Skipan nefndar um sveigjanleg starfslok

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 18:20:37 (4949)

2000-03-06 18:20:37# 125. lþ. 72.5 fundur 312. mál: #A skipan nefndar um sveigjanleg starfslok# þál. 16/125, Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[18:20]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég flyt þáltill. á þskj. 562 um skipan nefndar til að móta tillögur um sveigjanleg starfslok. Meðflutningsmenn mínir að þáltill. eru Guðjón Guðmundsson, Vilhjálmur Egilsson, Árni R. Árnason, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Gunnar Birgisson, Drífa Hjartardóttir, Ásta Möller, Katrín Fjeldsted og Arnbjörg Sveinsdóttir. Þáltill. hjóðar svo:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að móta tillögur um sveigjanleg starfslok.``

Greinargerðin er stutt og hljóðar svo:

,,Ályktun sama efnis var samþykkt á Alþingi 13. apríl 1989. Þáverandi forsætisráðherra skipaði nefnd 22. apríl 1989 til framgangs málinu. Hún kom saman til fundar 13. júní 1991 og lagði á ráðin um gagnaöflun fyrir nefndarstarfið. Nokkrum gögnum var safnað en fundir nefndarinnar urðu ekki fleiri og engu áliti var skilað.

Flutningsmenn telja mikilvægi málsins ekki síðra nú en þá.``

Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. segir m.a. svo, með leyfi forseta:

,,Að auka fjölbreytni atvinnulífs og útflutningsgreina, ekki síst með eflingu þeirra vaxtarsprota sem byggjast á menntun og þekkingu, svo sem í tónlistar- og kvikmyndagerð og ýmiss konar sérhæfðri þjónustu. Vaxandi alþjóðasamkeppni kallar á aukna markaðsvæðingu á fjármagnsmarkaði. Því verði leitað allra leiða til aukinnar hagræðingar og til að lækka fjármagnskostnað fyrir atvinnulíf og fjölskyldur. Bætt samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs byggist ekki síst á aukinni framleiðni sem m.a. skapar aðstæður fyrir sveigjanleg starfslok og styttri vinnutíma fólks án þess að skerða heildarlaun.``

Virðulegi forseti. Þessi þáltill. er alveg í anda stefnu ríkisstjórnarinnar og er flutt í annað sinn af flestum þeim sem hér voru tilteknir sem meðflutningsmenn mínir. En þegar horft er yfir þær ályktanir og það sem gerst hefur í málinu frá því að nefndin var skipuð kemur í ljós að umhverfið hefur breyst verulega og sífellt fleiri aðilar láta að sér kveða í þessum málum og telja eðlilegt að frekar verði unnið í málinu og þessum ályktunum hrint í framkvæmd, þ.e. sveigjanlegum starfslokum. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna aðeins til þess sem segir í þeirri þáltill. sem ég gat um og var flutt áður og samþykkt á þingi en ekkert var unnið í. Þar segir m.a. svo í greinargerð:

,,... eftirlaunaaldur ætti að vera mun sveigjanlegri en nú er þannig að fólk geti sjálft valið um hvort það hætti störfum t.d. á aldursbilinu 64--74 ára. Það á hvorki að vera lögþvingun né einhliða réttur atvinnurekanda að þvinga fólk til að hætta störfum þegar ákveðnu aldursmarki er náð. Allar rannsóknir benda til þess að ófrávíkjanleg starfslok fólks við ákveðin aldursmörk valdi ótímabærri hrörnun.`` Svo segir hér líka:

,,Smátt og smátt er einkareksturinn að taka upp þær reglur hins opinbera að svipta fólk fastráðningu eigi síðar en þegar 70 ára aldursmarkinu er náð.``

Þau lög, sem í gildi eru um sviptingu fastráðningar starfsmanns ríkis eða bæjar, eru frá árinu 1935.

Flutningsmenn leggja áherslu á eftirtalin atriði:

1. Það eru mannréttindi að halda óskertum starfsréttindum og eiga það ekki undir náð atvinnurekenda hvort viðkomandi heldur vinnu sinni.

2. Fólk á að halda áunnum eftirlaunaréttindum en starfslok þurfa að vera mun sveigjanlegri svo að fólk geti hætt störfum að eigin vali, t.d. á aldursbilinu 64--74 ára.

3. Gefa þarf fólki rétt á að sinna hlutastarfi í ,,fastri vinnu`` þegar aldur færist yfir.

4. Heilsufar fólks 64--74 ára er betra en áður var, enda starfar nú helmingur fólks 67--74 ára fullan starfsdag en oft í íhlaupavinnu.

5. Meðferð öldrunar er ekki alger hvíld heldur andleg og líkamleg örvun og þar af leiðandi eru lög um vinnulok við 67 eða 70 ára aldur ekki læknisfræðilega réttlætanleg.

Í lögum nr. 70 frá 11. júní 1996 segir: ,,Starfsmanni skal þó jafnan segja upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri.``

Þetta er í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar skal ,,þó jafnan segja upp störfum`` og þetta er eins og ég kom hér inn á áðan orðin regla en ekki undantekning.

Margir aðilar hafa látið frá sér heyra varðandi þetta mál og vitna þá til þess sem segir í stefnumótun Sameinuðu þjóðanna um málefni aldraðra en þar er því beint til aðildarríkja að stefnt skuli að því að aldraðir fái sjálfir að ákveða hversu hratt og hvenær þeir hætti á vinnumarkaðinum. Í þeim anda hefur ríkisstjórnin gert þessa samþykkt eins og ég sagði áðan.

Á landsfundi Sjálfstfl. var einnig samþykkt ályktun um þetta sama efni. Í ályktuninni segir m.a., með leyfi forseta: ,,Sveigjanleg starfslok verði tryggð.``

Í ályktun frá stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík er hvatt er til þess að umræða verði vakin á sveigjanlegum starfslokum að nýju með það að markmiði að þau taki til aldurs frá 64--74 ára aldri. Í ályktun félagsins, sem var send stjórnsýslu og atvinnurekendum, segir að sveigjanleg starfslok eldri borgara hafi verið til umræðu frá því að landlæknisembættið tók málið upp fyrir 10 árum. Það hafi síðan verið tekið fyrir á Alþingi og allir þingflokkar samþykkt þáltill. um að ríkisstjórnin taki sveigjanleg starfslok á aldrinum 64--74 ára til athugunar. Í ályktuninni eru dregin fram eftirfarandi rök fyrir sveigjanlegum starfslokum:

,,Ævilíkur hafa aukist verulega. Samhljóða niðurstöður rannsókna á Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Englandi og Bandaríkjunum leiða í ljós að fólk á aldrinum 50--75 ára er líkamlega og andlega hressara en jafnaldrar þeirra voru fyrir 20--30 árum. Nýgengi og dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma og æðabilunar í heila hafa lækkað um 35--40%.

Orsakir þessa eru m.a. eftirfarandi: Bætt almenn lífskjör manna, hátt hlutfall fólks stundar nú reglulega líkamsrækt, reykingar hafa minnkað verulega og góður árangur hefur náðst varðandi forvarnir og lækningu krabbameins, hjarta-, æða- og lungnasjúkdóma.

Samkvæmt niðurstöðum danskra rannsókna er andlegt ástand eldra fólks betra en áður. Fólkið reiknar og leysir hugræn vandamál betur en áður.``

Í ályktuninni segir að hér á landi starfi fleiri við launuð störf á aldrinum 65 til 70 ára en í nágrannalöndum, en réttur fólks til starfa eftir 67 ára aldur sé mjög rýrður.

,,Starfslok við 67 ára aldur gegn vilja viðkomandi leiða oft til einangrunar, kvíða, ótímabundinnar hrörnunar og jafnvel ótímabærrar innlagnar á stofnun. Andleg og líkamleg virkni leiðir til betri lífsgæða.``

[18:30]

Í grein sem birtist laugardaginn 16. október á síðasta ári eftir Gissur Pétursson, forstjóra Vinnumálastofnunar, í framhaldi af ráðstefnu sem þá var háð segir m.a., með leyfi forseta, og er þessi grein allrar athygli verð:

,,Umræða um stöðu eldra fólks á vinnumarkaði hefur verið mjög áberandi í nágrannalöndunum enda hafa þau reynt að bregðast við atvinnuleysisvandanum þar með því að lækka stöðugt eftirlaunaaldurinn og rýma þannig til á vinnumarkaðinum fyrir yngra fólki. Í Finnlandi til að mynda geta einstaklingar byrjað á eftirlaunum við 55 ára aldur. Sama þróun hefur verið í Danmörku og Svíþjóð og öðrum Vestur-Evrópulöndum. Þróun mannfjölda og aldursdreifing hans sýnir hins vegar að samfélögin sem hér um ræðir geta ekki staðið undir svona löngum eftirlaunaaldri og ekki er sýnt að þetta sé haldgóð aðferð í baráttunni við atvinnuleysið. Í Danmörku verða eftir tíu ár 220 þúsund færri yngri og 140 þúsund fleiri eldri í samfélaginu en nú og þar er þessi þróun kölluð ,,tikkandi eftirlaunasprengjan``. Stjórnvöld í þessum löndum eru nú að reyna að snúa þessari þróun í eftirlaunamálum við og það geta verið afar þung spor. Dæmi frá Danmörku sýnir það en þar riðaði ríkisstjórnin til falls á síðasta ári, vegna þeirrar ákvörðunar að hækka eftirlaunaaldur úr 60 í 62 ár.

Góðu heilli hefur þessi þróun ekki verið jafnhröð hérlendis og enn er mikil þörf fyrir eldra fólk á vinnumarkaði þó svo að finna megi fyrir hinni vaxandi æskudýrkun hér á landi og oft heyrist af dapurri reynslu fólks sem komið er yfir miðjan aldur við að finna sér störf.

Það má öllum vera ljóst að þegar eftirspurn eftir vinnuafli er jafnmikil og hún hefur verið hér undanfarin þrjú ár er nauðsynlegt að halda fólki í vinnu svo lengi sem það getur og hefur áhuga. Fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um sveigjanleg starfslok eru afar jákvætt spor í þessa veru. Þar fyrir utan er mikilvægt að styrkja það viðhorf á vinnumarkaði t.d. meðal forvígismanna fyrirtækja og stofnana að hinir eldri búa yfir gífurlegri reynslu sem þarf að miðla til hinna yngri, þeir eru mjög trúir sínum vinnustað og gera vinnustaðina ,,ríkari`` með nærveru sinni þar.``

Herra forseti. Þegar þær breytingar eru grannt skoðaðar sem hafa átt sér stað á vinnumarkaðinum og skoðaðar hafa verið af hálfu Reykjavíkurborgar þar sem viðtöl hafa verið tekin á vegum vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins á árunum 1995 og 1999 við fólk á aldrinum 60--70 ára sem hafði verið atvinnulaust í eitt ár eða lengur, þá kemur m.a. fram að fólkið telur sig eiga mjög erfitt með að fá vinnu en nokkrar breytingar á aldurshlutföllum innan hópsins hafa þó átt sér stað á milli áranna. Árið 1995 voru flestir atvinnulausir á aldrinum 67--70 ára en 1999 voru þeir á aldrinum 60--67 ára, þannig að þessi aldur hafði færst nokkuð til.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín öllu fleiri en ég held ég geri orð fyrrum landlæknis, Ólafs Ólafssonar, að mínum orðum þar sem hann talar um eftirlaunaaldurinn þar sem hann segir:

,,Eftirlaunaaldur á að vera sveigjanlegur og byggjast á læknisfræðilegu og félagsfræðilegu mati á starfsgetu og hæfni hvers og eins. Vitaskuld á ekki að skerða rétt manna til eftirlauna er þeir hafa áunnið sér en það eru mannréttindi að halda óskertum starfsréttindum svo lengi sem hæfni og starfsorka leyfir. Æskilegt væri að eftirlaunaaldur verði mun sveigjanlegri en nú er, þ.e. að fólk geti valið um hvenær það hættir störfum á aldursbilinu 60--67 ára.``

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að að lokinni umræðu verði málinu vísað til hv. félmn.