Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 13:50:00 (4978)

2000-03-07 13:50:00# 125. lþ. 73.96 fundur 361#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[13:50]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég er alveg undrandi á því að hv. þingmenn skuli halda því fram að verið sé að loka á upplýsingar en það er einu sinni þannig að ráðherrar verða að fara að lögum þegar þeir svara spurningum og það sama gildir um þingmenn. Eins og ég kom inn á áðan kveður 49. gr. þingskapa á um að alþingismönnum sé heimilt að óska svars um opinber málefni en ekki einkamálefni.

Hvað það varðar að þetta mál verði tekið upp í forsn. þá stjórna ég því að sjálfsögðu ekki en ég vil þó ítreka að ráðherrar bera sjálfir ábyrgð á svörum sínum og ég skorast ekki undan ábyrgð í sambandi við það svar sem hér er borið fram.

En út af ræðu hv. þm. Kristjáns Pálssonar áðan þegar hann talaði um að nauðsynlegt væri að vita hvernig sameign þjóðarinnar væri veðsett þá var það einu sinni svo með lög um samningsveð þegar þau voru lögfest á Alþingi að óheimilt er að veðsetja kvóta eins og hv. þm. hlýtur að muna.

Ég er komin með þetta svar fyrir framan mig, sem reyndar er ekki búið að dreifa á hv. Alþingi, en þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

,,Sérstaklega er tekið fram að ekki er unnt að svara 2.--4. lið nema að takmörkuðu leyti. Kemur þar tvennt til. Í fyrsta lagi eru þessar upplýsingar í fæstum tilfellum aðgengilegar í upplýsingakerfum lánastofnana og því reyndist fæstum lánastofnunum unnt að svara á þeim knappa tíma sem gefinn er til að svara skriflegum fyrirspurnum skv. 49. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Í öðru lagi er ekki unnt að veita upplýsingar sem eru til þess fallnar að rýra samkeppnisstöðu lánastofnana á fjármálamarkaði eða ganga gegn þagnarskylduákvæði 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og ákvæðum reglna Verðbréfaþings Íslands um upplýsingagjöf.``