Áður en ég fjalla um þessa skýrslu vil ég nefna að frá því við ræddum þetta síðast hefur ýmislegt verið að gerast í þessum málum í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það þarf ekki að rifja upp það sem gerst hefur í Þýskalandi, þar sem allt hefur leikið á reiðiskjálfi vegna fjármálahneykslis og spillingar í kringum fjármál Kristilega demókrataflokksins, sem er sennilega það sóðalegasta og siðspilltasta í sögu þýskra stjórnmála. Ég held að þar sem lög um fjármál stjórnmálaflokka vantar eða þau óljós muni þessi pólitíska siðspilling í Þýskalandi auka á þrýstinginn og herða á að löggjöf og aðhald með fjármálum stjórnmálaflokkanna verði sett. Ég held t.d. að það hafi gerst í Bretlandi á undanförnum mánuðum. Þar er einmitt í undirbúningi að setja fram reglur og lög um fjármál stjórnmálaflokkanna sem um margt svipar til þess sem fram kemur í þessu frv. sem við ræðum hér um í að hafa fjármálin opin og sýnileg.

Ég vil aðeins ræða þær tillögur örstutt. Í grein sem stjórnmálaritstjóri Financial Times skrifaði kom fram að sérstök nefnd hefur verið að störfum um nokkurt skeið í Bretlandi og hún hefur lagt fram 100 tillögur sem snerta ýmislegt sem menn telja að betur megi fara í starfsemi og fjárreiðum stjórnmálaflokkanna til þess að opna betur fjármál þeirra og fyrirbyggja tortryggni í þeirra garð. Stjórnmálaritstjórinn heldur því fram að stór hluti almennings telji að aðilar sem lagt hafa fram háar fjárhæðir til stjórnmálaflokkanna hafi haft áhrif á stefnu þeirra og þögnin í kringum stuðningsaðila stjórnmálaflokka hafi alið á því í stjórnmálum. Það sem allir flokkar virðast vera sammála um í þessum tillögum, sem er mjög athyglisvert, er að banna öll framlög frá útlöndum, sem vissulega er gert ráð fyrir hér. Eins er samstaða um að þegar um er að ræða fjárhæðir sem fara yfir 5.000 pund, þ.e. yfir 500 þús. íslenskar kr., þá beri að upplýsa um nafn gefandans. Einnig er talað um að ef fyrirtæki leggja fram peninga til pólitískra flokka þá verði að leita eftir samþykki hluthafa. Mér finnst mjög athyglisvert að William Hague, formaður Íhaldsflokksins, lítur jákvæðum augum á þessar breytingar sem lagðar hafa verið til samkvæmt því sem fram kemur í þessari grein. Ein af tillögunum er að einstaklingar fái skattafslátt ef framlagið er yfir 50 þús. kr. á ári eða þar um bil.

Ég held að þessar tillögur séu nokkuð athyglisverðar. Það hefur að vísu ekki komist almennt til framkvæmda enn þá en í þessum tillögum er sett ákveðið þak eða takmarkanir á hvað flokkarnir megi nýta af fjármagni í kosningabaráttu og í auglýsingar. Íhaldsmenn notuðu t.d. um 14,3 millj. punda eða 1,5 millj. ísl. kr. í síðustu kosningabaráttu, bara í auglýsingar og auglýsingaskilti. Ein af hugmyndum nefndarinnar er að sett verði 20 millj. punda þak á það sem nota má í heild í kosningabaráttu og ýmsar takmarkanir að því er varðar framlög.

Í The Guardian í október 1998 kemur fram í tengslum við þessar tillögur að í síðustu kosningabaráttu fór Íhaldsflokkurinn um 8,3 millj. punda yfir þetta 20 millj. þak. Samkvæmt því notuðu þeir í kosningabaráttunni um 28 millj. punda. Verkamannaflokkurinn fór líka yfir þakið sem nam um 6 millj. punda en stefnt er að því að setja ákveðið þak á hvað eyða megi í kosningabaráttuna.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta þó ýmislegt fróðlegt hafi komið fram að því er varðar viðbrögð við þessum tillögum og hvað þær fela í sér. Ég held að þetta sýni að ýmislegt er í gangi í löndunum í kringum okkur og stefnt að því að setja ákveðinn ramma um fjármál stjórnmálaflokkanna.

[16:00]

Vil ég næst víkja að því sem fram kemur í þeirri skýrslu sem nú liggur fyrir af hálfu nefndar forsrh., en undir hana hafa ritað Hreinn Loftsson sem var formaður nefndarinnar, Arthur Morthens, Helgi S. Guðmundsson, Kjartan Gunnarsson, Kristín Sigurðardóttir og Ingvar Sverrisson. Þetta eru fulltrúar Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Kvennalista, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þessi skýrsla var lögð fram 18. desember 1998.

Herra forseti. Mér finnst að niðurstaða þessarar skýrslu sé nákvæmlega sú að gera ekki neitt í þessu máli. Við vitum að 200 millj. renna til stjórnmálaflokkanna á fjárlögum. Hluti fjárins er lögbundinn. Til eru lög um sérfræðiaðstoð til þingflokkanna. Ég man ekki hve gömul þau lög eru. Mig minnir þó að þau séu frá 1963. En stærsti hluti framlagsins eða um 130 milljónir kemur á fjárlögum og hefur raunverulega hvergi lagastoð nema í fjárlögunum sjálfum.

Ef ég les hér orðrétt niðurstöðu nefndarinnar þá hljóðar hún svo, með leyfi forseta:

,,Nefndin hefur ekki lokið starfi sínu með því að semja tillögu að lagafrumvarpi [lög] í svipuðum anda og felst í frumvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri þingmanna, sem lagt hefur verið fram á undanförnum þingum. Á hinn bóginn hefur náðst samstaða innan nefndarinnar um ákvæði, sem bæta mætti inn í fjárlög og greinargerð þeirra varðandi ríkisstyrki til stjórnmálaflokka. Felur sú tillaga í sér viðurkenningu á því, að ríkið styðji almenna stjórnmálastarfsemi flokkanna og að ekki sé ástæða til að takmarka þann stuðning við útgáfu- og kynningarmál líkt og nú er gert.``

Herra forseti. Síðan er að því vikið að líklegt megi telja að fjárstuðningur við stjórnmálaflokka muni haldast og jafnvel aukast hér á landi á næstu árum. Síðan segir að þótt hluti nefndarmanna telji vel koma til greina að sett verði sérstök lög um starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka eru nefndarmenn sammála um að ríkisvaldið verði að fara afar varlega við setningu lagafyrirmæla á þessu sviði.

Þá kemur fram að ef nafnleynd styrktaraðila yrði aflétt mundi draga mjög úr frjálsum fjárframlögum til flokkanna sem aftur geri þá enn háðari ríkisframlögum en ella og hætta skapist á því að þeir festist í fjárhagslegum viðjum hins opinbera.

Herra forseti. Þetta kemur fram í þessari skýrslu. Mér finnst þessi rök mjög sérstök og get alls ekki fallist á að þau séu rétt vegna þess að ég held að það hljóti að ríkja meira jafnræði milli flokka í fjárframlögum ef um er að ræða ríkisframlög og ég sé ekki að það þurfi að koma í veg fyrir að styrktaraðilar almennt á almennum markaði veiti slíka styrki ef birta þyrfti nöfn þeirra opinberlega. Ég held að það mundi frekar stuðla að því að meira jafnræði ríkti milli flokkanna í fjárframlögum frá einstökum aðilum ef slíkt væri opinbert.

En mér fannst raunverulega furðulegast við þessa niðurstöðu nefndarinnar rökin sem hún teflir fram fyrir því af hverju ekki eigi að hafa fjármál stjórnmálaflokkanna opinber og sýnileg eða setja lög um starfsemi þeirra og fjárreiður. Um það segir, með leyfi forseta:

,,Telja verður, að hið nýja félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar hafi inni að halda frekari löghelgun- og vernd fyrir stofnun og starfsemi stjórnmálaflokka en áður var og fortakslausa vernd innri málefna þeirra, sem ekki verður hróflað við af Alþingi.``

Herra forseti. Mér finnst það afar sérstakt ef stjórnmálaflokkarnir eru að bera fyrir sig það ákvæði sem sett var í stjórnarskrána 1995 um félagafrelsi, þ.e. að það setji þá í það skjól að það þurfi ekki, eða sé raunverulega ekki hægt að setja lög um fjárreiður eða starfsemi þeirra. Mér finnst þau rök, herra forseti, aldeilis fráleit að þetta nýja félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar frá 1995 innihaldi einhverja löghelgun og vernd fyrir starfsemi þeirra og þess vegna sé ekki hægt að setja lög um fjárreiður þeirra. Með nákvæmlega sama hætti mætti halda því fram að félagafrelsisákvæðið í stjórnarskránni tryggði að löggjafinn mætti ekki vera með neina íhlutun í starfsemi verkalýðshreyfingarinnar en þess er þó skemmst að minnast hvernig núverandi stjórnvöld knúðu fram breytingar á vinnulöggjöfinni þar sem skipað var fyrir um innri málefni hreyfingarinnar með lögum. Það var gert í gífurlegri andstöðu við verkalýðshreyfinguna og þar var auðvitað verið að hlutast til um innri málefni hennar. Þess vegna finnst mér þau rök sem hér eru sett fram um þetta atriði ákaflega haldlaus, ef það er það helsta sem teflt er fram núna gegn því að setja lög um fjárhagslegan stuðning og fjármál stjórnmálaflokkanna.

Ég hef nefnt hér hvað er á döfinni í Bretlandi. Ef við lítum til Norðurlanda þá hafa verið sett lög t.d. í Noregi um fjárframlög þannig að nöfn styrktaraðila eða gefenda fjárframlaga sem eru hærri en 20 þús. norskra kr. eða 200 þús. íslenskra kr. á að birta opinberlega. Og í þessari skýrslu segir um Danmörku, með leyfi forseta:

,,Styrkir til danskra stjórnmálaflokka vegna starfsemi á landsvísu, þ.e. styrkir sem landssamtök stjórnmálaflokkanna njóta, námu hátt í 60 millj. danskra kr. 1997 og svöruðu til þess að fyrir hvert atkvæði fengju þeir um 20 danskar kr.``

Í Finnlandi hafa verið sett lög um opinberan stuðning við stjórnmálaflokka. Það var gert árið 1967 en almenn lög um stjórnmálaflokka árið 1969.

Samkvæmt þessum dönsku lögum ber flokkunum skylda til að nafngreina þá sem veita þeim styrki yfir tiltekin fjárhæðarmörk og þar var ákveðin viðmiðun, 20 þús. danskar kr. sem er sama upphæð og í Noregi. Það þarf því bæði í Danmörku og Noregi að nafngreina þá sem gefa yfir 20 þús. danskar kr. Og vegna þess að ég nefndi styrki sem danskir stjórnmálaflokkar fá frá hinu opinbera og svöruðu til þess að hvert atkvæði fengi um 20 danskar kr. þá er opinber styrkur eða stuðningur hér á hvern kjósanda, ef það yrði skoðað, um 200 ísl. kr.

Herra forseti. Þessi skýrsla gengur því mikið út á það að gera grein fyrir hvernig staða þessara mála sé á hinum Norðurlöndunum. Hún gengur mikið út á það að gera grein fyrir frv. og þáltill. sem hafa verið lögð fram um þetta efni á umliðnum áratugum á Alþingi, en það var bæði þáltill. frá Kvennalista og einnig kom fram frv. fyrir nokkrum áratugum frá Benedikt Gröndal sem hann lagði fram um þetta efni á sínum tíma.

Ef ég vík aftur að niðurstöðum nefndarinnar þá er hún raunverulega sú að ekkert eigi að gera. Það er fyrst og fremst lagt til að í texta fjárlaga ár hvert verði bætt undir lið fjmrn. ýmislegt, svohljóðandi texta, með leyfi forseta, og nú vitna ég til umræddrar skýrslu:

,,Styrkur til stjórnmálaflokka, samkvæmt umsögnum, í hlutfalli við atkvæðamagn þeirra enda hafi þeir hlotið a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum.``

Og síðan segir:

,,Hér er sú breyting gerð að fjárhagsstuðningur ríkisins verði ekki bundinn við útgáfumál enda er sú takmörkun úrelt orðin og er eðlilegast að stjórnmálaflokkar sjálfir ráðstafi þessum fjármunum eftir þörfum hverju sinni í þágu starfsemi sinnar.``

Eftir fimm eða sex ára starf þessarar nefndar er fyrst og fremst að finna í skýrslu hennar ákveðnar tillögur um að setja sérstakan texta inn í fjárlagafrv. hverju sinni um hvernig styrkjum til stjórnmálaflokkanna skuli háttað.

Nú get ég alveg út af fyrir sig skilið að ákveðin andstaða getur verið við þann hluta þessa frv. sem hér er til umræðu, þ.e. I. kafla frv. sem fjallar um starfsemi stjórnmálaflokkanna. En ég get ekki fundið rök fyrir því að andstaða skuli vera við II. kafla frv. sem fjallar um það að stjórnmálaflokkarnir birti ársreikninga sína opinberlega, sem fjallar um að það eigi að birta opinberlega ef framlag til einstakra stjórnmálaflokka fer yfir tiltekna fjárhæð. Það er mjög algengt að gert sé í þeim löndum sem við höfum verið að bera okkur saman við þó að það sé alls ekki í þeim öllum.

Í stefnuskrá Samfylkingarinnar, svo ég vitni til hennar, er ákvæði um að setja eigi lög um starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka, enda kemur fram í þessari skýrslu að hluti nefndarmanna telji vel koma til greina að sett verði sérstök lög um starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka. Ég lít því svo á varðandi það álit sem hér liggur fyrir, þessa skýrslu sem hæstv. forsrh. hefur fengið, að um lágmarkssamnefnara sé að ræða sem þessir flokkar geta orðið sammála um að því er fram kemur í þessari skýrslu, en að einstakir aðilar sem sæti áttu í þessari nefnd eða eftir atvikum þá einstaka flokkar hafi viljað ganga lengra í þessum efnum.

Það sem er raunverulega nýtt í þessari skýrslu og ég geri alls ekki athugasemdir við, er að þar leggur nefndin til með vísan til almennrar jafnræðisreglu að sett verði í viðkomandi lög ákvæði er tryggi frambjóðendum til embættis forseta Íslands sambærilegan stuðning þeim sem stjórnmálaflokkar njóta nú að lögum. Það sem er fyrst og fremst lagt hér til er stuðningur hins opinbera við forsetaframbjóðendur. Annað er ekkert nýtt í þessari skýrslu. Ég get ekki séð það og ítreka að ég tel rökstuðninginn með vísan í stjórnarskrána og félagafrelsið fráleitan í þessu sambandi.

Herra forseti. Ég vil í lokin, þar sem ég er rétt að ljúka máli mínu, fagna því að hæstv. forsrh. er viðstaddur þessa umræðu og vænti þess að hann geri þinginu grein fyrir sínum sjónarmiðum til þessa máls nú þegar skýrslan liggur fyrir. Hæstv. forsrh. hefur fyrir tveim eða þremur þingum gert þinginu almennt grein fyrir sínum sjónarmiðum varðandi ýmsa þætti sem lúta að lagasetningu um starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokkanna þannig að nú væri fróðlegt að vita hvort hæstv. forsrh. sé sammála þeirri niðurstöðu nefndarinnar sem nú liggur fyrir og hvort þar með sé málið afgreitt af hans hendi og við eigum þá ekki von á því að hér komi fram lagafrv. um fjármál stjórnmálaflokkanna nema að svo miklu leyti sem um er getið í þessari skýrslu, þ.e. ákvæði í fjárlögum ár hvert um almennan fjárstuðning við stjórnmálaflokkana og hins vegar frv. sem lýtur að fjárstuðningi við forsetaframbjóðendur. Ég held að það væri mjög gott að fá það inn í þessa umræðu vegna þess að í nefndarstarfi varðandi þetta tiltekna frv. hefur ávallt verið vísað til starfa nefndar forsrh. Nú er þinginu því ekkert að vanbúnaði að taka afstöðu til þess frv. sem hér liggur fyrir, hvort þingmenn séu þá sáttir við þá tillögu sem nefndin hefur gert til forsrh.

Í lokin vil ég spyrja um það sem fram kom í Ríkisútvarpinu í síðari hluta janúarmánaðar þar sem vitnað var til fulltrúa Kvennalistans í nefndinni og hún sagði að nefnd Davíðs Oddssonar forsrh. um fjárreiður stjórnmálaflokka hafi verið stillt upp við vegg og einróma afstaða knúin fram með hótunum, eins og þessi fulltrúi Kvennalistans sagði um starf þessarar nefndar og niðurstöðu hennar. Ég held að það sé afar brýnt að fá fram hvort eitthvað sé til í því sem fram kom hjá fulltrúa Kvennalistans í þessu efni. Það er auðvitað afar alvarlegt ef satt er að niðurstaðan hafi verið knúin fram með hótunum.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.