Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 13:35:05 (4967)

2000-03-07 13:35:05# 125. lþ. 73.96 fundur 361#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[13:35]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talar um eðlilegar upplýsingar. Ég vil segja í því sambandi að þær upplýsingar sem hv. þm. óskar eftir liggja ekki fyrir með aðgengilegum hætti og í öðru lagi er hv. þm. að spyrja um málefni sem varða einkamál en ekki mál opinbers eðlis.

Niðurstaða skýrslu sem hæstv. forsrh. lagði fyrir þingið 1997 var höfð til hliðsjónar en hún fjallar um rétt alþingismanna til að krefjast aðgangs að upplýsingum. Þessi skýrsla var unnin af prófessor Stefáni Má Stefánssyni. Upplýsingarnar sem hv. þm. biður um varða ekki opinber málefni heldur einkamál. Í 49. gr. þingskapa segir eitthvað á þá leið að alþingismönnum sé heimilt að óska svars um opinber málefni.

Hlutafélagi er ekki skylt að veita upplýsingar um þau atriði sem hv. þm. spyr um. Ég vil segja það að lokum að þetta svar er unnið eftir bestu samvisku og farið er eftir þeim lögskýringargögnum sem liggja fyrir um svörin. Hv. þm. spyr um svo sérgreind atriði að engin leið er að ná slíkum upplýsingum út úr bankastofnunum þó svo það væri almennt heimilt. Það er nefnilega ekki þannig að stutt sé bara á einhvern takka eins og manni finnst stundum að hv. þm. reikni með og þar með liggi upplýsingarnar fyrir.