Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:37:31 (4938)

2000-03-06 17:37:31# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:37]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég harma þann hanaslag sem hér hefur verið þar sem í raun hefur kannski ekki verið fjallað um efnið. Það sem varðar fjárreiður stjórnmálaflokkanna hlýtur að snúast um það hvernig við ætlum að styrkja lýðræðið í landinu og þess vegna er tillaga og málflutningur hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur ákaflega eðlilegur og hefur margt gott í sér.

Ég vil að það komi fram hér að fyrir níu árum tók ég þátt í grasrótarsamtökum sem buðu fram hér á landi. Okkur vantaði örlítið á til þess að ná manni kjörnum. Þá voru reglurnar þannig að við nutum engra opinberra styrkja og þá varð ég svo sannarlega var við það hvernig það er að þurfa að afla fjár til stjórnmálastarfsemi.

Við skulum átta okkur á því og ekkert að vera að fara í grafgötur með það að þau öfl sem ekki hafa massífan bakstuðning í efnahagslífinu eiga mjög erfitt uppdráttar. Þetta er miklu auðveldara fyrir þau öfl sem eiga massífan stuðning og aðgang inn í stofnanir efnahagslífsins. Það gefur augaleið. Af því hef ég langa reynslu.

Þeir sem vinna út frá grasrótarhreyfingu hafa í raun engar aðrar leiðir en að senda bónarbréf til fyrirtækja, stofnana og einstaklinga og sjá svo til hverjir eru tilbúnir að styðja. Ég fullyrði að sú leið er farin í fjáröflun Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Þar er beiðni um stuðning send til allra, einstaklinga, fyrirtækja og stofnana og við höfum þegið stuðning eftir þeim reglum sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur sett fram og greint frá hér með hámark þannig að við gætum staðið fyrir okkar starfsemi.

Stóru flokkarnir hafa sérstöðu, tengsl við atvinnulífið og stofnanir. Það er barnaskapur að loka augunum fyrir þeirri sérstöðu. Allt önnur lögmál gilda fyrir þessa flokka en fyrir minni öfl, skulum við segja, eða nýrri öfl í samfélaginu. Það er mergurinn málsins og þess vegna erum við að tala um meginreglur sem styrkja lýðræðið, sem hleypa öðrum að, gefa öðrum möguleika til þess að byrja. Þetta er ekkert ósvipað og á við í atvinnulífinu fyrir þá sem eru svo heillaðir af möguleikum einstaklingsins o.s.frv. Þetta finnst mér mergurinn málsins og það er þetta sem mér finnst að við eigum að tala um.

Við eigum líka að tala um annað í þessu sambandi, þ.e. að upphefja umræðuna um siðareglur. Ég vil aftur vitna til reynslu minnar frá því fyrir níu árum síðan. Ef menn vildu vera með þá þurftu þeir að fylgja því eftir, hvort sem þeir höfðu efni á því eða ekki. Væru menn komnir í slaginn þá voru vissir útgjaldapóstar algerlega nauðsynlegir ef menn vildu vera með í framboðinu, en engin framlög. Þetta er hinn blákaldi veruleiki í hinu pólitíska umhverfi á Íslandi. Þessar efnahagslegu girðingar eru stórhættulegar lýðræðinu og það að ræða ekki um siðareglur og hvernig við eigum að fara að er líka hættulegt. Þeir sem hafa aðgang að ótakmörkuðu fé geta leitt yfirbragð kosningabaráttu, t.d. með því að færa hana yfir í stífa auglýsingamennsku í fjölmiðlum sem kostar milljónir og milljónatugi og þá gefur það augaleið að þeir sem ekki hafa aðgang að þessum fjármunum verða undir. Þetta þekkjum við. Þess vegna er nauðsynlegt, og raunar held ég að allir stjórnmálaflokkarnir hafi verið sammála um það, að ræða saman og hafa einhvers konar heiðursmannasamkomulag um það hvernig eigi að heyja kosningabaráttu þannig að hún sé ekki háð fyrir tugi milljóna króna þegar við vitum að það er vonlaust mál fyrir þá sem ætla að koma að nýir í stjórnmálastarfsemi. Þetta vitum við.

Enn og aftur þetta. Við vitum, og það gildir ekki bara um Ísland, að það gilda allt önnur lögmál um fjáröflun þeirra sem hafa ítök í atvinnulífinu og stofnunum úti í samfélaginu. Fyrir þá er staðan allt önnur. Framsfl. hefur haft styrka stöðu í gegnum sín áhrif og það er ekkert launungarmál, í samvinnuhreyfingunni, í kaupfélögunum og fyrirtækjum og stofnunum þar tengdum. Sjálfstfl. hefur ítök á hinum vængnum. Þetta gefur augaleið. Þarna er um að ræða styrktaraðila og þó svo að þessir aðilar styrki báðir að einhverju leyti þá sem vilja koma nýir að þá er það í allt öðrum dúr. Á þessum nótum finnst mér umræðan svo mikilvæg, þ.e. vegna reynslu minnar af því að stofna nýtt stjórnmálaafl, af því að fara í framboð og gera mér grein fyrir eftirleiknum af því dæmi. Hann var ekki fallegur. Fyrir mörg okkar sem stóðum í því fór það mjög illa með pyngjuna. Það er ekkert launungarmál. Það fór það illa með pyngju þess fólks sem vildi rísa upp úr grasrót að það var erfitt að fá menn í gang aftur. Það er staðreynd málsins. Þennan ramma þurfum við að ræða, leikreglur til styrkingar lýðræðinu og ekkert annað. Hanaslagur um það hver fékk frá einhverri kaffibrennslu 50 eða 100 þús. o.s.frv. og bókhaldslegar æfingar þar að lútandi hér úr ræðustól hins háa Alþingis hefur ekkert upp á sig. Það sem hefur upp á sig er að framkalla einhvers konar móral, heiðursmannasamkomulag gagnvart þeim leikreglum sem við viljum að séu meginlína til þess að heyja kosningabaráttu í þessu landi og stjórna.