Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 14:22:41 (4990)

2000-03-07 14:22:41# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli sem iðnrh. fyrir frv. til laga um starfsréttindi tannsmiða sem flutt er á þskj. 246, 210. mál. Markmiðið með frv. þessu, sem samið hefur verið í iðnrn. og er endurflutt með vissum breytingum, er að tryggja rétt tannsmiða til að geta starfað sjálfstætt í grein sinni sem er löggilt iðngrein, við smíði og viðgerðir á tanngómum og tannpörtum og þá unnið á eigin ábyrgð við töku móta og mátun.

Samkvæmt hæstaréttardómi í árslok 1995 um túlkun á tannlækningalögum hafa tannsmiðir ekki heimild til að starfa sjálfstætt við mótatöku og mátun í munnholi að óbreyttri löggjöf. Gagnstæð niðurstaða varð í héraðsdómi en nánar er vikið að dóminum í frv.

Úr þessum heimildarskorti er nauðsynlegt að bæta með sérlögum um tannsmiði enda þykir mér óviðunandi og andstætt meginhugsun iðnaðarlaga að tannsmiðir, sem eru iðnstétt en ekki heilbrigðisstétt, geti ekki á eigin ábyrgð sinnt mótatöku og mátun, verkþætti er tryggi að þeir geti starfað samkvæmt iðnréttindum sínum án þess að treysta á aðra stétt, þ.e. tannlækna.

Mótataka og mátun eru nauðsynlegir þættir í tannsmíði og þykja þau störf ekki þess eðlis að tannsmiðir geti ekki unnið þau sjálfstætt eins og önnur störf sem þeir vinna á grundvelli iðnaðarlaga í löggiltri iðngrein sinni. Þá get ég nefnt sem dæmi erlendis frá að í Danmörku hafa bæði almennir og klínískir tannsmiðir getað unnið slík störf sjálfstætt samkvæmt ákvæðum í lögum um klíníska tannsmiði. Einnig má benda á að undanþágur hafa tíðkast frá ákvæðum tannlækningalöggjafar hér á landi um einkarétt tannlækna til að vinna í munnholi manna. Þar kemur og fram að sérhæft aðstoðarfólk undir stjórn tannlækna getur sinnt þessum verkefnum. Nánar er gerð grein fyrir þessu í frv.

Ég vil taka það fram að eftir vorþing 1998 hefur frv. verið breytt í nokkrum tilvikum. Kröfur hafa verið hertar og réttindanámskeið skilgreint. Breytingar á 1. mgr. 1. gr. felur í sér að starfsréttindin miðast við meistara í tannsmíði í stað tannsmiða. Jafnframt segir í 3. gr. að ráðherra sé skylt að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna með reglugerð, ekki heimild eins og áður var. Þar er honum einnig skylt, ekki heimilt, að kveða á um með hvaða skilyrðum tannsmiðir skuli taka þátt í námskeiði til að geta öðlast starfsréttindi.

Þá er bætt við í 3. gr. að iðnrh. geti sett reglur um að hluti af starfi tannsmiða skv. 1. mgr. 1. gr. skuli unninn í samstarfi við tannlækna en slíkt getur leitt til nokkurrar formlegrar takmörkunar á starfsheimild tannsmiða.

Við endurskoðun frv. var höfð hliðsjón af umræðum um fyrra frv. á hv. Alþingi og umsögnum um það. Samanburður á námi íslenskra og danskra tannsmiða var gerður í samvinnu við formenn Tannlæknafélags Íslands og Tannsmiðafélags Íslands. Námskeiðið var borið sérstaklega undir menntmrn. Þá hefur álit Tannlæknafélags Íslands um efnisatriði frv. verið athugað og Tannsmiðafélagi Íslands gerð grein fyrir þessum atriðum.

Að því er varðar einstakar greinar frv. vil ég taka eftirfarandi fram: Viðvíkjandi 1. mgr. 1. gr. um störf við mótatöku og mátun vegna smíða og viðgerða á tanngómum og tannpörtum vil ég ítreka að kröfur hafa verið hertar frá fyrra frv. þannig að meistararéttindi þarf til að geta unnið þessi störf sjálfstætt, með öðrum orðum á eigin ábyrgð en ekki undir handleiðslu og á ábyrgð annarra. Nám tannsmiða er miklu lengra en nám sérhæfðs aðstoðarfólks tannlækna sem getur unnið þessi störf á ábyrgð tannlækna.

Tannsmíðanámið er nú fjögur ár en við bætist meistaraskólanám í tvær til fjórar annir og eins árs starf hjá meistara til að fá meistararéttindi, þ.e. tannsmíðameistari hefur fimm til sex ár að baki við tannsmíði, fimm ár ef stúdentspróf er til staðar en það hafa flestir nú.

Því hefur verið bætt í 3. gr. frv. að þrengja megi starfssvið skv. 1. mgr. 1. gr. með því að áskilja samstarf við tannlækna í ákveðnum tilvikum. Slík heimild hefur verið notuð í Danmörku að því er varðar tannparta en gengið var út frá því í fyrra frv. að slíkt samstarf um tannpartagerð væri jafnsjálfsagt og samstarf tannsmiða og tannlækna um krónu- og brúargerð en engin lagaákvæði mæla fyrir um slíkt samstarf.

Í 1. mgr. 1. gr. er sleginn sá varnagli eins og í dönsku lögunum um klíníska tannsmíði að ekki séu sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar. Í þessum tilvikum mundu tannsmiðir vísa viðskiptavinum sínum til heimilislækna eða annarra sérfræðinga, m.a. tannlækna, og afla jafnvel heilbrigðisvottorða í vafatilvikum áður en vinna hefst. Telja má til bóta að tannsmiðir geti athugað munnhol einstaklinga í tengslum við starf sitt þannig að vísa megi þeim viðskiptavinum til sérfræðinga sem eru hugsanlega með sjúklegar breytingar í munnholi. Í því sambandi má geta þess að þeir sem eru með lausa gervigóma, heilgóma, fara e.t.v. ekki lengur til tannlæknis eftir að þeir hafa misst allar tennurnar heldur til tannsmiðs.

Jafnframt má nefna hér að í reglugerð heilbr.- og trmrn. nr. 184 1991, um fótaaðgerðafræðinga segir:

,,Fótaaðgerðafræðingur má ekki án samráðs við lækni taka til meðferðar einstakling með augljós sjúkdómseinkenni svo sem sýkingu í fótum, sykursýki, hjarta-, blóð- eða æðasjúkdóma.``

Fara má með öðrum orðum beint til fótaaðgerðafræðingsins þótt hann hafi óefað ekki sömu þekkingu og læknir á því sem upp var talið.

[14:30]

Í 2. mgr. 1. gr. eru ákvæði um réttindi tannsmiða til annarra starfa í löggiltri iðngrein sinni, svo og áunnin réttindi til tannlækna og þeirra sem starfa undir handleiðslu og á ábyrgð þeirra.

Í 2. gr. eru ákvæði um refsingu við brotum á lögum, svo og réttarfar.

Í 3. gr. er kveðið á um skyldu iðnrh. til að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerð, ekki reglugerðarheimild eins og í fyrra frv. Þá segir og að iðnrh. skuli, ekki geti, í reglugerð kveða á um með hvaða skilyrðum tannsmiðir skuli sækja námskeið til þess að öðlast starfsréttindi samkvæmt fyrirhuguðum lögum og er gert ráð fyrir að það sé gert að höfðu samráði við menntmrn. Gert er ráð fyrir að menntun eða starfsreynslu sem aflað hefur verið, t.d. á grundvelli sjálfstæðs starfs samkvæmt samningi við Tryggingastofnun ríkisins megi meta sem ígildi námskeiðs eða hluta þess. Þá geta allir tannsmiðir sótt námskeiðin þótt meistararéttindi séu skilyrði fyrir veitingu starfsréttinda í kjölfar þeirra. Starfsréttindanámskeið virðast duga til að leysa núverandi vanda.

Varðandi námskeið var haft samband við skóla fyrir klíníska tannsmiði í tannlæknaskóla Árósaháskóla. Í svari danska skólans á fskj. II er að finna tillögu um réttindanámskeið fyrir tannsmiði á Íslandi. Tillöguna vann Helga Largren, tannlæknir við skólann, sem sér um kennslu í klínískum tannsmíðum en þær snúa að samskiptum við viðskiptavini.

Tillagan byggist á danskri áætlun um námskeið sem samþykkt var 1985 af dönskum stjórnvöldum, m.a. menntamálaráðuneytinu, nánar tiltekið námskeið sem veita átti starfandi tannsmiðum sömu starfsréttindi og nýskólagengnum klínískum tannsmiðum þar í landi.

Í tillögunni er gert ráð fyrir námskeiði með alls 133 tímum fyrir íslenska tannsmiði þar sem m.a. yrðu kennd undirstöðuatriði í meinafræði munnhols.

Í gögnum kemur fram að gengið sé út frá fullnægjandi tímasókn í fræðilega hlutanum en fullnægjandi færni í klíníska hlutanum. Reynist einhverju áfátt er jafnvel möguleiki á framlengingu eða framhaldskennslu.

Danir leystu starfsréttindavandamál sín 1985 með þessum hætti þannig að segja má að við gerum ekki minni kröfur en Danir, miðað við sambærilegar aðstæður, ef við förum að á sama hátt nú hér á landi, jafnvel meiri kröfur til starfandi tannsmiða með námskeiðinu miðað við viss ákvæði dönsku laganna frá 1979.

Framangreind tillaga hefur verið borin undir menntmrn. og gerir það ekki athugasemdir við umfang námskeiðsins sem standi öllum tannsmiðum til boða.

Með námskeiðinu má veita starfandi tannsmiðum nauðsynlegustu viðbótarþekkingu sem komið geti viðskiptavinum þeirra að góðum notum, jafnvel að mati krabbameinssérfræðinga. Þessi leið virðist henta best miðað við aðstæður hér á landi og er ekki raunhæft að gera kröfur um að bæta klínísku tannsmíðanámi eins og í Danmörku ofan á íslenskt tannsmíðanám enda er þá ekki tekið tillit til tvískiptingar tannsmíðanáms í Danmörku.

Í fskj. I með frv. er gerður nákvæmur samanburður á námi tannsmiða á Íslandi og í Danmörku. Þar kemur í mjög stuttu máli fram að íslenskur tannsmíðameistari hefur að baki mun fleiri tíma en danskur klínískur tannsmiður en sá síðarnefndi hefur mun fleiri tíma í klínískum greinum sem snerta vinnu í munnholi viðskiptavina og í tengslum við þá.

Í kostnaðarumsögn fjmrn. kemur fram að kostnaður við námskeið geti verið á bilinu 2--4 millj. kr. eftir fjölda þátttakenda og námskeiðsstað. Gera verður ráð fyrir að kostnaður skiptist milli ríkis og þátttakenda. Telur fjmrn. að samþykkt frv. geti leitt til sparnaðar hjá almenningi og hjá Tryggingastofnun ríkisins sem greiddi á síðasta ári um 40 millj. kr. vegna tannsmíða þótt ekki séu forsendur til að áætla fjárhæðir í því sambandi.

Í tengslum við kostnaðarumsóknina vil ég taka fram að í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 29/1997 var sú vinna við viðskiptavini sem ráðið taldi þurfa að fara fram í tengslum við tannsmíðavinnu talin falla undir samkeppnislög. Undirstrikaði ráðið þá meginreglu samkeppnisréttar að allar hömlur á svigrúm manna í atvinnurekstri væru almennt til þess fallnar að draga úr samkeppni eða hafa skaðleg áhrif á samkeppni á tilteknum markaði og taldi ekki ástæðu til að ætla annað en samkeppni milli t.d. tannlækna og tannsmiða stuðlaði að lægra verði, hagkvæmni og betri þjónustu á sama hátt og í annarri atvinnustarfsemi. Þessu er ég sammála og tel hagkvæmt þeim fjölmörgu neytendum sem þurfa á tannsmíðaþjónustu að halda.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum enn á ný leggja áherslu á að nauðsynlegt er að tryggja rétt tannsmiða til að geta starfað sjálfstætt í grein sinni sem er löggilt iðngrein við smíði og viðgerðir á tanngómum og tannpörtum og að þeir geti þá unnið á eigin ábyrgð við töku móta og mátun sem yrði lítið brot af starfi þeirra.

Legg ég til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. iðnn. og tel eðlilegt að hún óski síðan eftir áliti heilbr.- og trn. á málinu í vinnu sinni.