Málefni Þjóðminjasafnsins

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 14:17:47 (4988)

2000-03-07 14:17:47# 125. lþ. 73.97 fundur 364#B málefni Þjóðminjasafnsins# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[14:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að hæstv. menntmrh. svaraði ekki þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann í inngangserindi mínu nema að litlum hluta, hann svaraði engu til um ábyrgð þeirra aðila sem ég gat um.

Ég hef nefnt það úr þessum ræðustól áður að ég gagnrýni ráðherra fyrir að standa ekki nægilega vel við bakið á þeim stofnunum sem heyra undir hann og ráðuneyti hans. Ég gagnrýni hæstv. menntmrh. enn fyrir að styðja ekki nægilega vel við bakið á Þjóðminjasafni Íslendinga. Ég auglýsi eftir svörum um starfsemi safnsins á lokunartíma þess, um það heyrðum við ekki orð í ræðu hæstv. menntmrh.

Herra forseti. Ég skelfist það sem er að gerast í málefnum safnsins og mig langar til að spyrja hæstv. menntmrh. um boðskap hans í nýjum bæklingi sem er nýútkominn um menntun og menningu fyrir alla þar sem hann segir, með leyfi forseta:

,,... að sett verði lög um varðveislu menningararfsins, fornminjavörslu, starfsemi safna og húsafriðun. Hlutverk Þjóðminjasafnsins verði skilgreint með hliðsjón af nýjum verkefnum, viðfangsefnum og breyttum áherslum. Skráning og rannsóknir fornleifa byggist ekki einungis á frumkvæði og framkvæmd opinberra stofnana, starfskraftar vaxandi fjölda vel menntaðra fornleifafræðinga fái notið sín í þágu brýnna verkefna víða um land.``

Ég spyr, herra forseti: Er þetta boðskapur einkavæðingar sem er hæstv. menntmrh. satt best að segja afskaplega tamur? Ég fullyrði að þjóðararfurinn er auðlind sem þjóðin á í sameiningu. Þessi auðlind getur orðið okkur til mikilla hagsbóta í mörgu tilliti og ég nefni bara menningartengda ferðaþjónustu sem við eigum að leggja miklu meiri áherslu á en við gerum í dag. Þó að ferðaþjónusta sé markaðsvara gildir ekki það sama um minjavörslu eða rannsóknir á fornminjum. Það er ekki hægt að markaðsvæða menningararfinn okkar, herra forseti.