Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:02:57 (4925)

2000-03-06 17:02:57# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. telur að kosningabarátta þeirra hafi verið hógvær eins og Frjálslynda flokksins. Við veltum því yfir okkur ýmsir hvort Frjálslyndi flokkurinn sé í rauninni að reyna að ná inn fyrir kosningaskuldunum með því að láta einn af forvígismönnum þeirra innheimta sérstakt gjald frá Íslenskri erfðagreiningu í gegnum kennitölur. Maður veltir því fyrir sér hvort Frjálslyndi flokkurinn sé kominn í þá úlfakreppu að þeir neyðist til þess að fara út í slíka aðferð til að afla sér fjár. Við erum þar að tala um einn af forustumönnum flokksins og vegna þess að hér var rætt um hógværð er nauðsynlegt að draga þetta fram.

Ég held að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sé í rauninni í þeirri stöðu í fjáröflun sinni, eins og kom skýrt fram hjá hæstv. forsrh., að vegna þess að það kemur ekki mikið af frjálsum framlögum inn í þessa flokka geti einungis 500 þús. kr. verið stórt hlutfall af heildinni. Með þeim hætti geta slík framlög haft áhrif á stjórnun flokkanna.

Ég held að þegar upp er staðið hafi það komið mjög mörgum á óvart þegar það upplýstist að Íslensk erfðagreining hafi látið í kosningasjóði allra flokka nema Sjálfstfl. Þar af leiðandi duttu niður öll rök sem verið hafa uppi á borðinu hjá andstæðingum Sjálfstfl., að þar hafi flóð út úr af peningum frá hinum og þessum fyrirtækjum og þá sérstaklega Íslenskri erfðagreiningu. Mörgum þótti skrýtið hve lítið var um það rætt að Sjálfstfl. væri eini flokkurinn sem ekki fékk neitt út úr þessu.