Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 13:32:44 (4966)

2000-03-07 13:32:44# 125. lþ. 73.96 fundur 361#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[13:32]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að gera athugasemd við svar við fyrirspurn sem ég fékk frá hæstv. viðskrh. á þskj. 577, og dreift verður í þinginu í dag, um lánveitingar til sjávarútvegsfyrirtækja.

Fyrirspurnin sem ég bar fram til hæstv. ráðherra er almenns eðlis um lánveitingar til sjávarútvegsins og veðsetningar á fiskiskipum vegna þeirra lánveitinga. Ekki var spurt um sundurliðun á þessum stærðum milli einstakra lánastofnana. Svarið er ákaflega ófullkomið hjá hæstv. ráðherra og gefur litla sem enga mynd af því sem um er spurt.

Hæstv. ráðherra vitnar til þess að ekki sé unnt að veita upplýsingar þar sem það rýri samkeppnisstöðu lánastofnana á fjármálamarkaði og gangi gegn þagnarskylduákvæðum. Ég vísa þessum rökstuðningi á bug, enda var einungis spurt um heildarlánveitingar, eina upphæð hjá öllum lánastofnunum en ekki sundurliðað eftir lánastofnunum eða einstaklingum. Það er allt of oft, herra forseti, sem þingmenn fá ófullkomnar eða villandi upplýsingar frá ráðherrum og framkvæmdarvaldinu og á því verður að taka að mínu viti. Þetta gengur ekki að þinginu sé ekki gert kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu og eftirlitsskyldu með því að ráðherra þverskallist við að veita umbeðnar upplýsingar.

Ég tel því afar brýnt, herra forseti, að forsn. taki mál þetta til skoðunar, ekki bara þetta eina mál sem ég vitna til heldur almenna upplýsingaskyldu ráðherra til þingsins vegna þess að það er allt of oft sem þingmenn þurfa að stíga í pontu eftir að hafa fengið svar frá ráðherra til að gera athugasemdir við svörin. Því tel ég að forsn. eigi að taka þetta mál upp og beini þeirri formlegu ósk til hæstv. forseta og að um það verði fjallað hvernig hægt er að tryggja að þingmenn fái víðtækari rétt til upplýsinga frá framkvæmdarvaldinu en verið hefur og hvernig hægt er að koma því svo fyrir að ráðherrar gefi þinginu eðlilegar upplýsingar og svari því sem um er spurt. Ég vitna til þess að í umræðum um starfsskilyrði stjórnvalda kom fram í skýrslu forsrh. að þennan rétt þyrfti að tryggja betur.