Hætta af völdum bensín- og olíuflutninga um Reykjanesbraut

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 19:13:10 (4958)

2000-03-06 19:13:10# 125. lþ. 72.6 fundur 320. mál: #A hætta af völdum bensín- og olíuflutninga um Reykjanesbraut# þál., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[19:13]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Mér datt þetta helst í hug í framhaldi af lokaorðum hv. þm.: ,,Kemst þó hægt fari, fóstri.``

Markmið þessarar tillögu er að fá Hollustuvernd til þess að leggja hlutlægt mat á þá hættu sem hv. þingmenn hafa bent á og fram kemur í greinargerð með tillögunni. Í framhaldi af því er eðlilegt og rökrétt að bregðast við.

Herra forseti. Ég tek enn fremur undir það sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að Reykjanesbrautin er auðvitað ekki málefni Suðurnesjamanna þó aðallega séu það Suðurnesjamenn sem eru flutningsmenn tillögunnar. Reykjanesbrautin er braut allra landsmanna enda ein fjölfarnasta akbraut landsins, m.a. vegna Keflavíkurflugvallar og alþjóðaflugsins þar.

Það er enn fremur hárrétt að slit af einum fullhlöðnum olíuflutningabíl með tengivagni eða öðrum vöruflutningabíl er á við nokkra tugi þúsunda fólksbíla í verstu tilvikum og þar kann einmitt að liggja meginástæðan fyrir hinum alræmdu rásum á Reykjanesbrautinni sem bæði kosta slit og mikla slysahættu.

[19:15]

Ég tek mjög undir það sjónarmið að vert sé að ræða það á breiðari grundvelli en bara í tengslum við þessa þáltill., þ.e. almennt um vöruflutninga um landið. Ég tek undir það sjónarmið að skipaflutningar séu miklu hentugri að mörgu leyti og við höfum farið of geyst. Fyrir því eru svo margþætt rök sem ekki gefst tími til að rekja í stuttu andsvari.

Ég vil þakka hv. þm. sem og öðrum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fyrir stuðning við þáltill. Ég vona svo sannarlega að hún fái fljóta og skjóta afgreiðslu í hv. umhvn.