Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 13:41:59 (4972)

2000-03-07 13:41:59# 125. lþ. 73.96 fundur 361#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[13:41]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér fannst svör hæstv. viðskrh. mjög fátækleg og að vitna í það að hér sé um einkamál að ræða en ekki opinbert mál. Tilefni þessarar fyrirspurnar er mjög umdeilt frv. sem var samþykkt 1997 sem snerti veðsetningu lána í fiskiskipum. Tilefni fyrirspurnarinnar var að meta reynsluna af þeirri lagasetningu. Ef Alþingi er gert ókleift að fylgja eftir með eftirliti þeim lagasetningum sem hér eru afgreiddar þá veit ég ekki hvert við erum að stefna.

Það er orðið mjög mikið áhyggjuefni hvernig ráðherrar flýja alltaf í skjól hlutafélagalaga og laga sem snerta þagnarskylduákvæði og það sem varðar samkeppnisstöðu fyrirtækja og lánastofnana til að koma í veg fyrir að þingmenn fái eðlilegar upplýsingar til að geta sinnt hlutverki sínu. Auðvitað hljóta þær upplýsingar að liggja fyrir sem um er spurt til þess að banki geti fylgst með lánveitingum. Það er spurt um þróun lánveitinga í sjávarútvegi. Það er spurt um í hve mörgum fiskiskipum með aflahlutdeild hefur verið tekið veð. Það er spurt um eftirstöðvar lána hjá lánastofnunum sem tryggð voru með veði í fiskiskipum. Mig mundi undra það mjög ef slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir í bönkunum.

Það er eins og smátt og smátt sé verið að loka fyrir allar upplýsingar til þeirra þingmanna sem um þær biðja. A.m.k. er það svo að ráðherrar reyna að koma sér hjá að svara ýmsu því sem þingmenn þurfa að fá vitneskju um til að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu. Þess vegna fagna ég því sem fram kom hjá hæstv. forseta að málið verði tekið upp í forsn. vegna þess að það er orðið afar brýnt að þingmenn og forsn. ræði þá stöðu sem sífellt er að koma upp í þinginu og hvernig framkvæmdarvaldið er æ ofan í æ að keyra yfir þingið og rétt þess til að fá upplýsingar. Á því þarf að taka og tryggja með því rétt þingmanna í þessu efni.