Skipan nefndar um sveigjanleg starfslok

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 18:44:57 (4952)

2000-03-06 18:44:57# 125. lþ. 72.5 fundur 312. mál: #A skipan nefndar um sveigjanleg starfslok# þál. 16/125, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[18:44]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég vil einungis segja að það mál sem hér er til umræðu er hið prýðilegasta mál og flutt af mjög góðum vilja fyrir afkomu hinna öldruðu í samfélaginu. Ég er algerlega sammála hv. þm. Þorgerði K. Gunnardóttur sem benti á þá staðreynd að í hinum öldruðu Íslendingum felst óbeisluð auðlind. Þessi auðlind er mikilvægari nú en oft áður þegar við blasir að í því kerfi sem við búum við núna má segja að framleiðsluöflin hafi verið fullnýtt. Við þurfum fleira fólk til þess að geta nýtt þau tækifæri sem er að finna í íslensku atvinnulífi. Þar af leiðir að óhætt er að fullyrða að í hinum öldruðu Íslendingum, sem illu heilli sökum laga hafa þurft að ljúka starfsævi sinni fyrr en þeir e.t.v. ætluðu, er fólgin auðlind sem gæti orðið til þess að verðmætin sem sköpuð eru í íslensku samfélagi kynnu að aukast verulega.

[18:45]

Eins og málum er háttað í dag, herra forseti, má segja að starfsævi einstaklingsins sé stöðugum breytingum undirorpin. Það er af sem áður var að menn sinntu einu tilteknu starfi nánast alla starfsævina á enda. Menn skipta núna örar um störf en áður og þeir mennta sig líka örar en áður. Eins og hv. þm. sem talaði á undan sagði skipta möguleikar til endurmenntunar og símenntunar, sem verða stöðugt ríkulegri, verulega miklu máli. Það sem boðið er upp á í þessum efnum er ákaflega merkileg þróun og gerir það að verkum að einstaklingurinn verður miklu dýrmætari. Við fjárfestum miklu meira en áður í sérhverjum einstaklingi. Ef maður horfir á þetta einungis frá þeim sjónarhóli er alveg ljóst að þetta mundi að öllum líkindum borga sig ákaflega hratt.

Að því er varðar tillöguna. sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson er 1. flm. að er þetta ekki í fyrsta skipti sem hann hefur hreyft þessu máli. Hv. þm. hefur áður bryddað upp á sveigjanlegum starfslokum í fyrirspurnum til hæstv. forsrh. Það var einmitt þá sem komu í ljós sérkennileg örlög nefndarinnar sem hæstv. fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson setti á laggir 1989, að mig minnir. Sú nefnd, sem skipuð var valinkunnu sómafólki, kom einungis einu sinni saman og varð ekkert úr starfi hennar.

Ég lýsi því yfir að ég held að þetta sé hið besta mál. Starfslokin þurfa auðvitað að vera sveigjanleg í báðar áttir eins og kom fram í máli hv. talsmanns hópsins. Ekki er einungis um það að ræða að mönnum eigi að gefast kostur á því að seinka starfslokum, hætta vinnu miklu síðar en þeir gera í dag, heldur hlýtur það líka að koma til greina þó það komi ekki fram í greinargerðinni með tillögunni að fólki verði líka gert kleift að hætta fyrr en ella. Það getur komið sér ákaflega vel fyrir marga. Það eru ýmsir sem vildu gjarnan eyða ævikvöldi sínu þannig að hafa nægan tíma fyrir sig og sína nánustu. Ef þeir vilja það á að reyna að koma til móts við þá.

Að sama skapi eigum við líka að reyna að breyta öllu lagaverkinu sem njörvar í dag niður starfslokin við tiltekin aldur á þann veg að menn geta haldið áfram að vinna svo lengi sem einhver vill hafa þá í vinnu og svo lengi sem þeir telja sig færa um það. Allt er breytingum undirorpið. Starfsævi manna, heilbrigði manna, langlífi manna. Við sjáum fram á að meðalævin er stöðugt að lengjast og góðu heilli sjáum við einnig fram á að heilbrigði hinna öldruðu Íslendinga er allt annað en áður var. Menn halda nánast óskertri starfsorku miklu lengur en áður. Ég gæti rifjað upp mörg dæmi úr mínu nánasta umhverfi um það sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir rakti áðan að ef einstaklingur þarf að ljúka starfsævi fyrr en hann vill, þá hrynur margt sem betur hefði staðið óhaggað áður, þ.e. óhamingjan og ófullnægjan í lífinu, sem fylgir því, brýst einfaldlega út í því að heilbrigði manna hrakar. Frá þeim sjónarhóli hugsa ég líka að það mætti segja að þetta sparaði samfélaginu fjármuni.

Stundum er sagt að hláturinn lengi lífið og klárt er að gleðin lengir lífið og að geta hagað starfslokum sínum eftir vild eykur gleði og fullnægju manna í lífinu og lengir það. Þess vegna er þetta líka partur af lífsgæðum.

Á síðasta áratug hefur umræða og skilningur manna á mannréttindahugtakinu breyst verulega. Við erum núna farin að taka inn undir væng þess hugtaks ýmis gæði og réttindi sem menn töldu ekki áður fyrr að ættu heima þar. Þetta er dæmi um lífsgæði sem ég held að ættu að öllu réttu að flokkast undir mannréttindi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé brot á mannréttindum eins og ég skil þau í dag að neyða menn með lagaverki eða gera þeim ókleift að halda áfram störfum ef þeir halda heilsu og vinnumarkaðurinn vill taka við þeim. Þetta finnst mér að skipti verulega miklu máli, herra forseti.

Ég velti því síðan fyrir mér, herra forseti, að hér er um að ræða mál sem er flutt einvörðungu af þingmönnum Sjálfstfl. Ég held að það sé alveg ljóst að um að er ræða mál sem sker á öll flokksbönd. Kannski hefði verið farsælla fyrir framgang málsins, án þess að það ráði afstöðu minni, að leitað hefði verið eftir stuðningi fleiri stjórnmálaflokka við málið. Þetta er einfaldlega eitt af þeim málum sem öllum á að gefast færi á að tosa fram. En ég lasta það eigi að síður ekki. Það er góður hugur sem þarna er að baki.

Hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir benti á að það væri að vísu búið að setja upp samráðsvettvang þar sem í eiga sæti þrír ráðherrar og forustumenn aldraðra og ég vona að nauðsynin sem virðist knýja hv. þm. til þess að flytja málið bendi ekki til þess að einhverjar snurður séu á samstarfsþræði hinna þriggja ráðherra og forustumanna aldraðra. Þetta er dæmi um mál sem hefði getað verið ráðið til lykta á þeim vettvangi og nú er það svo að hinir öflugu þingmenn Sjálfstfl. sem standa að tillögunni hafa væntanlega alla burði til þess að koma málinu í gegnum ríkisstjórn sína og þingflokka sína. Ég vona sannarlega, vegna þess að málið er gott, að þessi aðferð bendi ekki til þess að það kunni að vera einhver fyrirstaða innan flokka. Ég geri því ekki skóna en stundum gerist það þegar um er að ræða góð mál sem kunna að kosta erfiðleika og jafnvel einhverja fjármuni, eins og ég hygg að þetta tiltekna mál kunni að gera, að ákveðin fyrirstaða er hjá ráðherrum og þeim sem fara fyrir flokkum. Þá gerist það að burðugt fólk þarf að taka á honum stóra sínum til þess að knýja hið góða mál í gegnum flokksmúrana. En ég er viss um að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson mun upplýsa okkur um það í ræðu sinni á eftir.

Ég vil svo að endingu, herra forseti, lýsa aftur stuðningi mínum við málið og sömuleiðis að ég hygg að það væri mjög farsælt ef það væri tekið upp af þessari nefnd, sem ég geri ráð fyrir að verði sett á laggir í kjölfar samþykktar tillögunnar, að taka upp þá hugmynd sem kom fram hjá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur að breyta lögunum þannig að menn geti minnkað við sig vinnu smátt og smátt. Ég hlýddi e.t.v. ekki nægilega gaumgæfilega á mál hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar en það kemur ekki fram í greinargerð með tillögunni að líka sé ætlast til þess að það verði gert. En ég tek undir með hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur að það er ákaflega nauðsynlegt að regluverkið verði svo úr garði gert að menn geti unnið sig niður úr heilli vinnu í hlutastörf.