Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 19:38:28 (4963)

2000-03-06 19:38:28# 125. lþ. 72.7 fundur 357. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (náttúrugripasöfn) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[19:38]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þessa frv. og styð það því heils hugar. Hér er verið að hreyfa mjög þörfu máli með því að byggja undir það sem unnið er að um hinar dreifðu byggðir landsins, byggja upp þekkingu og vísindastörf, byggja upp söguþekkingu og byggja upp söfn sem varpað geta ljósi á söguna og náttúrufarið. Slíkar breytingar mundu efla viðkomandi í byggðakjarna bæði menntun, starf og þekkingu og einnig atvinnustarfsemi og ferðaþjónustu.

Hægt væri að ræða fjölmargt sem tengist þessum málum. Ég held að málið snúist um mjög þarfar stofnanir. Auðvitað er ekki hægt að reisa slíkar stofnanir í mörgum byggðakjörnum en ég tel að eitt slíkt gott safn í hverju kjördæmi sé mjög æskilegt markmið. Ég tel raunhæft að sækjast eftir fjármagni og stuðningi frá ríkisvaldinu til þess verks.

Ég held að náttúrustofur og náttúrusöfn, þar sem þau geta unnið saman, séu hið besta mál. Í því sambandi væri hægt að sýna fram á fjölmargt. Ég hygg t.d. að ef það væri skoðað, sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vék hér áðan, að kanna sögu og líf fólks á norðanverðum Vestfjörðum þar sem byggð er ekki lengur, eins og á Hornströndum, þá væri hægt að leiða fram ýmsa þekkingu og notagildi af náttúrunni sem mönnum fyndist kannski ekki alveg samrýmast því sem lýtur að náttúruvernd og dýraverndunarlögum í dag. Ég hygg þó að á sínum tíma hafi það þótt afskaplega eðlileg nýting náttúrunnar. Jafnvel væri rétt að skoða hvort slík nýting, nýting kynslóðanna í gegnum árin á náttúru- og dýralífi þessa svæðis, gæfi ekki tilefni til að endurskoða náttúruverndarlög.

Til nánari skýringar get ég sagt frá því við þessa umræðu að ég átti því láni að fagna að alast upp í sveit í Jökulfjörðum norður og eins í Reykjafirði á Hornströndum. Ég er af þeirri kynslóð sem þurfti að umgangast náttúruna út frá því að náttúran væri eitthvað sem fólkið nýtti. Ég minnist þess t.d. þegar menn voru við heyskap norður í Jökulfjörðum að ef kópur kom í fjöruna, þó það væri brakandi þurrkur, þá var gripið til byssunnar og kópurinn skotinn. Heyið beið bara á meðan. Þetta var auðvitað eðlileg nýting náttúrunnar. Með sama hætti upplifði ég líka að menn komu undir bjarg, eins og kallað var, að vori til. Þá var ekkert verið að víla fyrir sér hvort fuglinn var nýorpinn eða kominn að því að unga út, menn skutu sér bara í matinn eftir þörfum. Það mundi kannski ekki samræmast alveg núgildandi náttúruverndarlögum en þetta var nýting á náttúru Íslands í þessum byggðum á Norður-Ströndum. Ég held samt sem áður að það fólk sem þarna lifði hafi borið mikla virðingu fyrir náttúrunni. Það nýtti sér hins vegar aðeins það sem það þurfti til viðurværis og taldi í raun sjálfsagt.

Ég hygg því að margt geti fallið undir starfsemi bæði náttúrugripasafns, sem sýnir þá söguna annars vegar, og hins vegar náttúrustofur sem rannsaka náttúruna og nýtingu hennar. Ég held að við séum hér að hreyfa mjög þörfu máli og vonast til að fá við það víðtækan stuðning á hinu háa Alþingi.