Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:29:37 (4935)

2000-03-06 17:29:37# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:29]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér kemur mjög á óvart það sem ég heyri úr forsetastól, að hæstv. forseti ætli ekki að verða við ósk minni um að fresta þessari umræðu. Ég vil minna á það, herra forseti, og hef sett það fram í máli mínu að ég hef tví- eða þrívegis farið fram á það að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur umræðuna. Hæstv. forsrh. gat það ekki í þessi skipti áður og ég varð auðvitað við því að við mundum taka okkur þann tíma sem við þyrftum þegar hæstv. forsrh. gæti verið viðstaddur umræðuna. Nú er komið að því að þessi umræða er tekin á dagskrá og forsrh. sat hana vissulega fyrsta klukkutímann eða einn og hálfan en, herra forseti, ef forseti hefur hlýtt á ræðu forsrh. var alveg ljóst að ég þyrfti að svara ýmsu því sem fram kom hjá hæstv. forsrh. sem ekki gafst tilefni til í stuttu andsvari og það er mjög algilt þegar svo stendur á að óskað er eftir því að umræðu ljúki ekki.

Hæstv. forseti talar um að þetta sé einungis fyrsta umræðan af mörgum. Ég spái því að þetta mál muni ekki koma á dagskrá aftur á þessum vetri. Þetta er í sjötta skipti sem ég flyt þetta frv. og það hefur alltaf sofnað í nefnd með þeim rökum að nefnd væri að störfum sem mundi skila niðurstöðu um fjármál stjórnmálaflokkanna. Nú hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir að hann sé sammála niðurstöðu þessarar nefndar. Ég á því ekki von á, a.m.k. meðan Sjálfstfl. fer með völd, að þetta frv. komi á dagskrá aftur. Ég fer því þess eindregið á leit við forsrh., og mér finnst það eðlileg og sanngjörn ósk, að þessari umræðu ljúki ekki fyrr en hæstv. forsrh. hefur tækifæri til að taka þátt í henni. Svo alvarlegar dylgjur voru hér settar fram að hæstv. forsrh. verður að geta svarað því sem fram kom í máli mínu. Ég er að biðja herra forseta um að hæstv. forsrh. verði gefið svigrúm til að svara því sem fram kom í ræðu minni.

Það var ýmislegt sem ég beindi til hæstv. forsrh. Ég var með áskoranir á forsrh. um að birta ársreikninga Sjálfstfl. opinberlega. Ég talaði um hvaða orð hann viðhafði gagnvart Öryrkjabandalaginu og hann yrði að sanna mál sitt í ræðustól og þessari umræðu getur ekki lokið nema það sé gert. Þess vegna ítreka ég, herra forseti, að þessari umræðu ljúki ekki fyrr en hæstv. forsrh. getur verið viðstaddur hana.