Hætta af völdum bensín- og olíuflutninga um Reykjanesbraut

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 19:09:01 (4957)

2000-03-06 19:09:01# 125. lþ. 72.6 fundur 320. mál: #A hætta af völdum bensín- og olíuflutninga um Reykjanesbraut# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[19:09]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þessi þáltill. er hið þarfasta mál. Áðan var komið inn á það í máli sem var hér á dagskrá að ákveðnir aðilar í einum flokki hefðu valist saman til að leggja fram þáltill. Hins vegar má segja að það sé líka nokkuð merkilegt að enginn þingmaður Reykvíkinga skuli standa að þessari þáltill. vegna þess að Reykjanesbraut skiptir Reykvíkinga mjög miklu máli.

Ég hef sagt áður í umræðu um þetta mál að kannski væri verið að fara bakdyramegin að þeim staðreyndum sem blasa við, þ.e. þeirri hættu sem því fylgir að flytja eldsneyti um Reykjanesbraut og kemur hér fram í töflum bæði um mikla umferð og þunga eldsneytisflutninga.

Það er aðeins eitt sem ég vildi þó vekja athygli á í þessari þáltill. og það er þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Vitað er að einn olíuflutningabíll með tengivagni eyðir slitlagi á við marga fólksbíla.``

Hér er vægt til orða tekið. Þetta er í sjálfu sér umhugsunarefni almennt um vöruflutninga á landi. Þetta er mjög til umhugsunar vegna þess að sú staðreynd blasir við að þessir þungu vöruflutningabílar með tengivögnum eyða á við 10 þúsund og upp í 30 þúsund smábifreiðar í einni ferð. Þegar grannt eru skoðaðar upplýsingar sem koma frá Vegagerðinni þá er hér um að ræða óhemjumikið slit á þjóðvegum landsins vegna þessara flutningabíla. Þess vegna held ég að við höfum farið allt of geyst í að afnema eða draga úr strandflutningum jafnskjótt og snöggt og raun ber vitni. Þó þeir séu ástundaðir enn þá er ég sannfærður um að sá kostnaður sem liggur að baki vörudreifingar með vöruflutningabílum um vegakerfi okkar sé þjóðinni mjög óhagstæður.

Það á væntanlega eftir að koma fram annars staðar hve mikill kostnaður er vegna slits á þjóðvegum.

Ég vildi hins vegar segja og ítreka það sem ég sagði áður að ég tel að full ástæða sé til þess að stuðla að því að þetta eldsneyti verði flutt sjóleiðina annars finnst mér umhverfisskaðinn liggja í augum uppi, að ég tali nú ekki um þann skaða sem fólk yrði fyrir ef alvarlegt slys yrði á Reykjanesbrautinni. Ég endurtek það að þingmönnum Reykjavíkur kemur Reykjanesbrautin mjög við svo mikið sem þeir aka þann veg. Eins og ég hef líka áður getið þá er Reykjanesbrautin auðvitað hluti af umferðaræðakerfi höfuðborgarinnar og höfuðborgarsvæðisins og það skiptir miklu máli að einhver taktur sé í þeim framkvæmdum sem snúa að Reykjanesbrautinni gagnvart öðrum stofnvegum og aðalbrautum höfuðborgarinnar, þ.e. þegar Reyknesingar eru á leiðinni vestur eða austur með landinu.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Þessi þáltill. er allrar athygli verð en það er farin of löng leið að kjarna málsins með þessu að mínu áliti. Samt sem áður mun ég að sjálfsögðu styðja hana.