Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 14:49:39 (4995)

2000-03-07 14:49:39# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[14:49]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil líka koma því á framfæri við hv. þm. Hjálmar Árnason að út frá mínum bæjardyrum séð og út frá þeim upplýsingum sem ég hef þá skil ég í raun og veru ekki vandamálið vegna þess að ég veit ekki betur en að þeir tannsmiðir og tannlæknar sem ég hef talað við séu í ágætis samstarfi um þetta, þ.e. að tannlæknirinn gefi tilvísun á að hefja megi tannsmíðar. Ég vil enn og aftur árétta það að iðnaður, eða iðnaðarmál, sem þjónar mannskepnunni eða lifandi fólki er á öðrum nótum en almennt gerist um iðnað og þess vegna hlýtur að vera mjög náið samstarf læknis og iðnaðarmanns sem býr til stoðtæki eða í þessu tilfelli gervitennur. Það hlýtur að þurfa að vera náin samvinna og á að vera náin samvinna. Enn og aftur vil ég árétta að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er í langflestum tilvikum gott samstarf á milli tannsmiða og tannlækna og í mjög mörgum tilfellum eru þetta iðnaðarmenn sem vinna í sömu húsakynnum og nánast hlið við hlið. Þess vegna er erfitt að skilja að þetta þurfi að vera vandamál og þetta sé tannsmiðum kannski ekki til eins mikilla hagsbóta eins og þeir vilja vera láta, enda hefur það komið fram að þessi breyting gæti gert sig á sléttu svo að segja.