Skipan nefndar um sveigjanleg starfslok

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 19:00:39 (4955)

2000-03-06 19:00:39# 125. lþ. 72.5 fundur 312. mál: #A skipan nefndar um sveigjanleg starfslok# þál. 16/125, Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[19:00]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls í umræðum um sveigjanleg starfslok. Ég vildi aðeins segja örfá orð að lokum og beina þeim þá fyrst til þeirra sem hér töluðu og veltu vöngum yfir því hvers vegna eingöngu sjálfstæðismenn stæðu að þessari þáltill. Það má kannski segja að e.t.v. hafi ekki nægjanlega verið haldið á því af hálfu 1. flm. að leita til fleiri góðra manna. Hins vegar þóttist ég vita það af verkum annarra þingmanna en sjálfstæðisþingmanna að þeir taka líka til hendi þegar góð mál eru flutt og þóttist vita af fullum stuðningi þeirra þó að ég kallaði ekki á undirskriftir þeirra undir þáltill. En ég treysti því að þeir muni auðvitað vel að verki standa hér eftir sem hingað til.

Það er rétt, eins og hér hefur komið fram, að auðvitað er það mikill sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið að viðhafa sveigjanleg starfslok. Það er ljóst, margumrætt og kannað og við þurfum ekki að fara yfir hafið til þess að leita upplýsinga hjá öðrum þjóðum þar um. Ég held því líka fram að þegar öldruðum er ýtt til hliðar þá kemur auðvitað að því að þeir finnst þeir vera vanmáttugir og eiga litla framtíð.

Það kom hér líka fram um endurmenntun að ekki er langt síðan viðtal var við merkan bankastjóra sem lýsti því yfir að bankinn sem hann stjórnaði reiknaði með að eyða að meðaltali 500 þús. kr. á ári til að endurmennta hvern og einn starfsmann. Við sjáum því að stjórnendur fyrirtækja eru auðvitað farnir að líta mjög til þess hvað það þýðir að mennta ungt fólk til þess að öðlast mikla þekkingu og reynslu sem einmitt eldra fólk hefur aflað sér. Við vitum að þekking og reynsla starfsmanna eftir langan starfsdag er auður fyrirtækjanna og auður fyrir þjóðina sem hún hefur ekki efni á að kasta á glæ. Við höfum líka séð það á undanförnum árum að við miklar umbreytingar og byltingarkenndar rekstraráætlanir fyrirtækja var öldruðum stundum ýtt hratt úr starfi áður en að hinum löggiltu starfslokum kom.

En sem betur fer hafa breytingar orðið á og hinir yngri stjórnendur áttað sig á því að þekking og reynsla hinna eldri í fyrirtækjum er gulls ígildi.