Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:46:43 (4940)

2000-03-06 17:46:43# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:46]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hlýt að vekja athygli á því að afar sjaldgæft er að þannig sé haldið á málum af forseta þingsins að neitað sé um frestun á umræðu þegar færð eru fyrir henni rök, eins og ég hef gert í þessu máli. Ég þarf ekki að endurtaka þau.

Mér finnst þingið setja niður ef þetta verða lyktir málsins. Við höfum oft rætt hlutverk löggjafarþings og framkvæmdarvalds, hvernig framkvæmdarvaldið og hrammur þess er raunverulega að yfirtaka þingið á löggjafarsviðinu. Mér finnst það mjög slæmt að ekki skuli brugðist við þegar farið er fram á þetta við hæstv. forseta af mjög eðlilegum ástæðum. Hæstv. forsrh. var með mjög miklar dylgjur hér, órökstuddar fullyrðingar og ýmislegt sem ég þurfti að leiðrétta í máli hans. Hann sýnir ekki einu sinni þá virðingu að vera viðstaddur umræðuna og hlýða á mál mitt heldur fer hann út úr þinghúsinu. Ég tel að þingið setji niður við að vera boðið upp á þetta af hálfu framkvæmdarvaldsins, af hálfu oddvita þessarar ríkisstjórnar. Mér finnst mjög slæmt ef það er gert með atbeina forseta, sem eðli málsins samkvæmt á að vera forseti allra þingmanna og virða eðlilegar óskir þeirra, bæði þeirra sem eru í stjórn og þeirra sem eru í stjórnarandstöðu.

Herra forseti. Rökin sem sett eru fram, um að þetta sé 1. umr. málsins, eru ekki boðleg miðað við kröfur mínar. Þetta er í sjötta skiptið sem ég mæli fyrir þessu þingmáli án þess að það hafi komið aftur í þingsalinn. Ég tel mjög litlar ef nokkrar líkur til að frv. komi aftur á þessu þingi inn í þingsal miðað við orð hæstv. forsrh. sem segir að málinu sé nánast lokið með þessari skýrslu og við fáum ekkert þingmál frá hæstv. ríkisstjórn varðandi þetta mál inn í þingið. Það er ekki hægt að ljúka þessu svona.

Ég óska eftir því, herra forseti, að haldinn verði fundur með forsetum þingsins --- þeir eru jú fleiri heldur en sá sem situr í forsetastól núna --- til að ræða þessa ósk. Mér finnst þetta eðlileg ósk sem hér hefur komið fram. Ég væri tilbúin til að fara yfir söguna aftur í tímann, um hvernig farið er að óskum þingmanna um frestun á umræðu þegar sett eru fram eðlileg rök fyrir því. Þessu máli getur ekki lokið svona.

Herra forseti. Ég bið þig eindregið um að virða þá ósk sem hér er sett fram um að fresta þessari umræðu. Ég er ekki að gera kröfu til þess að hæstv. forsrh. komi síðar á þessum degi eða kvöldi til umræðna heldur þegar honum hentar. Er þetta til of mikils mælst, herra forseti?

(Forseti (GuðjG): Forseti vill þakka þessa stuttu kennslustund í fundarstjórn og minnir á að því fyrr sem málið fer til nefndar eru kannski meiri líkur á að það komi þaðan aftur.)